Nýr hjúkrunarstjóri hefur tekið til starfa á Patreksfirði, Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir. Hrafnhildur er hjúkrunarfræðingur og kom til stofnunarinnar eftir störf sem deildarstjóri málaflokks heimilislausra í Reykjavík. Hún hefur fjölbreytta og mikilvæga reynslu af störfum í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Hrafnhildur tók við starfinu í maí.

Einnig hefur verið ráðið í stöðu rekstrarstjóra. Magnús A. Sveinbjörnsson var ráðinn, en hann hefur stjórnunarreynslu af barna- og unglingamálum í Reykjavík.

Uppbygging á heilbrigðisþjónustu framundan

Ástæða er til að vekja athygli á að auglýst hefur verið laus til umsóknar staða deildarstjóra hjúkrunar- og sjúkradeildar á Patreksfirði. Uppbygging á heimahjúkrun á svæðinu verður á ábyrgð deildarstjóra, en þar eru mikil tækifæri til að gera betur.

Unnið er að undirbúningi viðbyggingar við húsið þar sem ný hjúkrunardeild verður byggð. Er það verkefni á leið í hönnunarsamkeppni á næstu mánuðum.

Uppfært skipurit

Nýtt skipurit fyrir starfsemina á Patreksfirði var gert árið 2019. Síðan eru liðin fjögur ár, en einnig vill það þannig til að Hrafnhildur og Magnús eru hjón. Því taldi framvkæmdastjórn rétt að uppfæra skipuritið, og er það birt hér fyrir neðan. Skipuritið fyrir stofnunina í heild var uppfært á sama tíma. Tilkynning um þetta hefur verið send heilbrigðisráðherra til upplýsingar í samræmi við 11. gr. laga um heilbrigðisþjónustu.