Ávarp forstjóra

Árið 2022 byrjaði með miklum fjölda smita af omikron-afbrigðinu og litaðist starfsemin af því fram á vor.

Frá haustinu 2022 hefur stór hluti læknaliðsins verið danskur, auk þess sem við höfum haft í starfsliðinu hjúkrunarfræðinga frá ýmsum löndum. Þetta er ánægjuleg viðbót við starfsliðið, sem annars hefði ekki getað staðið undir verkefnunum. Þó tungumálaörðugleikar geti í einhverjum tilvikum verið til trafala hefur samstarfið gengið glettilega vel.

Umbótaverkefni héldu áfram á ýmsum sviðum. Eins og uppgjör árangursvísanna sem fylgir þessari ársskýrslu ber með sér hefur margt gengið eins og að var stefnt en annað síður, eins og gengur. Í ár er síðasta ár sem unnið er skv. stefnu 2020–23 og því mun þurfa í lok ársins að gera nýja stefnu þar sem lærdómur verður dreginn af þessu og ný stefna mörkuð í samhengi við breytt ástand og breyttar áherslur stjórnvalda.

Fjármál stofnunarinnar samhliða þeim eðlilegu kröfum sem gerðar eru til starfseminnar hafa verið áskorun. Áður en fjáraukalög og aðrar tilfærslur komu til stefndi reksturinn í halla vel á þriðju hundrað milljónir. Sérstaklega reiknast okkur til að hjúkrunarrýmin séu vanfjármögnuð. Hjúkrunarheimili á samningi við Sjúkratryggingar Íslands fengu í fyrra verulega leiðréttingu en enn er ekki búið að reikna til enda hvernig slík leiðrétting kæmi út fyrir ríkisrekin hjúkrunarheimili.

Enn heldur einkunn stofnunarinnar í könnun um Stofnun ársins áfram að hækka og annað árið í röð er stofnunin í efsta sæti meðal systurstofnana. Með ánægðu starfsfólki getur Heilbrigðisstofnun Vestfjarða áfram sinnt sínu hlutverki sem lykilstofnun í vestfirsku samfélagi.

Gylfi Ólafsson forstjóri

Uppgjör árangursvísa

Í stefnu stofnunarinnar sem sett var fyrir árins 2020–23 voru settir fram árangursvísar í tveimur köflum, helstu árangarsvísar og aðrir ítarlegri.

Árangursvísar af þessu tagi eru vandmeðfarin verkfæri. Þeir þurfa að mæla eitthvað sem raunverulega skiptir máli (helst að það sé beintengt markmiðum stofnunarinnar í heild), að það sé auðvelt að safna þeim, að þeir skapi ekki ranga hvata og mæli það sem þeim er ætlað að mæla. Þá er til lítils að mæla atriði sem ekki eru í valdi stofnunarinnar að breyta. Markmið þarf að setja þannig að þau séu samtímis metnaðarfull en einnig að þeim sé hægt að ná.

Þá breytist heimurinn frá því að árangursvísir er settur fram og þangað til hann er gerður upp. Sum gögn eru ekki lengur til, áherslur um annað breytast.

Í heilbrigðisþjónustu er margt þeim annmarka háð að erfitt er að mæla raunverulega þjónustu. Árangursvísar af þessu tagi verða því gjarnan ytri mælikvarðar; mælikvarðar á umbúnað og umsýslu ýmisskonar en ekki kjarnastarfsemina sjálfa.

Nú eru árangursvísar gerðir upp í annað sinn. Niðurstaðan er að fjórir náðust, tveir náðust ekki og þrír náðust að talsverðu leyti eða skilgreiningaratriði hvort þeir náðust.

Rafvæðing ferla hefur gengið talsvert, og eru reikningar til dæmis ekki lengur sendir í pósti nema í undantekningatilvikum. Árangurinn hefur hinsvegar ekki verið jafn hraður og markmiðin gerðu ráð fyrir.

RAI-gæðavísar eru nánast innan marka. Virkni stofnunarinnar við dreifingu upplýsinga hefur verið góð, bæði á heimasíðu og Facebook sem reynst hefur þægilegasti vettvangurinn. Græn skref náðust ekki með formlegum hætti, en mörg skref voru tekin í þá átt á ýmsum sviðum.

Starfsánægja er skv. markmiðum, en innleiðing árlegra starfsmannasamtala hefur ekki gengið sem skildi. Upplýsingagjöf innanhúss með virkri notkun Workplace hefur gengið með ágætum.

Samkvæmt ársskýrslu var örlítill afgangur af rekstri, en það er vegna afar stórrar aukafjárveitingar í lok árs, svo þar er settur gulur litur.

Ítarlegri árangursvísarnir, sem upprunalega áttu eingöngu að vera fyrir innanhússbrúk, urðu 14 grænir, ellefu rauðir og einn gulur.

Í græna flokkinn setjum við þjónustukannanir, þar sem við höllum okkur þó að öllu leyti upp að könnunum sem gerðar eru á landsvísu á vegum Sjúkratrygginga Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Atvikaskráning hefur gengið vel, inflúensubólusetning hjá áhættuhópum, bólusetningar barna, upplýsingar á vef á erlendum málum, bætt aðgengi á heimasíðu og grænt bókhald sem gert var í fyrsta skipti 2022. Þá setjum við starfsmannafundi grænu megin, því þó þeir séu ekki alveg fullt eins margir og markmið sögðu til um hefur upplýsingagjöfin verið stöðug innanhúss.

Stórt verkefni um bætta skjalavörslu, með innleiðingu á rafræna málakerfinu MAFS, skilaði tveimur þroskastigum eins og þau eru skilgreind hjá Þjóðskjalasafninu. Svarhlutfall í Stofnun ársins var með ágætum, veikindahlutfallið innan marka, enginn óútskýrður launamunur, og bragarbót gerð í áætlanagerð.

Gulur litur er settur á fjölda starfsmanna með of háa orlofsinneign, þar sem verulegt átak lækkaði töluna úr 57 í 13.

Rauður litur er settur á fjölda byltna, lyfjamistök og árlega yfirferð lyfjalista. Skoða þarf sérstaklega hvað er til bragðs að taka hér.

Skráning blóðþrýstings minnkaði eftir að hafa verið mjög góð árið 2021, en fjármögnunarkerfi heilsugæslunnar hefur einnig breyst og ekki jafn mikil áhersla lögð á þetta. Biðtími eftir þjónustu sálfræðings var enn of hár, en afar mikil þjónustubót hefur orðið á síðustu misserum í allri geðheilbrigðisþjónustu með tveimur geðteymum, málastjórum, far- og fjarsálfræðingum og ýmsu öðru. RAI-mat hefur ekki verið tekið upp í heimahjúkrun eða hjúkrunarheimili á Patreksfirði, en hefur verið tekið upp annarsstaðar.

Samráðsgátt starfsmanna hefur ekki náð flugi þó samráð eigi sér stað helst á starfsmanna- og stjórnendafundum, auk óformlegri leiða. Fundir fagráðs hafa fallið niður vegna fjarveru og mannabreytinga. Starfsmannavelta var lítillega hærri en vonir stóðu til um. Hjólavottunarverkefni var sett á ís. Bólusetningar starfsmanna samkvæmt verklagsreglum voru settar í gang af fullum krafti í ársbyrjun 2023, en fá rauðan punkt fyrir 2022.

Stofnun ársins

Heildareinkunn í könnun Sameykis um stofnun ársins hækkaði enn, og var 4,02 í síðustu mælingu. Stofnunin var hæst meðal systurstofnana annað árið í röð, nú jöfn Heilbrigðisstofnun Austurlands. Þetta er afar ánægjulegur árangur.

Ársreikningur 2022

Sem fyrr er rekstur stofnunarinnar mikil áskorun en stöðugt er leitað leiða til að ná hagkvæmni í rekstri með auknu aðhaldi, aukinni kostnaðarvitund og tækninýjungum. Afkoma ársins 2022 stefndi í 332 milljón króna halla sem er að hluta til uppsafnaður halli, en með aukafjárveitingu náðist að snúa stöðunni við og endaði afkoma ársins jákvæð um 20,8 milljónir króna.  Gjöld hækkuðu á milli ára um 286,7 milljónir króna eða 8,6%. Á sama tíma hækkuðu tekjur talsvert meira eða um 369,0 milljónir króna eða 11,3%.

Vægi launakostnaðar var 72% og hækkaði um 173,6 milljónir króna eða 7,2%. Meðalfjöldi stöðugilda hækkaði um 13,4 stöðugildi á milli ára eða um 7,0%. Vægi annars rekstrarkostnaðar var 27,1% og hækkaði um 109 milljónir króna eða 12,5%. Hækkun má rekja fyrst og fremst til hækkunar á sérgreindum vörukaupum, akstri þ.m.t sjúkraflutningum og sérfræðiþjónustu. Afskriftir hækka um 4,1 milljónir króna eða 15,8% en fjárfestingar ársins námu 36 milljónum króna. Vægi fjárveitinga var 92,9% og hækkaði frá fyrra ári um 359,6 milljónir króna eða 12,0%. Vægi seldrar þjónustu var 5,7% og hækkaði um 11,4 milljónir króna eða 5,8% á milli ára. Hækkun má rekja til sérfræðiþjónustu, gjalda fyrir vistun og ýmissa þjónustutekna. –ES

Tekjur20222021
Tekjufærsla fjárveitinga3.367,1 m3.007,5 m
Seld þjónusta.207,2 m195,8 m
Framlög og ýmsar tekjur.20 m26,1 m
Tekjufærsla frestaðra tekna fyrri ára30,3 m26,1 m
Tekjur samtals3.624,6 m3.255,5 m
Gjöld
Laun og starfsmannakostnaður2.596 m2.422,3 m
Annar rekstrarkostnaður977,5 m868,5 m
Afskriftir30,3m26,2 m
Gjöld samtals3.603,8 m3.317,0 m
Afkoma fyrir fjármagnsliði20,8 m-61,5 m
Afkoma ársins20,8m-61,5m

Gæðavísar fyrir hjúkrunarheimili

Stjórnvöld hafa um nokkuð skeið sett gæðaviðmið fyrir starfsemi hjúkrunarheimila.

Lélegt gæðaviðmið (efri mörk) er það viðmið sem talið er lýsa vandamáli sem er til staðar varðandi umönnun og meðferð íbúans. Þetta viðfangsefni þarf að kanna frekar og þarfnast úrbóta

Gott gæðaviðmið (neðri mörk) er það viðmið sem talið er lýsa góðri eða framúrskarandi umönnun og meðferð. Þar þarf að vinna að því að viðhalda þeim gæðum og ef unnt er að bæta þau enn frekar.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur sett sér þau markmið að 90% þessara vísa séu réttu megin við rauða strikið. Árið 2022 náðist það í 85% tilvika.

Byltur – Byltum hefur fækkað milli ára en eru samt sem áður yfir þeim gæðaviðmiðum sem við viljum hafa. Síðustu ár höfum við gert átak á skráningum á byltum í atvikaskráningu sögu. Við erum alltaf að skoða úrbætur í byltuforvörnum.

Algengi þvagleggja – er á rauðu en margar ástæður eru fyrir notkun þeirra. Á hjúkrunarheimilunum er lögð áhersla á að nota þvagleggi þegar öll önnur úrræði hafa verið reynd. Þrátt fyrir algengi þvagleggja er algengi þvagfærasýkinga innan marka.

Níu lyf eða fleiri – lögð er áhersla á að lyfjalistar skjólstæðinga séu yfirfarnir reglulega af lækni og finnst okkur það skipta meira máli en fjöldi lyfja. Reynst hefur verið erfitt að fækka lyfjategundum enda er allt talið í þessum lista, lýsi, vítamín, augndropar, hægðalyf og fleira.

Smásaga frá heimahjúkrun

Á árinu var tekið upp forritið Smásaga. Forritið gerir starfsfólki heimahjúkrunar kleift að skipuleggja flókinn dag innlita og skrá jafn óðum ástand og aðgerðir. Kerfið er beintengt sjúkraskrárkerfinu Sögu. Með þessu hættir tvíverknaður við að skrifa nótur á staðnum og færa þær svo inn í sjúkraskrárkerfið að degi loknum.

Annáll

Miðað við tvö síðustu ár var Heilbrigðisstofnun Vestfjarða ekki mikið í fréttum en allt árið bárust helst ýmisskonar tilkynningar og orðsendingar frá stofnuninni til fólks um að mæta í sýnatökur og bólusetningar. Covid bólusetningar og influensubólusetningar voru þar mest áberandi en bólusett var reglulega við covid og svo bættust influensubólusetningar við þegar líða tók á haustið.

Aðrar fréttir voru þær að í byrjun júní komu forsetahjónin Guðni og Elísa í opinbera heimsókn til Ísafjarðar og gáfu sér góðan tíma í heimsókn til stofnunarinnar.

Stofnunin tók á móti nokkrum góðum gjöfum á árinu og er þar fyrst að telja að Stöndum saman Vestfirðir afhenti heyrnarmælingatæki í lok febrúar. Sjúkraþjálfunin á Patreksfirði tók á móti afar veglegri gjöf frá Lionsklúbbi Patreksfjarðar en það var tæki frá NuStep sem þjálfar bæði styrk og þol. Dýrafjarðardeild Rauða krossins gaf endurlífgunartæki á heilsugæsluselið á Þingeyri í lok apríl. Fæðingadeildinni barst falleg gjöf frá Rósbjörgu Eddu Sigurðardóttur Hansen en hún færði deildinni englaklæði sem hún saumaði og eru ætluð foreldrum sem missa barn á meðgöngu.

Kvenfélagasamband Íslands varð 90 ára árið 2020 og færði fæðingadeildinni í tilefni þessara tímamóta nýjan fósturhjartsláttarsíritia sem kemur sér sannarlega vel. Katrín Björk Guðjónsdóttir færði stofnuninni fimm litríkar og fallegar myndir að gjöf sem lífga sannarlega uppá setustofuna á annrri hæð.

Í mars leitaði stofnunin til Danmerkur eftir læknum og voru margir danskir læknar áhugasamir og sóttu um. Fyrstu dönsku læknarnir komu með haustinu og hafa bæði komið almennir læknar, skurðlæknir, kvensjúkdómalæknir og svæfingahjúkrunarfræðingur. Þeim hefur gengið vel að aðlagast Ísfirsku samfélagi og flestir sem hafa leitað til þeirra hafa verið ánægðir með þeirra þjónustu.

Í nóvember hófst stoðkerfismóttaka á heilsugæslunni á Ísafirði sem hefur gengið mjög vel og kemur til með að létta á álagi á læknum. Í lok nóvember var svo haldinn vel heppnaður Bangsadagur og mættu margir bansaeigendur með bangsa sem fengu aðhlynningu.

Í byrjun desember varð alvarlegt slys á Hnífsdalsvegi og aðgerðarstjórn virkjuð. Um þrjátíu starfsmenn stofnunarinnar voru kallaðir út vegna slyssins. Má segja að sú æfing aðgerðarstjórnar sem haldin var í lok sumars hafi sannað gildi sitt og hjálpað til með að aðgerðir gengu fumlaust fyrir sig og allt gekk eins og ætlað var.

Í lok árs var svo það í fréttum að nýtt merki stofnunarinnar sem grafíski hönnuðurinn Siggi Odds hannaði vann til silfurverðlauna ADCE, félags listrænna stjórnenda í Evrópu, sem var mjög ánægjulegt. Áður hafði merkið hlotið gullverðlaun FÍT.

Góðir starfsmenn kvaddir

Í maí þökkuðum við fjórum starfsmönnum fyrir góð störf í þágu stofnunarinnar og skjólstæðinga hennar. Þær hafa allar starfað mjög lengi hjá okkur, lengst 32 ár. Við höfum verið einstaklega heppin að hafa notið starfskrafta þeirra öll þessi ár.

Á myndinni eru frá vinstri Gylfi Ólafsson forstjóri, Sigurbjörg Kjartansdóttir sjúkraliði, Pálína Jensdóttir ritari á endurhæfingardeild, Heiðrún Björnsdóttir sjúkraliði og Hansína Sigurðardóttir læknaritari.

Biðtími eftir plássi á hjúkrunarheimilum orðinn skaplegri

Stjórnarráðið hefur birt mælaborð biðtíma eftir plássi á hjúkrunarheimili. Þar sést að eftir hátt stökk sérstaklega 2021 hefur biðtíminn orðið skaplegri í umdæminu. Á tímabili þurfti að tvímenna í herbergi á Eyri og Bergi, en því var fljótlega hætt.

Sjúkraflutningum fjölgaði

Sjúkraflutningar, sem hafði fækkað aðeins í faraldrinum, tóku kipp. Fjölgunin er mest á Ísafirði og í sjúkraflugi.

Úr myndaalbúmi forstjóra

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn tók tvennum breytingum á árinu. Andri Konráðsson og Hrannar Örn Hrannarsson hættu síðasta sumar. Súsanna Björg Ástvaldsdóttir og Elísabet Samúelsdóttir tóku við af þeim.

Uppfært 28. mars 2023 (GÓ)

Var síðan gagnleg?