Við stofnunina eru tvö teymi sem sinna geðheilbrigði; geðheilsuteymi fyrir 18 ára og eldri, og barna- og unglingageðteymi.

Geðheilsuteymi

Geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur verið virkt frá 1. apríl 2020 og er staðsett á heilsugæslu stofnunarinnar á Ísafirði.

Þjónustan er fyrir einstaklinga 18 ára og eldri sem glíma við andlega vanlíðan og/eða eru greindir með geðsjúkdóma og þurfa á faglegri aðstoð ásamt þéttri eftirfylgd að halda. Áhersla er lögð á meðferð við þunglyndi, kvíða og áföllum þar sem vandinn er vægur eða miðlungs alvarlegur.

Tekið er við umsóknum frá starfsmönnum heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Markmið og tilgangur eru meðal annars:

  • Að stuðla að og viðhalda bata
  • Að tryggja einstaklingsmiðaða þjónustu
  • Að tryggja samfellu og samþættingu í meðferð
  • Að efla sálrænt og félagslegt heilbrigði einstaklingsins og fjölskyldu hans
  • Að hvetja til sjálfshjálpar og sjálfsvirðingar
  • Að styðja einstaklinginn í að lifa innihaldsríku lífi
  • Að fækka endurinnlögnum og styrkja aðlögunarhæfni eftir útskrift af sjúkrahúsum

Þjónusta teymisins er heildræn og notendamiðuð og lögð er áhersla á samþætta nálgun. Teymið hefur að leyðarljósi að skoða alla þætti sem hafa áhrif á andlega heilsu. Einstaklingurinn er í fyrirrúmi, hans óskir, gildi og þarfir.
Stuðst er við gagnreyndar aðferðir og árangur er metinn reglulega. Áhersla er lögð á þróun og þær leiðir í meðferð sem einstaklingurinn þarfnast hverju sinni.

Við hjálpum einstaklingum að:

  • Efla styrkleika og áhugasvið sem valdeflandi leið til að ná tökum á bata
  • Auka þekkingu varðandi leiðir til að ná bættri líðan og jafnvægi
  • Auka skilning, styrk og getu til að takast á við geðræna erfiðleika

Í boði er:

  • Einstaklingsmiðuð samtalsmeðferð
  • Stuðningur til að auka félagslega virkni og endurheimta félagsleg hlutverk
  • Regluleg fræðsla varðandi ýmis geðræn einkenni, grunnþarfir einstaklingsins og áhrif áfalla
  • Hópmeðferð í Hugrænni atferlismeðferð
  • Fræðsla og stuðningur til einstaklingsins og fjölskyldu hans
  • Mat á andlegu og líkamlegu ástandi, búsetu og þjónustuþörf
  • Mat á lyfjameðferð
  • Ráðleggingar hvar hægt sé að fá frekari stuðning eða fræðslu

Starfsmenn geðheilsuteymisins

Í teyminu starfa í dag Thelma Björk Guðmundsdóttir, verkefnastjóri teymis og félagsráðgjafi MA og Guðrún Inga Guðmundsdóttir, sálfræðingur. Þar að auki eru Sandra Borg Bjarnadóttir listmeðferðarfræðingur í 35% stöðu og Georg Vougiouklakis, læknir með grunn í geðlækningum, í 25% stöðu.

Eftir því sem við á er í boði að vísa skjólstæðingum teymisins til ákveðinna teyma innan Landspítala. Um samstarfsverkefni er að ræða með þann tilgang að auka aðgengi landsbyggðarinnar að sérhæfðri þjónustu Landspítala en meðferð fer fram í gegnum fjarbúnað.

Teymin sem um ræðir eru:

  • Þunglyndis- og kvíðateymi
  • Átröskunarteymi
  • DAM-teymi
  • Áfallateymi
  • Geðhvarfateymi
  • Transteymi

Geðheilsuteymið stefnir á þverfaglega samvinnu til að veita öflugri þjónustu. Næstu skref eru því að auka samstarf við aðrar fagstéttir innan heilbrigðisstofnunarinnar; sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, hjúkrunarfræðinga og lækna auk þess sem framundan er samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins varðandi geðlæknaþjónustu. Áhersla er lögð á hvatningu hvað virkni og hreyfingu varðar og hefur Unnur Árnadóttir, hreyfistjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, komið þar að málum.

Verð fyrir þjónustu geðheilsuteymis

Þjónusta geðheilsuteymis er skjólstæðingum að kostnaðarlausu en það er liður í að tryggja að allir geti nýtt sér úrræðið.

Þjónusta á sunnanverðum Vestfjörðum

Geðheilsuteymi heilbrigðisstofnunarinnar þjónar öllum íbúum Vestfjarða og er því regluleg viðvera á Patreksfirði auk þess sem fjarviðtöl eru í boði þess á milli.

Hvernig er sótt um þjónustu?

Tekið er við tilvísunum frá fagfólki í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Heilbrigðisstarfsfólk sendir tilvísun rafrænt í gegnum Sögu.

Annað fagfólk notar þetta eyðublað: Tilvísun til geðheilsuteymis Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Mikilvægt er að tilvísun sé vel útfyllt svo hægt sé að taka afstöðu hennar. Eyðublaðið er fyllt út rafrænt, prentað út og sent í ábyrgðarpósti til Geðheilsuteymis Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Torfnesi, 400 Ísafjörður.

Ef upp koma spurningar eða ef frekari upplýsinga er óskað má hafa samband við Thelmu Björk verkefnastjóra geðheilsuteymis í síma 862 7424 eða á netfangið thelma@hvest.is.

Fjarheilbrigðislausnir henta vel í mörgum tilvikum.

Barna- og unglingageðteymi

Barna- og unglingageðteymið þjónustar börn og fjölskyldur í vanda, s.s. tilfinningavanda, félaglegum vanda, þroskafrávikum og/eða hegðunarerfiðleikum. Teymisstjóri er Helena Hrund Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur.

Fundir hjá teyminu eru á fjögurra vikna fresti en þá sitja heilsugæsla, skóli, barnavernd og félagsþjónusta. Teyminu er ætlað að setja fram áætlun sem felur í sér meðferð, stuðning eða önnur úrræði til að samhæfa þjónustu og aðgerðir milli stofnana. Samráðsfundir barna- og unglingageðteymis Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Barna- og unglingageðdeildar Landspítala eru einu sinni í mánuði með geðlækni og félagsráðgjafa auk þess sem haft er samband við geðlækna og hjúkrunarfræðinga þar eftir þörfum.

Tilvísun til teymisins

Heilsugæsla, félagsþjónusta, barnavernd og skóli geta sent tilvísun til teymisins. Tilvísanir skulu berast teymisstjóra. Foreldrar geta haft samband við heilsugæslu ef áhyggjur vakna vegna barna.

Sálfræðiþjónusta barna

Foreldrar sem óska eftir sálfræðiþjónustu fyrir börn geta leitað til heilsugæslunnar, læknis eða hjúkrunarfræðings, sem vísar málinu áfram.
Helena Hrund Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur, sér um tilvísanir og bókanir.

Barn fær úthlutaða 5–10 tíma hjá sálfræðingi og er staðan svo endurmetin af sálfræðingi, teymisstjóra barna- og unglingageðteymis í samráði við foreldra.

Ávallt er velkomið að hafa samband við teymisstjóra barna- og unglingageðteymis á netfangið helena@hvest.is eða hringja á heilsugæsluna í síma
450 4500 og skilja eftir skilaboð.

 

 

Uppfært 16. nóvember 2023 (HEP)

Var síðan gagnleg?