Á myndgreiningadeild sjúkrahússins á Ísafirði eru framkvæmdar almennar röntgenrannsóknir, tölvusneiðmyndarannsóknir og einnig hjartalínurit. Á Patreksfirði eru framkvæmdar almennar röntgenrannsóknir. Ávallt verður að vera læknisfræðileg ástæða fyrir röntgenrannsóknum og þær skal framkvæma á viðurkenndan hátt, þannig að geislun verði eins lítil og unnt er.  Þá er sú hætta sem fylgir geisluninni réttlætanleg og tryggt er að ávinningur sjúklings er meiri en áhættan.

Geislaskammtar sjúklinga geta verið mjög breytilegir við sams konar röntgenrannsókn, bæði innbyrðis á milli sjúklinga og á milli einstakra röntgendeilda.  Markmiðið er þó alls staðar það sama; að halda geisla skömmtum eins lágum og unnt er.

Almennar röntgenrannsóknir

Röntgengeisli er notaður til að taka myndir af beinum líkamans, kviðarholi eða lungum. Oftast eru teknar 2-4 myndir en fjöldi mynda fer eftir rannsóknarsvæði.

Undirbúningur

Fjarlægja þarf fatnað og skart sem geta skyggt á það svæði líkamans sem á að mynda.

Framkvæmd

Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum geislafræðings, t.d. varðandi öndun. Það fer eftir því svæði sem á að mynda hvort þú þarft að sitja, standa eða liggja á rannsóknarbekk. Geislafræðingur stillir þér inn og gengur afsíðis til að taka mynd en ástæðan fyrir því er að geislafræðingar taka myndir á hverjum degi, magn geisla í almennum röntgenrannsóknum er ekki hættulegt. Röntgenrannsóknir taka u.þ.b. 10-20 mínútur.

Geislavarnir eru notaðar eftir þörfum en mikilvægasta vörnin felst í nákvæmum og réttum vinnubrögðum geislafræðinga.

Niðurstöður

Allar myndir eru sendar í Domus Medica til úrlesturs. Röntgenlæknar greina myndirnar og senda svar til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni, sá aðili ber ábyrgð á því að upplýsa sjúkling um niðurstöðurnar.

Úrlestur tekur að jafnaði 1-2 daga en hægt er að koma við í afgreiðslu og panta símatíma hjá lækni nokkrum dögum eftir rannsókn til að nálgast niðurstöður.

Börn í röntgenrannsókn

Börn finna ekki fyrir því þegar röntgenmynd er tekin en mikilvægt er að barnið sé kyrrt á meðan. Foreldrum er velkomið að vera með börnum sínum og þurfa oft að hjálpa þeim við að vera alveg kyrr. Sé foreldri með barni sínu þarf það að klæðast blýsvuntu á meðan myndað er til að verjast óþarfa geislun.

Röntgentæki á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði
Jón B.G. Jónsson, læknir, ásamt röntgentæki á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Patreksfirði

Tölvusneiðmyndarannsóknir

Röntgengeisli er notaður til að fá sneiðmyndir af líffærum, líffærakerfum eða ákveðnum líkamshlutum. Með tölvusneiðmynd er m.a. hægt að fá ítarlegar upplýsingar um ástand líffæra og æða og afstöðu þeirra, ásamt því að greina brot í beini sem ekki sést á almennri röntgenmynd.

Undirbúningur

Undirbúningu tölvusneiðmynda fer eftir myndsvæði og ástæðu fyrir rannsókninni. Fjarlægja þarf fatnað ef málmur eða málmþræðir eru í fatnaði, skart og aðra fylgihluti sem geta skyggt á myndsvæðið eða gefið frá sér myndgalla.

Framkvæmd

Á meðan rannsókn stendur þarf að liggja á rannsóknarbekk sem keyrir rólega fram og til baka inn í tölvusneiðmyndatækið. Tækið líkist einna helst stórum kleinuhring og eru því litlar líkur á innilokunarkennd. Stillt er inn fyrir rannsóknina og er því mikilvægt að liggja alveg kyrr eftir það. Stundum þarf að gefa joðskuggaefni í æð og er þá settur upp æðaleggur. Tölvusneiðmyndarannsókn tekur að jafnaði um 10-20 mínútur.

Joðskuggaefni er gefið í bláæð og er notað til að greina á milli líffæra, meta ástand þeirra og gera æðar sýnilegar á mynd. Eðlilegt er að finna fyrir hita í líkamanum streyma frá hálsi og niður í þvagblöðru, tilfinningu líkt og þvaglát eigi sér stað og oft finnst óbragð í munni. Þessi viðbrögð eru eðlileg og líða hratt hjá.

Óþol eða ofnæmisviðbrögð geta komið upp við inngjöf joðskuggaefnis. Sért þú með þekkt ofnæmi fyrir skuggaefninu skaltu láta þann lækni vita sem óskar eftir rannsókninni, afgreiðslu eða geislafræðing fyrir rannsókn. Mikilvægt er að láta vita með fyrirvara svo hægt sé að hefja undirbúning tímanlega eða velja aðra rannsóknaraðferð. Stundum er hægt að framkvæma rannsóknina án skuggaefnis eða þá með notkun ofnæmislyfja samhliða rannsókninni.

Sykursýki hefur almennt ekki áhrif á tölvusneiðmyndarannsóknir en þeir sem taka lyf við sykursýki þurfa einnig að láta okkur vita. Ef til vill þarf að hætta lyfjatöku tímabundið.

Mikilvægt er að muna að drekka vel af vatni eftir skuggaefnisrannsókn.

Niðurstöður

Allar myndir eru sendar í Domus Medica til úrlesturs. Röntgenlæknar greina myndirnar og senda svar til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni, sá aðili ber ábyrgð á því að upplýsa sjúkling um niðurstöðurnar. Úrlestur tekur að jafnaði 1-2 daga en hægt er að koma við í afgreiðslu og panta símatíma hjá lækni nokkrum dögum eftir rannsókn til að nálgast niðurstöður.

Tölvusneiðmyndatæki á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði

Ert þú barnshafandi? Láttu okkur vita!
Ef sjúklingur er barnshafandi eða telur það mögulegt er mikilvægt að láta geislafræðing eða lækni vita fyrir rannsókn. Þörf er á sérstakri varúð ef kona er gengin 8 – 15 vikur vegna hugsanlegrar áhrifa rannsóknanna á miðtaugakerfi fósturs. Forðast er að mynda barnshafandi konur nema brýna nauðsyn beri til og er þá sýnd sérstök aðgæsla m.t.t. geislavarna.

Opnunartími myndgreiningardeildar
Geislafræðingar eru við frá kl. 08:00-15:00 alla virka daga, en eru á bakvakt utan dagvinnutíma.

Tímapantanir
Hægt er að panta tíma í síma 450 4500 og biðja um samband við myndgreiningadeild.

Uppfært 23. janúar 2023 (MÞ)

Var síðan gagnleg?