Á starfsstöð Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Patreksfirði er hjarta starfseminnar á suðursvæðinu. Þar er allri almennri heilbrigðisþjónustu sinnt fyrir íbúa Vesturbyggðar og Tálknafjarðar.

Hjúkrunarstjóri á Patreksfirði er Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir.

Hjúkrunar- og sjúkradeild

Heilsugæsla

Hjúkrunar- og sjúkradeild er með ellefu hjúkrunarrýmum og tveimur sjúkrarýmum. Deildarstjóri er Árný Magnúsdóttir.

Heilsugæslan á Patreksfirði veitir fjölbreytta heilsugæsluþjónustu. Til viðbótar við þjónustu læknis og hjúkrunarfræðinga koma á heilsugæsluna ljósmóðir og aðrir sérfræðingar frá starfsstöð á Ísafirði.

Heimahjúkrun er veitt frá heilsugæslunni. Sótt er um heimahjúkrun í gegnum lækni á heilsugæslu.

Skólahjúkrun er veitt frá heilsugæslu í skólana á svæðinu. Skólahjúkrunarfræðingur er Lilja Sigurðardóttir.

Sjúkrahúsið á Patreksfirði. Í húshlutanum til vinstri, sem byggður var á árunum 1944–6 er hjúkrunardeild, sjúkrarými, eldhús og ýmis stoðrými. Í nýrri hlutanum sem byggður var 1976–82 og er til hægri, er matsalur íbúa hjúkrunarheimilisins á efstu hæð. Á aðalhæð er heilsugæsla og í kjallara endurhæfing, þvottahús, kapella og fleira.

Í baksýn sést glitta í kirkjuturninn og grunnskólann, og þar fyrir aftan Vatneyri í baksýn. Myndin er tekin ofan af snjóflóðavarnargarði sem stendur eftir hlíðinni endilangri.

Endurhæfing

Á stofnuninni er sjúkraþjálfari í hlutastarfi sem sinnir hjúkrunar- og sjúkradeildinni og heilsugæslu. Sjúkraþjálfari er Margrét Brynjólfsdóttir.

Í kjallaranum er aðstaða fyrir göngudeildarþjónustu en enginn sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari eins og stendur (janúar 2024). Unnið er að því að bæta þessa mönnun. Sjúkraþjálfarar sem vilja koma til starfa, sjálfstætt eða undir hatti stofnunarinnar, geta haft samband við Hrafnildi.

Sjúkraflutningar

Sjúkraflutningum fyrir svæðið er sinnt af sjúkraflutningamönnum á bakvöktum með starfsstöð í húsnæði Rauða krossins á Vatneyri.

Hluti sjúkraflutningamanna í ágúst 2021.

Gagngerar endurbætur

Samkvæmt áætlun heilbrigðisráðuneytisins um uppbyggingu hjúkrunarrýma frá haustinu 2019 eru fyrirhugaðar gagngerar endurbætur á sjúkrahúsinu. Vesturbyggð hyggst í samhengi við framkvæmdirnar byggja aðstöðu fyrir félagsstarf eldri borgara auk þess sem nokkrar aðrar breytingar verða gerðar á sjúkrahúsinu í tengslum við framkvæmdirnar. Stefnt er að því að halda hugmyndasamkeppni árið 2023.

Uppfært 31. janúar 2024 (HÓÓ)

Var síðan gagnleg?