Fyrir hádegi í dag var búið að taka sneiðmyndir af tveimur fyrstu sjúklingunum á Röntgendeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið hörðum höndum að uppsetningu og frágangi á aðstöðu fyrir nýtt sneiðmyndatæki sem safnað hefur verið fyrir undir forystu áhugamannahóps með góðri þátttöku einstaklinga, fyrirtækja og félaga.

Nauðsynlegt var að ráðast í umfangsmiklar breytingar á röntgendeild sjúkrahússins og urðu þær breytingar heldur meiri en reiknað hafði verið með.  Að þeim loknum var hafist handa við uppsetningu á sneiðmyndatækinu ásamt öllum nauðsynlegum fylgibúnaði. 

Í morgun kom svo vaskur hópur geislafræðinga til aðstoðar við fyrstu myndatökurnar sem tókust vel.

Á þessum tímamótum vill starfsfólk og stjórnendur stofnunarinnar nota tækifærið og þakka öllum velunnurum Heilsugæslustöðvarinnar og Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði kærlega fyrir hinn mikla velvilja og hlýhug sem þeir hafa sýnt nú sem áður.Höf.:ÞÓ