Á starfsstöð Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Patreksfirði er hjarta starfseminnar á suðursvæðinu. Þar er allri almennri heilbrigðisþjónustu sinnt fyrir íbúa Vesturbyggðar og Tálknafjarðar.

Hjúkrunarstjóri á Patreksfirði er Gerður Rán Freysdóttir, gerdur@hvest.is.

Hjúkrunar- og legudeild

Hjúkrunar- og legudeild er með ellefu hjúkrunarrýmum og tveimur sjúkrarýmum. Deildarstjóri er Lilja Sigurðardóttir.

Heilsugæsla

Heilsugæslan á Patreksfirði veitir fjölbreytta heilsugæsluþjónustu. Til viðbótar við þjónustu læknis og hjúkrunarfræðinga koma á heilsugæsluna ljósmóðir og aðrir sérfræðingar frá starfsstöð á Ísafirði.

Heimahjúkrun er veitt frá heilsugæslunni og skólahjúkrun í skólana á svæðinu.

Sjúkrahúsið á Patreksfirði. Í húshlutanum til vinstri, sem byggður var á árunum 1944–6 er hjúkrunardeild, sjúkrarými, eldhús og ýmis stoðrými. Í nýrri hlutanum sem byggður var 1976–82 og er til hægri, er matsalur íbúa hjúkrunarheimilisins á efstu hæð. Á aðalhæð er heilsugæsla og í kjallara endurhæfing, þvottahús, kapella og fleira.

Í baksýn sést glitta í kirkjuturninn og grunnskólann, og þar fyrir aftan Vatneyri í baksýn. Myndin er tekin ofan af snjóflóðavarnargarði sem stendur eftir hlíðinni endilangri.

Endurhæfing

Lárus Jón Björnsson sjúkraþjálfari starfar í hlutastarfi hjá heilbrigðisstofnuninni. Þess utan sinnir hann sjálfstæðri göngudeildarþjónustu. Best er að panta tíma í gegnum netfangið larussjukrathjalfari@gmail.com . Einnig er hægt að hringja í 450 2018 eða 839 2018. Einnig er hægt að sjá upplýsingar á Facebook-síðu Sjúkraþjálfunar á Patró.

Sjúkraflutningar

Sjúkraflutningum fyrir svæðið er sinnt af sjúkraflutningamönnum á bakvöktum með starfsstöð í húsnæði Rauða krossins á Vatneyri.

Hluti sjúkraflutningamanna í ágúst 2021.

Gagngerar endurbætur

Samkvæmt áætlun heilbrigðisráðuneytisins um uppbyggingu hjúkrunarrýma frá haustinu 2019 eru fyrirhugaðar gagngerar endurbætur á sjúkrahúsinu. Vesturbyggð hyggst í samhengi við framkvæmdirnar byggja aðstöðu fyrir félagsstarf eldri borgara auk þess sem nokkrar aðrar breytingar verða gerðar á sjúkrahúsinu í tengslum við framkvæmdirnar. Stefnt er að því að halda hugmyndasamkeppni árið 2022.

Uppfært 7. mars 2022 (MÞ)

Var síðan gagnleg?