Sameyki birti 16. mars niðurstöður könnunar sinnar um Stofnun ársins.
Könnunin náði til um 31 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum. Hún er unnin í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið og mannauðsdeildar Reykjavíkurborgar og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á opinbera vinnumarkaðnum. Í henni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum. Alls fengust gild svör frá rúmlega 13.300 starfsmönnum og svarhlutfallið var 43 prósent. Jafnréttisstofa er stofnun ársins í ár.
Heildareinkunn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sem hækkaði mjög frá 2018–19 og stóð í stað 2020 hækkar nú enn frekar.
Allir liðir hækka, nema einn sem stendur í stað. Mest hækkun er í liðunum ímynd stofnunar, jafnrétti, ánægja og stolt og stjórnun.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er nú hæst meðal systurstofnana sinna (ef notuð er skilgreining reglugerðar 1111/2020).
Síðustu ár hafa verið strembin í heilbrigðiskerfinu, ekki eingöngu vegna kórónaveirufaraldursins heldur margvíslegra breytinga annarra. Það er afskaplega ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir þetta hækki starfsánægja hjá okkur og sé nú hæst meðal jafningja. Áfram er verk að vinna en starfið verður enn skemmtilegra þegar vindurinn er í bakið.
Allir sem eru að velta fyrir sér að læra eða starfa innan heilbrigðisgeirans eiga ekki að hugsa sig tvisvar um heldur stökkva á tækifærin. Það er þrusugaman og gefandi að vinna í heilbrigðisþjónustunni.
Gylfi Ólafsson forstjóri
Ársfundur stofnunarinnar verður haldinn föstudaginn 25. mars á Hótel Ísafirði. Allir velkomnir, á staðinn eða í streymi.