Ávarp setts forstjóra Hildar Elísabetar Pétursdóttur

Árið 2023 var eins og fyrri ár viðburðarríkt hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Hæst ber að nefna að Gylfi Ólafsson sem verið hafði forstjóri frá árinu 2018 sagði upp störfum og hætti í október. Ég var sett forstjóri með bréfi ráðherra frá 16. október og þar til nýr forstjóri var ráðinn, sem tók til starfa 1. mars 2024.

Mönnunarmálin tóku mikið pláss eins og undanfarin ár. Einkum var það í liði hjúkrunarfræðinga og lækna, en nokkur stöðugleiki meðal annarra fagstétta.
Sem fyrr eru fjármál stofnunarinnar mikil áskorun en stöðugt er leitað leiða til að ná hagkvæmni í rekstri með auknu aðhaldi, aukinni kostnaðarvitund og tækninýjungum. Áður en fjáraukalög og aðrar tilfærslur komu til stefndi reksturinn í rúman 300 milljóna króna halla. Slíkt viðbótarfjármagn sem kemur inn byggist á skilningi og velvild stjórnvalda er mikilvægt til að halda úti þeirri þjónustu sem lögbundin er. Eins og verið hefur undanfarin ár má rekja stóran hluta hallarekstrar til vanfjármögnunar hjúkrunarheimilana.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er afar lánsöm þegar kemur að góðvild samfélagsins í hennar garð. Margir gjafir voru færðar stofnuninni, bæði stórar og smáar í formi tækja, búnaðar og peningagjafa. Að njóta slíkrar góðvildar frá einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum og samfélaginu öllu er ómetanlegt fyrir starfssemina. Við færum öllum hjartans þakkir fyrir gjafirnar og þann hlýhug sem býr að baki.

Að taka við keflinu í nokkra mánuði var allt í senn lærdómsríkt, krefjandi og gaman. Það var áhugavert að skoða rekstur Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða út frá öðru sjónarhorni en ég hafði áður gert í mínum störfum sem faglegur stjórnandi. En það sem stendur upp úr er sá mikli mannauður sem stofnunin býr yfir, starfsandinn, samheldninn og væntumþykjan gagnvart stofnuninni og velferð hennar sem og samfélaginu í heild.

Hildur Elísabet Pétursdóttir, settur forstjóri

Hildur Elísabet Pétursdóttir settur forstjóri frá október 2023 til 1. mars 2024

Forstjóraskipti

Gylfi Ólafsson, sem hafði verið forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða frá júlímánuði 2018, og lauk þannig fimm ára skipunartíma sínum 2023, sendi heilbrigðisráðherra bréf með ósk um lausn frá störfum. Hildur Elísabet Pétursdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar var settur forstjóri frá 16. október 2023 til 1. mars 2024 og Rannveig Björnsdóttir deildarstjóri sjúkradeildar var framkvæmdastjóri hjúkrunar þar til nýr forstjóri var skipaður. Gylfi var farsæll stjórnandi og vel liðinn af öllum starfsfólki. Gylfi sagði í kveðjuskrifum sínum:

,,Tíminn í stofnuninni hefur verið afar skemmtilegur og lærdómsríkur. Mér hefur verið tekið vel af öllum innan og utan stofnunar, þar með talið í upphafi þegar ég tók til starfa frekar ungur og reynslulítill í störfum innan heilbrigðiskerfisins og stjórnun.

Fjölmargt hefur áunnist síðustu fimm ár. Niðurstöður úr könnun um stofnun ársins hafa verið hæstar hjá okkur tvö ár í röð, sé hún borin saman við systurstofnanir, en stofnunin var lægst í þessum samanburði 2018. Við höfum gert talsverðar breytingar til að sameina stofnunina í eina heild, gert samskipti innan stofnunarinnar skilvirkari, tekið í gagnið fjölmörg tölvukerfi, sett á fót geðteymi, keypt þrjú stór myndgreiningartæki og endurnýjað skurð- og slysastofur, þjálfað vettvangsliða, tekið skjalameðhöndlun fastari tökum, gefið aftur út ársskýrslur og haldið ársfundi, innleitt jafnlaunavottun og persónuvernd, innleitt nýtt útlit og gert aðrar innri breytingar sem of langt mál er að rekja. Þá marka viðbrögð við covid-faraldrinum djúp spor í sögu síðustu fimm ára.
Auðvitað hefur ekki allt gengið eins og í sögu. Stofnunin hefur verið rekin með talsverðum halla, húsnæðismál gætu verið betri og mönnun er stöðug áskorun, sérstaklega í læknaliðinu.

Aðalatriðið er þó þetta: Hið raunverulega markmið með rekstri stofnunarinnar er að veita fjölbreytta og góða heilbrigðisþjónustu og það hefur tekist. Heilsugæslan hefur veitt æ meiri og skjótari þjónustu. Fæðingar- og skurðþjónustan stendur óhögguð þó gefið hafi á bátinn og aðstæður séu oft erfiðar. Starfsfólkið er frábært.“

Heilbrigðisráðherra skipaði Lúðvík Þorgeirsson forstjóra til fimm ára frá 1. mars 2024.

Ársreikningur 2023

Afkoma ársins stefndi í rúman 300 milljóna króna halla, sem er um 8% af veltu. Þennan halla má fyrst og fremst rekja til vanfjármögnunar á hjúkrunarsviði. Með aukafjárveitingu náðist að snúa stöðunni við og endaði afkoma ársins jákvæð um 58,6 milljónir króna. Gjöld hækkuðu á milli ára um 374 milljónir eða rúm 10%. Á sama tíma hækkuðu tekjur örlítið meira eða um 412 milljónir króna eða 11%. Verðbólga árið 2023 var tæp 9% að meðaltali.

Vægi launakostnaðar var 70,7% og hækkaði launakostnaður um 217 milljónir milli ára eða um 8,4%. Meðalfjöldi stöðugilda er 226,7. Vægi annars rekstrarkostnaðar var 28% og hækkaði um 152 milljónir eða 16%. Hækkun má fyrst og fremst rekja til vörukaupa, ferða- og dvalarkostnaðar vegna afleysinga, og sérfræðiþjónustu. Fjárfestingar ársins námu um 117 milljónum.
Elísabet Samúelsdóttir fjármálastjóri.

Gott að eldast

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, ásamt fimm sveitarfélögum, Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhrepp, Tálknafirði og Vesturbyggð tekur þátt í þróunarverkefni um að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýstu í sumar eftir slíku samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir. Áhugi var mikill og bárust alls 19 umsóknir. Alls taka 22 sveitarfélög og sex heilbrigðisstofnanir um land allt þátt í verkefninu sem er skipt upp í sex svæði.

Þróunarverkefnin eru hluti af aðgerðaráætluninni Gott að eldast en freista stjórnvöld þess að samþætta betur þjónustu ríkis og sveitarfélaga við eldra fólk með nýjum hætti.

Nýr hjúkrunarstjóri á Patreksfirði

Nýr hjúkrunarstjóri tók til starfa á Patreksfirði í maí. Gerður Rán Freysdóttir flaug suður á bóginn og við tók Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir. Hrafnhildur er hjúkrunarfræðingur og kom til stofnunarinnar eftir störf sem deildarstjóri heimilislausra í Reykjavík. Hún hefur fjölbreytta reynslu í störfum í heilbrigðis- og velferðarkerfinu.

Breytingar á fyrirkomulagi ræstinga

Ræstingum er sinnt af starfsfólki stofnunarinnar á öllum starfsstöðvum utan Ísafjarðar. Fyrirtækið Massi þrif hefur sinnt hluta ræstinga á Ísafirði samkvæmt samningi sem teygir sig aftur til aldamóta. Tilefni var til að endurskoða það fyrirkomulag sem var úr sér gengið og var samningnum við Massa þrif því sagt upp á útmánuðum 2023 með gildistíma uppsagnar 31. ágúst. Í kjölfarið voru ræstingar í aðalbyggingu og Eyri boðnar út saman, í samræmi við lög um opinber innkaup. Ríkiskaup aðstoðuðu við undirbúning útboðsins. Eitt tilboð barst, frá Sólar. Það uppfyllti öll skilyrði útboðsins og var talsvert undir kostnaðaráætlun stofnunarinnar. Fyrirtækið sinnti þá þegar heilbrigðisþrifum fyrir meðal annarra Landspítala Fossvogi og fjölmörg hjúkrunarheimili.

Sólar tók við ræstingunni 1. október. Ræstingardeildin í fyrri mynd var lögð niður og var breytingin vel kynnt í tíma fyrir starfsfólki og fulltrúm Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Starfsfólki deilarinnar var öllum boðið að flytjast til í starfi og mannauðsstjóri hélt utan um lausnir sem hentuðu hverjum og einum.

Nýtt tölvusneiðmyndatæki

Nýtt tölvusneiðmyndatæki var tekið í gagnið í maí. Gamla tækið hafði verið í notkun hjá stofnuninni í vel yfir áratug og á því teknar yfir þúsund tölvusneiðmyndir á ári. Árið 2022 fékkst vilyrði frá stjórnvöldum til að hefja þarfagreiningu og útboðsferli til kaupa á nýju tæki. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Sjúkrahúsið á Akureyri leiddu í sameiningu stórt útboð á tölvusneiðmyndatækjum sem verða sett upp á nokkrum stöðum á landinu. Tæki af Revolution Ascend-tegund frá GE var bæði ódýrast og best.

Nýja tækið er afar fullkomið og mun nútímavæða myndgreiningu mikið, auk þess sem áskrift að áframhaldandi hugbúnaðarþróun framleiðandans er innifalin.

Skurðstofuframkvæmdum lokið

Skurðstofan var lokuð frá 23. maí – 19. júní til þess að ljúka framkvæmdum sem hófust fyrir mörgum misserum síðan en höfðu tafist meðal annars vegna hökts í aðfangakeðjum og óvissu vegna heimsfaraldurs. Á meðan þessari lokun stóð var ekki hægt að halda úti fæðingarþjónustu og öll skurðþjónusta þurfti að færast á önnur sjúkrahús á meðan.

Nú er slysadeild, skurðstofa, vöknun og starfsmannaaðstaða öll orðin nútímalegri.

Stjórnendanámskeið

Mannauður hverrar stofnunar er afar dýrmætur og er endurmenntun, fræðsla og þjálfun mikilvægur partur af starfsmannahaldi stofnunarinnar. Margir starfsmenn sóttu ýmis námskeið, þjálfun og ráðstefnur en hæst ber að nefna að mennta og þjálfunarfyrirtækið Kvan var fengið í leiðtogaþjálfun stjórnanda. Um 25 stjórnendur tóku þátt þar sem áhersla var lögð á styrkleika, leiðtogahæfni, markþjálfun, liðsheild, starfsanda, menningu og fleira. Stjórnendur fengu hagnýt verkfæri sem nýtast þeim í starfi og var mikil ánægja meðal stjórnenda með þessi námskeið. Með þessu viljum við styðja við stjórnendur og byggja upp öflugt og samhent teymi.

Hluti stjórnenda í september 2023. Frá vinstri: Svala Björk Einarsdóttir, Gestur Elíasson, Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, Sigurgeir Sigurgeirsson, Ursula Siegle, Kristín Greta Bjarnadóttir, Hildur Elísabet Pétursdóttir, Þórunn Pálsdóttir, Hanna Þóra Hauksdóttir, Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, Gylfi Ólafsson, Auður Dóra Franklín, Auður Helga Ólafsdóttir, Heiða Björk Ólafsdóttir, Rannveig Björnsdóttir og Elísabet Samúelsdóttir.

Stefna Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða 2020–23

Árið 2020 var farið í mikla stefnumótunarvinnu fyrir stofnunina. Stefnan hefur verið mikilvæg við þróun starfseminnar. Þar var ákveðið að gildi stofnunarinnar sem valin voru af starfsmönnum 20 árum fyrr væru enn í fullu gildi; „Virðing – Samvinna – Traust – Jákvæðni“ Vinna við nýja stefnumótun hefst á haustmánuðum.

Velferðatækni

Árið 2023 innleiddi stofnunin Evondos lyfjaskammtara. Lyfjaskammtarar eru byltingarkennd velferðatækni sem nýtist einkar vel í fjarheilbrigðisþjónustu. Evondos er sjálfvirkur lyfjaskammtari og hentar vel einstaklingum sem búa heima en þurfa daglega eða oftar aðstoð og eftirfylgni við lyfjatöku. Tilkoma þeirra styður við sjálfstæða og lengri búsetu fólks í heimahúsum, bætir gæði þjónustunnar og tryggir einstaklingum örugga og rétta lyfjagjöf á tilsettum tíma. Í lyfjaskammtarann eru settar hefðbundnar lyfjarúllur og les tækið þær upplýsingar sem fram koma á hverjum lyfjapoka og skammtar réttum lyfjum á réttum tíma. Teknir voru í notkun sex lyfjaskammtarar. Heimahjúkrun velur þá skjólstæðinga sem mögulega gætu nýtt sér lyfjaskammtarana eftir ákveðnum leiðbeiningum og hafa þá færni og getu sinna skjólstæðinga í huga. Lyfjaskammtararnir lofa mjög góðu og starfsfólk sem og skjólstæðingar ánægðir með þessa viðbót í þjónustuna.

Viðbragðsáætlun og flugslysaæfing á Bíldudalsflugvelli

Í apríl var haldin flugslysaæfing á Bíldudalsflugvelli á vegum Isavia. Markmið slíkra æfinga er að viðhalda og skerpa á viðbragði þegar á þarf að halda og samræma viðbragðsaðila á svæðinu. Í æfingunni tóku þátt björgunarsveitir, slökkvilið, sjúkraflutningafólk, lögregla, Rauði krossinn, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Isavia. Alls tóku um 80 manns þátt í æfingunni og gekk hún vel. Góður taktur var í samvinnu allra viðbragðsaðila. Æfingar af þessu tagi eru til að kalla fram hnökra og skoða hvað betur má fara.

Lokið var við fyrstu viðbragðsáætlun stofnunarinnar fyrir suðursvæði í kjölfarið. Áætlunin þarf að taka mið af þeirri mönnun og þeim innviðum sem tiltæk eru á svæðinu.

Samkomulag um þjónustu sérhæfð starfsfólks í heilbrigðisþjónustu

Samningur þess efnis að tryggja nauðsynlega mönnun sérhæfð starfsfólks sjúkrahúsanna í heilbrigðisumdæmum Vestfjarða og Austurlands var undirritaður í heilbrigðisráðuneytinu í desember. Þar undirrituðu forstjórar hlutaðeiganda stofnana, ásamt heilbrigðisráðherra samninginn. Samningurinn er hluti af aukinni áherslu á samþættingu heilbrigðiskerfisins þvert á stofnanir.

Góðir starfsmenn kvaddir og þökkuð góð störf

Á árinu 2023 þökkuðum við fimm starfsmönnum sem voru að hætta vegna aldurs fyrir góð störf í þágu stofnunarinnar og skjólstæðinga hennar. Þau hafa öll starfað lengi hjá okkur, lengst í yfir 40 ár. Við höfum verið afar heppin að hafa notið starfskrafta þeirra öll þessi ár og þökkum þeim kærlega fyrir.
Þau voru Halldóra Magnúsdóttir sjúkraliði, Jóhanna Guðrún Þórðardóttir sjúkraliði, Jóhann Króknes Torfason innkaupastjóri, Þóra Hansdóttir félagsliði og Anna Kristín Ásgeirsdóttir lífeindafræðingur.

Frá vinstri: Jóhann Króknes Torfason, Þóra Hansdóttir, Jóhanna Guðrún Þórðardóttir, Halldóra Magnúsdóttir og Gylfi Ólafsson.

Frá vinstri: Anna Kristín Ásgeirsdóttir og Hildur Elísabet Pétursdóttir

Sjötíu sérnámslæknar í heimsókn á Ísafirði

Í maí komu um 70 nemendur í sérnámi í heimilislækningum í náms- og kynnisferð á Ísafirði.
Námsdagurinn innihélt örnámskeið í smáskurðlækningum, bæklungarlækningum, ómskoðun, liðástungum og heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum. Auk þess hafði ferðin það markmið að hópurinn kynnist innbyrðis, en sérnámslæknarnir starfa um allt land, þar af einn á Ísafirði. Nemendum í sérnámi í heimilislækningum hefur fjölgað mikið á síðustu árum og ekki vanþörf á.

Á meðfylgjandi mynd er hópurinn við gamla sjúkrahúsið á Ísafirði. Í miðjunni er Elínborg Bárðardóttir kennslustjóri.

Framkvæmdastjórn 2023

Uppfært 24. maí 2024 (HEP)

Var síðan gagnleg?