Inngangur

Ástvinamissir er alltaf erfið reynsla og enginn er fyllilega búinn undir slíkt áfall, hversu langur sem aðdragandinn kann að hafa verið. Spurningar leita á hugann um hvað gera þurfi fram að útför. Að mörgu er að hyggja og erfitt að henda reiður á öllu sem gera þarf á stuttum tíma. Ekki eru starfandi útfararstofur á svæðinu. Ættingjar hins látna þurfa því sjálfir, eða í samráði við prestinn sinn, að panta kistu og annast öll samskipti við kirkju, prentsmiðju og fjölmiðla.

Með bæklingi þessum vill starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, leiðbeina þér um það helsta sem huga þarf að í tengslum við andlát og útför.

Andlát á sunnanverðum Vestfjörðum

Langflestir nýta sér þjónust Gests Rafnssonar, s. 861 7741 þegar andlát ber að garði á sunnanverðum Vestfjörðum.

Tilkynning um andlát

Þegar búið er að láta alla nánustu aðstandendur og vini vita, er tilkynning um andlátið vanalegast birt bæði í dagblaði og útvarpi. Ef útfarardagur er ekki nefndur þar, er nauðsynlegt að tilkynna hann á sama hátt síðar. Venja er að hafa mynd af hinum látna með tilkynningunni.

Fánar

Fánareglur Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða gera ráð fyrir að við andlát íbúa á hjúkrunarheimili sé flaggað í hálfa stöng við heimilið bæði á andlátsdegi og útfarardegi, en áður er reynt að afla leyfis aðstandenda.

Í Bolungarvík er hægt er að fá fánastöng og fána hjá áhaldahúsi bæjarins (Reynir Ragnars). Í Ísafjarðarbæ útvegar áhaldahúsið fánastöng.

Andlát utan stofnunar

Við andlát utan stofnana er lögregla kvödd til auk sjúkraflutningamanna og læknis sem staðfestir andlátið. Lögregla rannsakar vettvang og ákveður í samráði við lækni hvort unnt sé að kveða upp úr um dánarorsök. Ef það er ekki hægt skal réttarkrufning fara fram samkvæmt lögum.

Þegar andlát hefur verið staðfest, og rannsókn lögreglu og læknis er lokið, getur lögregla heimilað að búið sé um hinn látna heima, ef andlátið varð á heimili. Lögregla er ábyrg fyrir að hinn látni sé fluttur í líkhús.

Stundum gefst færi á því að hafa kveðjustund áður en hinn látni er fluttur í líkhús og geta slíkar stundir verið dýrmætar. Framkvæmdastjóri hjúkrunar á heilbrigðisstofnuninni er tengiliður við aðstandendur í þessum tilvikum.

Prestur

Við ráðleggjum þér að tilkynna presti um andlátið sem allra fyrst, meðal annars til að þiggja aðstoð hans, stuðning og umhyggju í sorginni, jafnvel strax við dánarbeðið.

Í samráði við kirkjuvörð, eða prestinn, er legstæði í kirkjugarði úthlutað og gröf tekin. Einnig þarf að tímasetja og ákveða fyrirkomulag kistulagningarathafnar og útfarar, hvaða sálma á að syngja við útförina og hvort um sérstakan hljóðfæraleik eða einsöng, verður að ræða. Þá þarf presturinn upplýsingar um hinn látna vegna minningarorða við útförina. Í því sambandi er komið á framfæri boði til erfidrykkju og ef til vill kveðjum frá fjarstöddum ættingjum.

Dánarvottorð

Dánarvottorð eru nú orðin rafræn á Ísland.is.

Sálmaskrá

JHprent og Pixel eru með starfsemi á Ísafirði og sjá um uppsetningu og prentun á sálmaskrám. Fyrir prentun þurfa að liggja fyrir upplýsingar um eintakafjölda, nafn, fæðingardag og dánardag hins látna, nákvæma dagskrá útfarar, þ.m.t. sálma, hvaða prestur jarðsyngur og hverjir annast söng og hljóðfæraslátt. Vanalega er höfð mynd af hinum látna á forsíðunni. Aðstandendum er bent á að prófarkalesa sálmaskrána vandlega fyrir prentun.

Kista

Panta þarf líkkistu með góðum fyrirvara. Kistusmiður á Ísafirði er Arnór Magnússon, s. 861 4624.

Öllum kistum fylgja koddi, sæng, og andlitshjúpur. Algengast er að konur séu jarðaðar í kirtlum en karlar í buxum og treyju. Starfsfólk stofnunarinnar annast hinn látna í líkhúsi og gengur frá í kistu. Líkhús fyrir norðanverða Vestfirði er á sjúkrahúsinu á Ísafirði.

Ef óskað er bálfarar, þarf að hafa samband við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, sem reka bálstofuna, í síma 585 2700.

Ef kista er pöntuð annarsstaðar frá þarf að taka mál af hinum látna og annast starfsmenn heilbrigðisstofnunarinnar það ef óskað er.

Kistulagning

Kistulagning er stutt kveðjuathöfn fyrir nánustu fjölskyldumeðlimi og mjög nána vini, oftast daginn fyrir útför. Á Ísafirði getur hún farið fram í kapellu sjúkrahússins eða Ísafjarðarkirkju. Í Bolungarvík fer hún í flestum tilfellum fram í Hólskirkju. Margar fleiri kirkjur eru á svæðinu og vísast til presta hvað notkun þeirra varðar.

Kistan er þá opin og hinn látni er með andlitshjúp, sem má fjarlægja á meðan á athöfninni stendur, eða í lok hennar.

Heimilt er að setja sálmabók, eða biblíu og/eða blóm í kistuna og er tilvalið að leyfa börnum að gera það, ef þau eru viðstödd. Einnig þykir börnum vænt um að fá að setja teikningu eftir sig í kistuna. Ef ung börn eru viðstödd kistulagningu, er rétt að þau komi snemma og fái stuðning og leiðsögn hjá prestinum við kistuna, áður en athöfnin hefst. Rétt er að ráðfæra sig áður við prestinn um mögulega útlitsbreytingu á andliti hins látna, þ.e. hvort nokkuð sé því til fyrirstöðu, að fjarlægja andlitshjúpinn við athöfnina.

Kistulagningarathöfn er oft heppilegri vettvangur fyrir ung börn til að kveðja ástvin en útför. Hún er styttri, hún er börnunum raunverulegri, þau fá betra tækifæri til að kveðja hinn látna á sinn hátt og taka þátt í sorginni með sínum nánustu við athöfn þar sem auðvelt er að hreyfa sig, útskýra fyrir þeim og svara spurningum, tala við þau, hugga þau og gefa þeim tíma til að átta sig.

Ekkert er því til fyrirstöðu að aðstandendur setji lokið á kistuna í lok athafnarinnar og festi það. Er það sumum táknræn kveðjustund og til þægðar að vita, að ekki verður hróflað við hinum látna meir

Kapellan á sjúkrahúsinu á Patreksfirði
Kapellan á sjúkrahúsinu á Ísafirði
Ísafjarðarkirkja

Blóm og kransar

Blómaval í Húsasmiðjunni á Ísafirði tekur að sér gerð kransa og blómaskreytinga á kistu. Um útlit og uppstillingu blómaskreytinga í kirkjunni sér meðhjálparinn, í samráði við aðstandendur.

Fyrir útför

Önnur atriði varðandi útförina sem huga þarf að eru hverjir bera eigi kistuna úr kirkju í líkbíl og úr líkbíl að gröf og hverjir bera eigi kransa og blóm úr kirkjunni.

Kistu er komið til kirkju á Ísafirði að morgni útfarardags í samráði við meðhjálpara og kirkjuvörð, en jafnvel daginn áður í kirkjur nágrannasókna, allt eftir venjum og aðstæðum á hverjum stað. Þá er gengið frá uppstillingu kransa og sálmaskráa.

Hver sem er getur flutt kistu til kirkju, en annars er hægt að snúa sér til kirkjuvarðar á Ísafirði eða Bolungarvík um flutning í líkbíl.

Kostnaður

Eins og áður segir er engin útfararþjónusta á norðanverðum Vestfjörðum. Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða tekur því að sér að annast umönnun og umbúnað látinna á svæðinu, kæligeymslu, frágang í kistu og samskipti þar að lútandi við aðstandendur. Gjald fyrir þessa þjónustu er 23.000 kr.

Önnur trú– og lífsskoðunarfélög

Jóhannesarkapella á Ísafirði

Í kaþólsku kirkjunni í Mjallargötu á Ísafirði þjónar af Sr. Edwin Słuczan-Orkusz. Hann sinnir öllum Vestfjörðum s. 456 3804 og 823 0082, ksedi70@mail.ru.

Ásatrúarfélagið og Siðmennt sinna útförum eftir nánara samkomulagi. Í báðum tilvikum er best að hafa samband við skrifstofu þeirra í Reykjavík.

Að takast á við sorg

Sorgin er langt ferli sem missirinn leggur þér á herðar. Hún birtist í mismunandi myndum og á misjafnan hátt hjá hverjum og einum. Tilfinningar og líkamleg einkenni henni fylgjandi eðlileg viðbrögð sem þú verður að takast á við. Við hvetjum þig til að leita huggunar og umhyggju hjá ástvinum þínum og presti. Við hvetjum þig til að spyrja þá, eða okkur, ósvaraðra spurninga, sem leita á hugan. Við bendum þér á Sorgarmiðstöð, sorg.is.

Aðrar upplýsingar

Á vefnum Island.is er að finna mikið magn upplýsinga sem tengist andláti, erfðamálum, bótarétti og mörgu fleiru.

Helstu tengiliðir

Fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða: framkvæmdastjóri hjúkrunar, Hildur Elísabet Pétursdóttir, s. 450 4500, hildurep@hvest.is.

Vegna andláta á norðanverðum Vestfjörðum

Sr. Magnús Erlingsson, s: 456 3171 og 456 3560, hs. 456 3017, isafjardarkirkja@simnet.is.

Sr. Fjölnir Ásbjörnsson, hs. 456 7672, gsm. 866 2581, srfjolnir@simnet.is.

Þingeyri og Dýrafjörður

Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, hs. 456 8211, gsm. 869 4993, hildurir@simnet.is.

Vegna andláta á sunnanverðum Vestfjörðum

Sr. Kristján Arason, s: 8466569, kristjanaras@gmail.com

Fyrir Patreksfjörð, Tálknafjörð og nærsveitir rekur Gestur Rafnsson, s. 861 7741, útfararþjónustu.

Aðrir tengiliðir

Arnór Magnússon kistusmiður, s. 861 4624.

Pixel prentsmiðja, s. 575 2710, gunnar@pixel.is.

Blómaval Húsasmiðjunni, s. 525 3310.

Kirkjuvörður í Ísafjarðarkirkju, Matthildur Ásta Hauksdóttir, vs. 456 3560, gsm. 863 1443.

Hjúkrunarheimilið Berg: 4504595

Líkbíll í Bolungarvík (Elvar): s. 893 7039

Uppfært 3. júlí 2024 (HEP)

Var síðan gagnleg?