Eftirfarandi reglur gilda frá 21. júní:

Grímuskylda á öllum heilsugæslustöðvum

Grímuskylda (skurðstofugrímur, þessar bláu með hvítu böndunum) er fyrir skjólstæðinga sem ekki eru inniliggjandi og starfsmenn í nánum samskiptum við skjólstæðingana. Þetta á við um heilsugæslu, slysadeild og tengdar deildir.

Sýnatökur verða tvisvar í viku á Ísafirði

Sýnatökur verða nú tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 13:00. Skráning á Heilsuveru.

Sjúkradeild á Ísafirði

Heimsóknir til sjúklinga á sjúkradeild eru takmarkaðar við einn gest í einu (ásamt fylgdarmanni ef nauðsyn krefur) innan skilgreinds heimsóknartíma. Undanþágur eru áfram veittar við sérstakar aðstæður. Heimsóknargestir eiga að bera skurðstofugrímur.

Hraðpróf verða tekin af öllum skjólstæðingum sem leggjast inn. Einstaklingar með flensulík einkenni byrja í einangrun og verður þá tekið PCR. Starfsfólk notar grímur í nánum samskiptum við skjólstæðinga.

Hjúkrunarheimili

Ekki verða gerðar breytingar að sinni á hjúkrunarheimilum. Við mælum með að gestir noti grímur. Fólk með flensulík einkenni komi ekki í heimsókn.

Bólusetning er besta vörnin: Bólusetning er í boði

Bólusetningarstaða meðal íbúa á Vestfjörðum er prýðileg. Af þeim hópum sem við á, er talsvert hátt hlutfall íbúa búið að fara í fjórðu bólusetningu. Betur má ef duga skal. Athygli er vakin á bólusetningardögum í júní, sjá nánar um það í þessari frétt.

Reglurnar munu taka breytingum, mögulega með stuttum fyrirvara.