Ávarp forstjóra

Nýliðið ár hefur verið viðburðaríkt, strembið og skemmtilegt í senn.

Covid-faraldurinn og viðbrögð við honum römmuðu árið inn; í blálok árs 2020 hófust bólusetningar meðal íbúa hjúkrunarheimila og við lok árs hafði omicron-afbrigðið ekki enn náð sér á strik svo heitið geti.

Meðal annarra verkefna sem sett hafa mark sitt á árið eru stytting vinnuvikunnar í dagvinnu og vaktavinnu, innleiðing á regluverki sem tengist persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins (GDPR) og nýtt útlit og ásýnd í loks árs.

Eins og í lífinu sjálfu hefur daglegt starf að nokkru færst inn í hinn rafræna heim, og Workplace hefur verið heimavöllur okkar til innri samskipta, kærkomið þegar öllum kaffitímum er aflýst, árshátíðum og skemmtilegheitum.

Árið í fyrra er fyrsta heila árið þar sem unnið er samkvæmt stefnu 2020–23 og því efni til að gera upp árið með tilliti til árangursvísa sem settir voru. Margir þeirra eru á grænu og mörg markmið hafa náðst. Önnur hafa ekki náðst, og er uppgjör af þessu tagi því gagnleg áminning um að gleyma ekki kúrsinum heldur halda áfram þó ekki gangi allt upp eins og ráðgert var.

Þegar ég skrifa þetta eru nýútkomnar niðurstöður úr könnuninni um Stofnun ársins sem mæla starfsánægju á ýmsa lund. Þær sýna að enn hækkar einkunn okkar. Hún hefur aldrei verið hærri og er hærri en hjá systurstofnunum okkar. Þetta er mikilvægt; með góðu og glöðu starfsfólki líður okkur öllum betur, en þjónustan batnar einnig því með aukinni starfsánægju höldum við starfsfólk lengur í starfi og við fáum fleiri umsóknir um laus störf.

Gylfi Ólafsson forstjóri

Nokkrar tölur

1200

Tölvusneiðmyndir

1447

Röntgenmyndir

224

Covid-smit í umdæminu. Voru 114 árið 2020 og 1.797 fyrstu 10 vikur ársins 2022

43

ferðir milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar
NorðursvæðiSuðursvæði
Komur til heimilislæknis91552731
Komur til hjúkrunarfræðings28861593
Sjúkraflug5032
Innlagnir á deild55150
Magaspeglanir58
Ristilspeglanir95
Fæðingar (konur sem voru í mæðravernd á stofnuninni en ólu börn sín á öðrum stofnunum)32 + (24)(20)
Nokkrar tölur úr starfsemi 2021

Stefna og árangursvísar

Stefna fyrir árin 2020–23 var samþykkt síðla árs 2020. Þar voru settar fram lykilaðgerðir og tölulegir árangursvísar.

Nú í upphafi ársins 2022 er tilefni til að gera upp 2021 sem fyrsta heila árið undir nýrri stefnu.

Ítarlegir árangursvísar voru 25. Tíu markmið náðust að fullu. Fjögur markmið náðust að hluta eða áhorfsmál hvernig til tókst. Ellefu markmið náðust ekki.

Uppgjör árangursvísana er bland í poka. Margir grænu punktarnir hafa krafist mikillar vinnu og við getum verið stolt af þeim. Aðrir liðir eru rauðir. Þar eru sum atriði sem við getum ekki ráðið fyllilega við, en önnur atriði sem hefði verið hægt að gera betur. Talsvert af gæðaverkefnum hefur setið á hakanum vegna róts og vinnuálags vegna heimsfaraldursins. Uppgjör af þessu tagi er engu að síður þörf áminning um það sem vel hefur gengið, upprifjun á þeim markmiðum sem við höfum sett okkur og gagnlegt tól til að forgangsraða takmörkuðum tíma og fjármunum.

Gylfi Ólafsson forstjóri

Hjúkrunarheimili

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða rekur fjögur hjúkrunarheimili:

  • Eyri á Ísafirði, 30 rými.
  • Hjúkrunardeild á Patreksfirði, 11 rými.
  • Berg í Bolungarvík, 10 eða 11 rými.
  • Tjörn á Þingeyri, 6 eða 7 rými.

Samtals eru þetta 57–59 rými eftir því hvernig tveggja manna herbergi eru setin.

Biðtími eftir rými er ásættanlegur á minni deildunum þremur, en hefur verið verulega lengri á Eyri.

Þrjár myndir um þróun mála á Eyri

Eyri opnaði 2016 með 30 rými og var þá þegar ljóst að þörf væri fyrir fleiri.

Unnið er að undirbúningi fjórðu 10-rýma einingarinnar við heimilið í samstarfi Ísafjarðarbæjar og ríkisins.

Fjöldi biðdaga þeirra sem fái inni á Eyri hefur verið langur síðan 2018 og verulega lengri en annarsstaðar á landinu.
Almennt hafa þeir forgang inn á hjúkrunarheimili sem hafa flest stig skv. mati Færni- og heilsumatsnefndar. Reglur gera þó ráð fyrir að sjúklingar sem legið hafa 6 vikur eða lengur á sjúkradeild, hafa lokið meðferð og eiga ekki afturkvæmt heim til sín hafi forgang inn á hjúkrunarheimili óháð stigafjölda. Árin 2018 og 2020 kom stór hluti þeirra sem fékk inni á Eyri beint af sjúkradeild.
Færni- og heilsumatsnefnd metur þörf fyrir hjúkrunarrými út frá spurningalista. Eftir því sem þörfin er meiri, þeim mun hærri stig fá umsækjendur. Hærri meðalstigafjöldi þeirra sem fá pláss sýnir að fólk á biðlistanum er hrumara en áður.
Heimahjúkrun jókst mjög mikið og um mitt ár 2021 dugði hún ekki lengur til. Staðan hefur breyst mjög til batnaðar síðan þessi mynd var dregin upp.

Í júlí var tekin sú ákvörðun að taka upp tvíbýli á Ísafirði og í Bolungarvík til að stytta biðlista. Biðlisti eftir hjúkrunarheimili hafði lengst töluvert í covid-ástandinu. Mjög mikil þörf hjá þeim sem voru á biðlistanum fyrir þjónustuna og heimahjúkrun dugði ekki lengur til.

Aðrir þjónustuþegar og aðstandendur sýndu þessari ákvörðun mikinn skilning og gekk þetta fyrirkomulag mjög vel. Á meðfylgjandi mynd sést þróun fjölda vitjana í heimahjúkrun sem lýsir stöðunni vel.

Síðan þá hefur biðlistinn eftir rými styst og verkefni heimahjúkrunar orðin viðráðanlegri. Rýmin eru ekki lengur tvísetin og vonandi mun ekki þurfa að grípa til þess ráðs í bráð áður en ný 10-rýma eining opnar á Ísafirði eins og ráðgert er.

Léleg læknamönnun

Stærsta einstaka vandamálið við stofnunina síðasta árið hefur verið léleg mönnun lækna á heilsugæslu og sjúkradeild.

Í þjónustukönnun sem gerð var að frumkvæði Sjúkratrygginga Íslands sjást niðurstöður fyrir skjólstæðinga í heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Hér til hægri eru tvær myndir af fyrirlestri GÓ á málþingi félags eldri borgara á Ísafirði og nágrenni sem haldið var 7. október 2021.

Ef við látum nægja tvær myndir sést á þeirri fyrri að langflestir skjólstæðingar okkar telja að vel hafi verið leyst úr erindi þeirra þegar þeir komu. Áfram er tilefni til að reyna að minnka það hlutfall sem telur að ekki hafi verið leyst með farsælum hætti úr erindi þeirra.

Seinni myndin sýnir það sem fólki finnst brýnast að bæta. Í efsta sæti er að stytta bið eftir tíma eða þjónustu, í næsta sæti að auðveldara sé að ná í lækni í síma og þriðja skráning á fastan heimilislækni. Í fjórða sæti er vísað í aukna rafræna þjónustu sem hægt er að túlka á ýmsa vegu, en til dæmis hefur reynst erfitt að virkja rafræna tímabókun hjá heilsugæslulæknum vegna þess hve þeir eru fáir.

Við lok árs 2021 var einn fastur skurðlæknir, Andri Konráðsson, einn fastur heilsugæslulæknir Súsanna Ástvaldsdóttir og einn sérnámslæknir í heimilislækningum, Kristrún Guðmundsdóttir. Þeim er ætlað að sinna skurð- og slysadeild, sjúkradeild og heilsugæslu á norðursvæði auk allrar vaktabyrði. Það sem upp á vantar er leyst með verktökum, kandídötum og afleysingalæknum í lengri og skemmri tíma. Á Patreksfirði eru verktakar sem skiptast á að taka viku og viku, en flestar vikur tekur Jón B.G. Jónsson sem lengi hefur starfað við stofnunina.

Það er forgangsmál að bæta læknamönnun með föstum læknum svo samfella verði í þjónustu, vaktabyrði verði ásættanleg og stöðugleiki fáist í starfsemina.

Ekki hefur tekist að manna fasta stöðu sálfræðings.

Var leyst vel eða illa úr erindi þínu þegar þú komst inn á heilsugæslustöðina? Langflestir sögðu að vel hefði verið leyst úr erindi sínu.
Hvað af eftirfarandi finnst þér brýnast að bæta á heilsugæslunni almennt? Langflest svörin snerust á einn eða annan máta um skort á læknum.

Sjúkraflutningar og sjúkraflug

Ísafjarðarbær rekur sjúkraflutninga í umdæminu í Djúpi og vestur í Arnarfjörð samkvæmt samningi við heilbrigðisstofnunina.

Á suðursvæðinu eru sjúkraflutningar reknir af stofnuninni beint.

Eftir lægð árið 2020 fjölgaði sjúkraflutningum verulega á báðum svæðum. Fjölgunin var einkum í F2–F4 en minna í F1, sem eru útköll með hæsta forgang.

Sjúkraflug frá Ísafirði voru 50 og sjúkraflug frá Bíldudalsflugvelli 32.

Endurhæfing

Stofnunin rekur endurhæfingardeild á Ísafirði. Hér til hægri eru nokkrar tölur úr starfsemi deildarinnar. Starfsemi deildarinnar var háð ýmsum annmörkum vegna covid og því færri komur en ella hefði verið. Árin fyrir covid voru komur á ári 11.000 til 13.000.

Í Bolungarvík og Patreksfirði eru sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar sem eru í stöðuhlutfalli við stofnunina við að þjálfa skjólstæðinga á hjúkrunardeildum.

Fjöldi skjólstæðingaFjöldi komaSkýring
Salur, sund1322146Þeir sem koma í æfingar í sundlaug eða sal. Gjarnan eftir útskrift úr sjúkraþjálfun.
Sjúkraþjálfun1832678Göngudeildarsjúklingar sem koma í sjúkraþjálfun samkvæmt beiðni.
Vinna á deild67910Þjálfun þeirra sem liggja inni á sjúkradeild
Þjálfun á Eyri431787Þjálfun íbúa á Eyri
Iðjuþjálfun1181391Iðjuþjálfun bæði göngudeildarsjúklinga, íbúa á Eyri og inniliggjandi sjúkradeild. Einnig hjálpartækjaumsóknir.
Samtals3508912

Ársreikningur

Sem fyrr er rekstur stofnunarinnar mikil áskorun en stöðugt er leitað leiða til að ná hagkvæmni í rekstri með auknu aðhaldi, aukinni kostnaðarvitund og tækninýjungum. Afkoma ársins 2021 var neikvæð um 61,5 milljónir króna eða 1,9% af tekjum. Gjöld hækkuðu á milli ára um 240,9 milljónir króna eða 7,8%. Á sama tíma hækkuðu tekjur talsvert minna eða um 104,9 milljónir króna eða 3,3%.

Vægi launakostnaðar var 73% sem hækkaði um 172,7 milljónir króna eða 7,7%. Heimsfaraldurinn hélt áfram að setja strik í reikninginn. Þá má nefna hækkanir vegna stofnanasamninga og styttingu vinnuvikunnar sem kallaði á aukna mönnun. Meðalfjöldi stöðugilda hækkaði um 20,3 stöðugildi á milli ára eða um 11,8%. Vægi annars rekstrarkostnaðar var 26% sem hækkaði um 61,8 milljónir króna eða 7,7%. Hækkun má rekja fyrst og fremst til hækkunar á sérgreindum vörukaupum, akstri og sérfræðiþjónustu. Afskriftir hækka um 6,4 milljónir króna eða 32,7% en fjárfestingar ársins námu 68 milljónum króna. Vægi fjárveitinga var 92,4% og hækkaði frá fyrra ári um 59,2 milljónir króna eða 2,0%. Vægi seldrar þjónustu var 6,0% og hækkaði um 36,0 milljónir króna eða 22,6% á milli ára. Hækkun má rekja til sérfræðiþjónustu, gjalda fyrir vistun og ýmissa þjónustutekna. –HÖH

Heilbrigðisumdæmið

Heilbrigðisumdæmi Vestfjarða er fámennasta umdæmi landsins og tekur til fimm sveitarfélaga. Umdæmið fylgir ekki sömu umdæmismörkum og til dæmis kjördæmi eða lögregluumdæmi. Öll hjúkrunarrými í umdæminu eru í rekstri heilbrigðisstofnunarinnar.

ByggðakjarniÍbúafjöldi 1. jan 2021
Patreksfjörður721
Tálknafjörður248
Bíldudalur238
Þingeyri292
Flateyri199
Suðureyri266
Bolungarvík934
Hnífsdalur203
Ísafjörður2.672
Súðavík160
Strjálbýli á Vestfjörðum687
Samtals6.620

Stuttur fréttaannáll

Árið einkenndist af covid og var stærsti hluti frétta á árinu covid-tengdar rauði þráðurinn í nánast öllum fréttum þetta árið.

Um miðjan janúar var tekin ákvörðun um að setja sjúkrahúsið á Ísafirði á hættustig þar sem sjúklingur sem greindist með kórónuveiruna á Landspítalanum naut áður þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þrír starfsmenn voru sendir í sóttkví og aðrir þrír í úrvinnslusóttkví. Þetta hættuástand stóð þó ekki yfir lengur en tæpan sólarhing þar sem allir þeir sem fóru í sýnatöku reyndust neikvæðir. Síðar kom í ljós að sýnið hjá sjúklingnum hafði sennilega verið falskt jákvætt.

Önnur bólusetning fyrir Covid-19. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði.

Í apríl var síðan komið að bólusetningum vegna covid og voru eldri borgarar og heilbrigðisstarfsfólk bólusett í stórum hópum og annasamt þegar hundruðir voru bólusettir daglega þegar mest var. Bólusetningar héldu áfram langt fram á sumarið og var eins og annarsstaðar einungis gert hlé í lok júlí til að gera starfsfólki kleift á að taka stutt sumarleyfi.

Sýni vegna covid voru í forgrunni í ágúst því þá þótti það fréttnæmt að sýni voru flutt suður með leigubíl. Allt frá því að sýnataka vegna covid hófst voru sýnin send suður með flugi en eins og allir vita sem hér búa þá kemur fyrir að flugsamgöngur falla niður. Í þeim tilfellum þá hefur starfsfólk auglýst bæði á Workplace-síðu stofnunarinnar og á Samferða-síðunni á fésbókinni eftir fari fyrir sýnin. Þannig hafa sýnin verið send og með hjálp samfélagsins og einstaka sinnum leigubíla hafa sýnin alltaf komist heil suður.

Í ágúst voru enn fleiri covid-fréttir því þá greindist einn starfsmaður stofnunarinnar á suðursvæðinu smitaður og tveir samstarfsmenn og átta skjólstæðingar fóru þar með í sóttkví. Svo sjaldgæf voru smitin þá að sú frétt rataði á síður fjölmiðla. Í lok ágúst voru stórir hópar af grunnskólanemendum teknir í sýnatöku og um áttatíu manns sendir í sóttkví.

Úr myndaalbúmi forstjóra

Af fréttum ótengdum covid á árinu var það helst að starfsfólk stofnunarinnar hefur nýtt sér Dýrafjarðargöngin til að stórbæta þjónustu stofnunarinnar á Patreksfirði með vikulegum ferðum á milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Helst ber þar að nefna aukna þjónustu ljósmæðra í mæðravernd, geðþjónustu og rannsókna en starfsfólk flytur ýmiskonar sýni á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar í þessum ferðum. Með tilkomu gangnanna telur starfsfólk stofnunarinnar að sameiningarferli Patreksfjarðar og Ísafjarðar sem hófst fyrir sjö árum sé því lokið.

Sigurveig tekur við kerti steypt eftir útliti gamla sjúkrahússinis þar sem hún hóf störf.
Starfsfólk endurhæfingardeildar. Við hlið Sigurveigar í dökkblárri skyrtu er Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir sem tók við starfi deildarstjóra endurhæfingardeildar.

Veiga hætti eftir rúmlega 40 ára starf

Um miðjan ágúst lét Sigurveig Gunnarsdóttir deildarstjóri endurhæfingardeildar af störfum eftir að hafa starfað hjá stofnuninni síðan 1980.

Á Ísafirði var endurhæfingarþjónusta ekki í boði eða sjúkraþjálfun svo nokkru nam fyrr en Sigurveig Gunnarsdóttir sjúkraþjálfari hóf störf í október 1980. Veiga hafði útskrifast tveimur árum áður í Árósum. Fyrstu árin var hún með aðstöðu í risinu á gamla sjúkrahúsinu, sem hefði verið ágætt ef skjólstæðingarnir hefðu nú komist upp stigana í lyftulausu húsinu! Lengi vel var hún ein við störf að frátöldu afleysingafólki. Sinnti hún öllu því sem til féll, bæði sjúklingum á sjúkrahúsinu og göngudeildarþjónustu.

Árið 1985 flutti deildin yfir í kjallara nýs sjúkrahúss. Vegna þröngs húsakosts á gamla staðnum var frágangi á endurhæfingunni flýtt umfram það sem áður hafði verið ráðgert. Við opnun var aðstaðan með betri endurhæfingadeildum á landinu með stórum tækjasal og sundlaug sem hentaði fyrir sundleikfimi og ungbarnasund af ýmsu tagi.

Hér í húsinu hefur hún svo verið alla daga. Nema þennan eina veikindadag sem hún þurfti að taka allan sinn starfsferil.

Veiga hefur verið alveg einstaklega farsæl í starfi. Hún er jákvæð og glaðlynd og fyrir utan fima en sterka fingur og hendur er hún með einstaklega góð eyru. Endurhæfingardeildinni hefur fyrir vikið haldist einstaklega vel á starfsfólki og skjólstæðingar ljúka upp einum rómi um gæðin á þjónustunni. –

Um sumarið var tekin sú ákvörðun að taka upp tvíbýli á Ísafirði og í Bolungarvík til að stytta biðlista. Biðlisti eftir hjúkrunarheimili hafði lengst töluvert í covid ástandinu og mjög mikil þörf hjá þeim sem voru á biðlistanum fyrir þjónustuna. Aðrir þjónustuþegar og aðstandendur sýndu þessari ákvörðun mikinn skilning og gekk þetta fyrirkomulag mjög vel.

Að lokum var það í fréttum af stofnuninni að vetur konungur mætti með hvelli í lok september en mikið óveður gekk yfir með þeim afleiðingum að loftplötur í kjallara losnuðu og þakpappi fauk af þakinu í aðalbyggingu sjúkrahússins. Engin slys urðu þó á fólki. Iðnaðarmenn brugðust skjótt við og engin röskun varð á starfseminni.

Allt árið 2021 hvatti stofnunin með ýmisskonar tilkynningum og orðsendingum fólk til að gæta að sóttvörnum, fara í sýnatöku og að mæta í bólusetningu. Fjölmennt var í hraðpróf seinni hluta ársins fram að jólum vegna langþráðra viðburða og samkoma sem þá mátti sækja með staðfestingu á neikvæðu hraðprófi. Vonandi verður minna af covid-fréttum árið 2022 og vonandi verður „þetta búið“ á því ári.

Fréttir til viðbótar af síðunni okkar eru: Endurbætur á húsnæði, tannlæknir sem kom og fór, Kisur og nýtt útlit.

Stjórnendur

Framkvæmdastjórn tekur allar helstu ákvarðanir sem varða rekstur stofnunarinnar. Hún hefur verið óbreytt allt árið 2021.

Deildarstjórar eru 16.

Súsanna Ástvaldsdóttir hefur verið yfirlæknir heilsugæslu á norðursvæði og umdæmislæknir sóttvarna. Mikið hefur mætt á Súsönnu í því hlutverki alveg frá því að faraldurinn hófst í mars 2020. Smitrakning og ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir innan umdæmisins og stofnunarinnar hefur að miklu leyti verið hennar. Þar hafa verið margar erfiðar ákvarðanir. Meðal annars hefur vont veður, ófærð og eðli samfélagsins á Vestfjörðum haft mikil áhrif á þær ákvarðanir. Þannig hefur oft verið löng bið milli sýnatöku og þess að niðurstaða fæst. Í slíkum tilvikum þarf að taka ákvarðanir undir mikilli óvissu.

Meðfram þessu sinnir Súsanna yfirlæknisstöðu á heilsugæslu, hefur það hlutverk að tryggja mönnun þar, og sinnir móttöku og vöktum á heilsugæslu og á sjúkradeild. Þá er hún ötul í að sinna þeim læknanemum sem starfa við stofnunina í styttri eða lengri tíma og situr í fagráði Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.

Súsanna Ástvaldsdóttir yfirlæknir heilsugæslu á norðursvæði og umdæmislæknir sóttvarna

Uppfært 25. mars 2022 (GÓ)

Var síðan gagnleg?