Heilsuvernd skólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðvum sjá um heilsuvernd skólabarna. 

Markmið heilsuverndar skólabarna er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru forvarnir, fræðsla, skimanir og bólusetningar. Unnið er samkvæmt leiðbeiningum Embættis landlæknis um heilsuvernd grunnskólabarna.
Skólahjúkrunarfræðingar eru Helena Hrund Jónsdóttir sem sér um Grunnskóla í Bolungarvík, Súðavík og Ísafjarðarbæ og Soffía Hlynsdóttir sem sér um Patreksskóla, Tálknafjarðaskóla og Bíldudalsskóla. Tölvupóstur helena@hvest.is og soffia@hvest.is

Skimanir

Skimanir eru framkvæmdar í 1., 4., 7. og 9. bekk og felast í mælingu á hæð, þyngd og sjónskerpu. Nemendur í öðrum árgöngum eru skimaðir eftir þörfum. Í skimunum ræðir hjúkrunarfræðingurinn við nemendur um lífsstíl og líðan. Markmið þessara viðtala er að styrkja vitund nemenda um eigin lífsstíl og líðan. Eins að geta gripið til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur. Niðurstöður skimana og grunnupplýsingar úr lífsstílsviðtali eru skráðar í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar.

Bólusetningar

Bólusett er í 7. bekk við mislingum, hettusótt og rauðum hundum og í 9. bekk við barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mænusótt. Stúlkur í 7. bekk eru einnig bólusettar gegn HPV (Human papilloma veirum) sem geta valdið leghálskrabbameini. Áður en kemur að bólusetningu er sendur tölvupóstur til foreldra með upplýsingum um tímasetningu.

Heilbrigðisfræðsla

Skipulögð heilbrigðisfræðsla er framkvæmd í öllum árgöngum og er áherslan að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Eftir fræðslu fá foreldrar upplýsingar um hvað fjallað var um í tölvupósti. Þá gefst foreldrum kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig þau geti nýtt sér það í daglegu lífi.

Áherslurnar í fræðslunni eru eftirfarandi:

1. bekkur
Líkaminn minn, forvarnarverkefni gegn kynferðislegu ofbeldi. Markmiðið er að börnin viti að þau eiga sinn líkama sjálf, börnin viti að kynferðisleg misnotkun er alltaf röng og aldrei þeirra sök, viti að þau megi segja NEI (æfa það) og viti að þau eigi að segja frá verði þau fyrir óþægilegri reynslu (aldrei að eiga vond leyndarmál).
Hjálmar, að vori er fræðsla um mikilvægi hjálmanotkunar og hvernig hjálmurinn er rétt settur á höfuðið.

2. bekkur
Tilfinningar, fræðsla um mismunandi tilfinningar og hversu fljótt er hægt að ferðast á milli mismunandi tilfinninga. Markmiðið er að börnin læri að þekkja mismunandi tilfinningar sínar og geti tjáð sig um þær og líðan sína.

3. bekkur
Verkefnabókin um 6H heilsunnar (hollusta, hreyfing, hvíld, hreinlæti, hamingja og hugrekki) þar er m.a. farið yfir tannheilsuna og tannburstun auk þess sem rætt er um hreyfivenjur, ávaxta og grænmetisneyslu og fleiri þætti og venjur sem stuðla að góðri heilsu.

4. bekkur
Kvíði, fræðsla um einkenni kvíða og að kvíði geti verið eðlilegur. Farið er yfir úrræði við kvíða og slökunaræfingar kenndar.
Slysavarnir, í kringum 112 daginn þann 11. febrúar er farið í viðbrögð við slysum, börnin skoða umhverfi sitt m.t.t. slysavarna og þekki 112 númerið, líka sem barnanúmerið.

5. bekkur
Samskipti, markmið er að börnin læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, virði skoðanir annarra og æfi sig í að setja sig í spor annarra. Einnig eru skoðuð samskipti á netinu og hvað ber að hafa í huga þar. 

6. bekkur
Kynþroskinn, komið m.a. inn á líkamsbreytingar, sjálfsfróun, kynhneigð og kynferðislegt ofbeldi. Endurlífgun, nemendur fá verklega þjálfun í að hnoða og blása.

7. bekkur
Bólusetning, fræðsla um þá sjúkdóma sem verið er að bólusetja fyrir.

8. bekkur 
Hópþrýstingur, markmiðið er að nemendur læri að þekkja hópþrýsting. Áhersla er lögð á að styrkja sjálfsmynd krakkanna og að þau séu meðvituð um hvort þau séu að taka sínar ákvarðanir sjálf eða ekki.   Líkamsímynd, markmiðið er að nemendur séu meðvitaðir um hvað líkamsímynd er og hvað hefur áhrif á hana? Enginn er eins og mikilvægt að fagna fjölbreytileikanum.

9. bekkur
Kynheilbrigði, markmiðið er að stuðla að bættu kynheilbrigði. Farið er yfir marga þætti s.s. hvað einkennir góð sambönd – kynhneigð – tilfinningar – MÖRK – Mörk í kynlífi – Væntingar og mörk – Ef farið er yfir mörkin – Kynferðislegt ofbeldi – Kynsjúkdómar og getnaðarvarnir.

10. bekkur
Kynheilbrigði,  markmiðið er að stuðla að bættu kynheilbrigði. Farið er yfir ýmsa þætti s.s. sambönd – ást, menning og trú – ástarsorg – kynferðislegar hugsanir – samfarir, hvenær er maður tilbúinn – samfarir, væntingar og mörk – kynhneigð – trans – daður, áreitni, mörk og kynferðisofbeldi – erótík, klám, list eða dónaskapur – klámvæðing – staðalímyndir.
Geðheilbrigði, markmiðið að sporna við fordómum og að nemendur þekki einkenni geðsjúkdóma og viti hvert þau geta leitað eftir aðstoð – einnig farið í bjargráð s.s. slökun, núvitund og tengingu hugsana, tilfinninga og hegðunar.
Ábyrgð á eigin heilsu, Að nemendur þekki starfsemi heilsugæslunnar og hvenær þau geta leitað þangað – eins hvernig þau geta fylgst sjálf með eigin heilsu, t.d. með því að þreifa brjóst og eistu.

Slys og óhöpp á skólatíma

Hlutverk hjúkrunarfræðings er ekki að vera með opna móttöku fyrir erindi sem ekki teljast bráð. Hjúkrunarfræðingur veitir fyrstu hjálp þegar alvarlegri slys verða í skólanum og er starfsfólki skólans til stuðnings og ráðgjafar þegar upp koma veikindi og slys hjá nemendum, á þeim tíma sem hjúkrunarfræðingur er við störf. Ef smáslys eða óhapp verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp.

Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins.

Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af skólaheilsugæslunni. Foreldrum er bent á að snúa sér til heimilislæknis og Heilsugæslustöðvarinnar með heilsufarsmál sem ekki teljast til heilsuverndar grunnskólabarna.

Lyfjagjafir í skólum

Í tilmælum frá landlækni um lyfjagjafir í grunnskólum kemur meðal annars fram að foreldrum/forráðamönnum beri að afhenda hjúkrunarfræðingum þau lyf sem börn/unglingar eigi að fá í skólanum og að börn/unglingar skuli aldrei vera sendiboðar með lyf.

Foreldrar /forráðamenn þeirra barna/unglinga sem þurfa að taka lyf á skólatíma eru vinsamlega beðnir að hafa samband við hjúkrunarfræðinga skólans til skrafs og ráðagerða um hvernig best verði komið til móts við þessi tilmæli.

Fróðleikur

Svefn og hvíld

Að gefnu tilefni viljum við benda foreldrum og forráðamönnum barna á hve mikilvægt er að skólabörn fái nægan svefn og hvíld. Séu þau ekki útsofin og hvíld geta þau ekki notið kennslunnar né sinnt því starfi sem fram fer í skólanum. Þau verða þreytt og pirruð, þola illa langa setu á skólabekk og námsefnið fer fyrir ofan garð og neðan.

Hæfilegur svefn- og hvíldartími er talinn vera 8-12 klst. og þurfa yngstu skólabörnin undantekningalítið 12 klst. svefn til að ná fullri hvíld.

Hollur og góður matur

Góð næring hefur mikið að segja fyrir vöxt og þroska barna og hæfileika þeirra til að takast á við amstur dagsins. Börn þurfa þrjár máltíðir á dag auk síðdegishressingar og skiptir staðgóður morgunverður áður en lagt er af stað í skólann, miklu máli. Ef þau borða ekki áður en þau fara í skólann þá verða þau sljó og þróttlaus til líkamlegra og andlegra starfa.

Einnig er mjög mikilvægt að nestið sé hollt og þykir hæfilegt að koma með t.d. grófa samloku og ávöxt eða eitthvað álíka.


Höfuðlús

Að gefnu tilefni viljum við minna fólk á að vera vakandi gagnvart lúsinni þar sem hún er ekki útdauð og skýtur árlega upp kollinum í einhverjum skólum landsins, sérstaklega á haustin. Mikilvægt er að bregðast strax við ef grunur er um lús og láta hjúkrunarfræðing eða starfsmenn skóla vita ef lús kemur upp í bekk því þá þarf að skoða allan bekkinn.

Ef allir bera ábyrgð á sér og sínum getum við komið í veg fyrir óþarfa óþægindi og vinnu.

Uppfært 14. desember 2021 (Björn Snorri)

Var síðan gagnleg?