Þessar vikurnar breytist fyrirkomulag ræstinga í húsum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Torfnesi á Ísafirði.

Fyrirtækið Massi þrif hefur sinnt ræstingum í um 20 ár á stofnuninni. Stórum hluta ræstinganna hefur þó verið sinnt af ræstingadeild. Tilefni var til að endurskoða það fyrirkomulag sem var úr sér gengið og var samningnum við Massa því sagt upp í vetur með gildistíma uppsagnar 31. ágúst. Í kjölfarið voru ræstingar í aðalbyggingu og Eyri boðnar út saman, í samræmi við lög um opinber innkaup. Ríkiskaup aðstoðuðu við undirbúning útboðsins. Eitt tilboð barst, frá Sólar. Það uppfyllti öll skilyrði útboðsins og var talsvert undir kostnaðaráætlun stofnunarinnar. Fyrirtækið sinnir nú heilbrigðisþrifum fyrir m.a. Landspítala Fossvogi og fjölmörg hjúkrunarheimili.

Sólar tekur við ræstingunni 1. október. Fyrirtækið hefur hafið undirbúning og mun auglýsa eftir starfsfólki á næstu dögum. Ræstingadeildin í núverandi mynd verður lögð niður. Sú stefna hefur verið ljós síðan í vetur og var síðast kynnt starfsfólki á fundi með fulltrúum Verkalýðsfélags Vestfirðinga í vikunni. Starfsfólki deildarinnar verður boðið að flytjast til í starfi og nýtir nú tímann til að hugsa málið og ræða við mannauðsstjóra um hvaða lausnir henta hverjum og einum.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þakkar Massa þrifum samstarfið í gegnum árin og hlakkar til samstarfsins við Sólar.