Nýtt merki Heilbrigðisstofnunar, sem Sigurður Oddsson hannaði, hlaut á dögunum gullverðlaun Félags íslenskra teiknara—FÍT—í flokki firmamerkja.

Eins og sagt hefur verið áður frá, var mörkunin í heild einnig tilnefnd til verðlauna.

Úr umfjöllun okkar þegar tilnefningarnar voru kynntar:
Sigurður
 hefur áður hlotið viðurkenningar fyrir störf sín. Til dæmis hlaut hann í félagi við myndhöggvarann Matthías Rúnar Sigurðsson og þrívíddarhönnuðinn Gabríel Benedikt Bachmann Hönnunarverðlaun Íslands 2021 fyrir verkefnið Hjaltalín – ∞. Þá hlaut hann fern verðlaun í FÍT-verðlaununum 2021 og enn önnur 2019 svo fátt eitt sé nefnt.

Skemmtilegt og traustvekjandi

„Ég þakka afskaplega gott samstarf við Gylfa, Greip og alla sem komu að undirbúningi og útfæslu á verkefninu. Það þarf oft ekki mjög marga til að gera góða hluti þegar allir leggja sig fram og mér fannst þetta ferli vera mjög gott dæmi um það. Að fá viðurkenningu frá kollegum mínum innan fagsins er síðan ávallt skemmtilegt og traustvekjandi um að við séum á réttri braut,“ segir Sigurður.

Ráðdeild er falleg

„Það var löngu orðið ljóst að þörf var á samræmdu útliti fyrir sameinaða stofnun. Það að hafa þetta allt út og suður endurspeglaði ekki sameinaða stofnun, hentaði illa og svo var það einfaldlega dýrt. Reglulega koma upp spurningar sem þarf að svara; hvaða skilti á að setja upp og hvernig á að merkja fötin og hvernig á heimasíðan að líta út og þar fram eftir götunum? Ef þessum spurningum er öllum svarað í sitthvoru lagi er það miklu dýrara og tímafrekara en að gera það bara einu sinni og gera það vel. Þegar þetta er gert í einu lagi verður þetta líka svona ljómandi fallegt og samræmt,“ segir Gylfi Ólafsson.

„Við vönduðum okkur og settum talsverðan tíma í undirbúninginn. Til dæmis vorum við með lokað forval þar sem við náðum að tryggja hagkvæmni í aðkomu grafísks hönnuðar. Eftir það tók við undirbúningsferli við að ákveða hverslags stofnun við erum og hvaða markmið við höfum með starfinu okkar,“ segir Gylfi.

„Stofnað var teymi innanhúss til að sinna undirbúningnum. Greipur Gíslason veitti framkvæmdastjórn og teyminu ráðgjöf í ferlinu. Við höfum farið fremur hægt í sakirnar, m.a. til að spara pening. Við erum alls ekki búin að innleiða þetta allsstaðar, en þegar við gerum eitthvað nýtt eða endurnýjum vitum við hvernig það á að líta út.“

Nánar má lesa um útlitið hér á vefnum.