Sjúkraþjálfarar eru sérmenntaðir í stoðkerfi líkamans og í að greina frávik í virkni þess. Því fyrr sem sjúkraþjálfari kemur að vandamáli þar sem sérþekkingar hans er þörf, því meiri líkur eru á skjótari og betri bata. Nú hefur sjúkraþjálfari komið inn sem fyrsti móttökuaðili einstaklinga með stoðkerfisvandamál á Heilsugæslunni á Ísafirði. 

Á stoðkerfismóttöku sjúkraþjálfara er veitt snemmtæk íhlutun í formi greiningar og ráðlegginga en ekki hefðbundin meðferð sjúkraþjálfara. Þannig er hægt að nálgast vandamálið fyrr og þar með minnka líkur á að það verði langvinnt.

  • Stoðkerfismóttaka sjúkraþjálfara tekur á móti einstaklingum með einkenni og/eða verki frá stoðkerfi. Helsta markmið er að koma í veg fyrir versnun einkenna og koma bata í gang eins fljótt og hægt er.
  • Sjúkraþjálfarinn veitir fyrst og fremst fræðslu og ráðleggingar í formi sjálfshjálpar á borð við æfingar, hvíldarstöður, teipingar, vinnustellingar eða sjálfsmeðferðar í formi hita og kælimeðferðar, mjúkvefjameðferðar eða annars.
  • Eftirfylgni með ráðgjöfinni er veitt í formi símtals, oftast 2-3 vikum frá komu til sjúkraþjálfarans. 
  • Ef sjúkraþjálfari á heilsugæslu telur málið þess eðlis þá getur hann skrifað beiðni um sjúkraþjálfun og vísað einstaklingnum til meðferðar hjá sjúkraþjálfara utan heilsugæslunnar.
  • Ef sjúkraþjálfari telur að einstaklingur sem leitar á stoðkerfismóttöku þurfi læknisskoðun eða myndrannsóknir þá hefur hann aðgang til að bóka tíma hjá lækni án þess að löng bið eftir tíma myndist.

Fyrirkomulag á Heilsugæslustöðinni á Ísafirði

Boðið er upp á stoðkerfismóttöku sjúkraþjálfara 3x í viku á heilsugæslu. Tímarnir eru eftirfarandi:

  • Á mánudögum frá 13:00-16:00
  • Á miðvikudögum frá 8:00-10:00
  • Á fimmtudögum frá 13:00-16:00

Aðstaðan er til staðar á endurhæfingardeild í herbergi númer 5

Einstaklingar geta bókað sig beint í stoðkerfismóttöku í gegnum móttöku eða fengið tilvísun frá öðru heilbrigðisstarfsfólki svo sem læknum og hjúkrunarfræðingum.

Uppfært 15. janúar 2024 (JEÚ)

Var síðan gagnleg?