Við erum alltaf að leita leiða til að bæta þjónustuna. Stór liður í þessu er að auka aðkomu fagfólks úr ýmsum heilbrigðisgreinum að þjónustu á heilsugæslu. Þetta gefur læknum meiri tíma til að sinna því sem þau er best í, bætir og flýtir fyrir þjónustu.
Í nokkur ár höfum við verið með hjúkrunarvakt sem vísar veginn, afgreiðir mál samdægurs án þess að bíða þurfi eftir læknistíma en kallar til lækni ef þörf er á.
Fyrr í vetur byrjuðum við einnig með stoðkerfismóttöku sjúkraþjálfara á heilsugæslunni og hefur hún gefist vel. Þar getur fólk bókað tíma, fengið skoðun, ráðleggingar og eftir atvikum beiðni í sjúkraþjálfun.
Þrjár mismunandi tímalengdir læknistíma
Nú viljum við stíga aðeins frá þeim ramma sem föst lengd læknisviðtala setur og aðlaga tímalengdina að þörfum skjólstæðinga. Þess vegna viljum við nú prófa að vera með þrjár tegundir læknistíma. Móttökuritarar ákveða, á grundvelli stuttrar lýsingar á ástæðu heimsóknar, hverslags tími hentar best.
Flýtitími, 10 mínútur: Þessi tími er fyrir fljótafgreidd málefni, til dæmis útbrot, ökuskírteini, eyrnaverkur.
Hefðbundinn læknistími, 20 mínútur: Öll almenn læknisþjónusta.
Lengri tími, 40 mínútur: Fyrir erindi sem taka lengri tíma, til dæmis stór vottorð (endurhæfingavottorð), andleg málefni og viðtöl við fólk með flókna sjúkdóma og/eða langa lyfjalista.
Þess vegna þarf að gefa ástæðu heimsóknar
Af þessari ástæðu munu móttökuritarar okkar nú spyrja um ástæðu komu til að geta gefið skjólstæðingum okkar viðeigandi tíma. Ekki þarf að fara í persónulegar eða ítarlegar útskýringar heldur einungis taka fram ástæðu heimsóknar t.d. verkur í fæti, andleg líðan, kvef eða þörf á ákveðinni tegund af vottorði.
Að sjálfsögðu er fyllsta trúnaðar gætt hér eftir sem hingað til.