Heilbrigðisstofnun Vestfjarða ásamt fimm sveitarfélögum, Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhrepp, Tálknafirði og Vesturbyggð mun taka þátt í þróunarverkefni sem gengur út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýstu í sumar eftir slíku samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir. Áhugi var mikill og bárust alls 19 umsóknir. Alls taka 22 sveitarfélög og sex heilbrigðisstofnanir um land allt þátt í verkefninu sem er skipt upp í sex svæði.

Þróunarverkefnin eru hluti af aðgerðaáætluninni Gott að eldast en með henni taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti. Markmið þróunarverkefnanna er að finna góðar lausnir á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin.