Heilsugæslusel er í Guðnabúð, húsnæði Björgunarsveitarinnar Sæbjargar. Læknisþjónusta er veitt einu sinni í viku og þarf að bóka tíma fyrirfram í gegnum Heilsuveru eða í síma 450 4500.

Önnur þjónusta er veitt eftir þörfum.

Heimahjúkrun er sinnt af heimahjúkrunardeildinni á Ísafirði.

Heilbrigðisþjónusta á Flateyri: stutt yfirlit

Lýðveldisárið 1944 var húsið að Eyrarvegi 8 byggt. Læknisbústaður var á efri hæðinni og sjúkraskýli, læknamóttaka og lyfsala á neðri hæðinni. Læknisbústaðurinn var fluttur 1978 og öldrunarstofnun Önfirðinga sett upp á efri hæðinni, sem síðar fékk nafnið Sólborg. Eftir að jarðgöngin opnuðu kom fyrsta skrefið í sameiningum heilbrigðisstofnana, sem hélt svo áfram þangað til Heilbrigðisstofnun Vestfjarða var orðin til í núverandi mynd árið 2014.

Á öldrunarheimilinu voru rúm fyrir sex skjólstæðinga á einbýlum, en þó stundum hafi verið allt upp í átta íbúar fækkaði þeim hratt og voru lengi tveir til þrír. Heimilinu var lokað árið 2010 til að mæta sparnaðarkröfu eftirhrunsáranna. Þá var húsnæðið orðið mjög lúið og óhentugt, meðal annars með hliðsjón af því að starfsemin var á annarri hæð í húsi án lyftu. Viðhaldi þess var verulega ábótavant næstu árin og árið 2019 var ljóst að húsnæðið var of dýrt og óhentugt fyrir þá starfsemi sem þar var. Reynt var að finna hentugt húsnæði fyrir heilsugæslusel en ekkert húsnæði fannst sem uppfyllti þær kröfur sem eðlilegt er að gera í nútímasamfélagi.

Við það sat þegar snjóflóðið féll í janúar 2020. Í kjölfarið kom upp talsverð gagnrýni á að heilsugæsluselinu hefði verið lokað. Viðfangsefnið var í grunninn tvíþætt; annars vegar bráðaviðbragð og hins vegar heilsugæsluþjónusta. Strax var hafist handa við að opna nýja heilsugæslu í tímabundinni lausn í Bryggjukaffi. Bráðaviðbragðsmegin var tekið upp samstarf við björgunarsveitina og okkar dygga fyrrum starfsmann—hana Heiðu—þar sem við keyptum ýmsan búnað sem gott er að hafa tiltækan þegar eitthvað kemur upp á.

Einnig var boðið til námskeiðs fyrir vettvangsliða, sjálfboðaliða sem geta veitt fyrstu hjálp, þar sem þátt tóku ekki bara Flateyringar, heldur einnig Súgfirðingar og Súðvíkingar. Þar sem sjúkraflutningar á svæðinu eru reknir af Ísafjarðarbæ eftir samningi við heilbrigðisstofnunina, var sá samningur einnig uppfærður til að endurspegla það verkefni sem felst í að halda utan um það hvaða vettvangsliðar eru búsettir á svæðinu, sinna endurmenntun og eftir atvikum fjölga í hópi þeirra.

Svo var það þetta með heilsugæsluselið. Þegar Magnús formaður björgunarsveitarinnar kom að máli við okkur um samstarf hljómaði það strax mjög vel. Við hentum á milli okkar hugmyndum um það hvernig hægt væri að lappa upp á húsnæðið og í gang fór vinna við að kanna hvernig formleg hlið verkefnisins ætti að vera, einkum með eignarhald og form á leigusamningnum. Úr varð samningur sem var undirritaður í nóvember 2020, við fluttum inn í janúar 2021. Leigusamning sem rennur út fyrsta janúar 2041.

GÓ, október 2021

Uppfært 5. október 2023 (GÓ)

Var síðan gagnleg?