Mikill skortur er á starfsfólki til starfa í heilbrigðiskerfinu öllu, og er Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þar engin undantekning.

Ýmsar leiðir hafa verið farnar til að leysa vandann til skemmri og lengri tíma. Ein þeirra var að auglýsa utan landssteinanna með hjálp samfélagsmiðla og drónamynda af náttúrufegurð Vestfjarða.

Talsverður áhugi skapaðist meðal Dana sérstaklega á að koma í skemmri eða lengri tíma og það hefur alveg bjargað okkur.

Tengslin við Danmörku eru sterk innanhúss á Ísafirði. Við erum fyrir með mæðgurnar Anette hjúkrunarfræðing og Kristrúnu sem er uppalin á Ísafirði en lærði sína læknisfræði í Danmörku, auk þess sem Súsanna framkvæmdastjóri lækninga var þar langdvölum við nám og störf, auk margvíslegra tenginga hjá öðrum starfsmönnum.

Á skurðstofunni verðum við í haust með Jørgen, Jan (sem starfað hefur lengi í Danmörku en hefur pólsku að móðurmáli) og Gitte sem standa vaktina eitt í senn talsverðan hluta haustsins. Á heilsugæslunni eru það Casper og Patrick sem eru komnir, og síðar í haust kemur danskt par til starfa.

Það að vera með útlenska lækna leysir hinsvegar ekki allan vanda, sérstaklega vegna tungumálsins. Við höfum þurft að gera talsverðar breytingar á ýmsu starfsfyrirkomulagi innanhúss með orðalistum, þjálfun og leiðbeiningum ýmisskonar fyrir læknana, meðal annars um það hvernig íslenska velferðarkerfið er upp byggt.

Margar lausnir ef allir hjálpast að

Svo eru það samskipti við sjúklinga og aðstandendur. Margir eru mælandi á dönsku, önnur norðurlandamál eða ensku og þá ganga samskiptin vel fyrir sig. Svo er þó ekki um alla. Í þeim tilvikum eru margar lausnir sem við reynum að beita eftir aðstæðum:

  • Aðrir heilbrigðisstarfsmenn—hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, heilbrigðisgagnafræðingar og móttökuritarar—túlka og þýða, og koma jafnvel í útköll gagngert til þess ef þörf er á.
  • Við reynum eins og hægt er að beina þeim sem ekki tala dönsku eða ensku til íslenskra lækna.
  • Við reynum einnig að haga vaktafyrirkomulagi þannig að danskir læknar séu ekki einir á vakt, en þetta gengur ekki alltaf. Til dæmis munu danskir læknar stundum fara á heilsugæsluselin á Flateyri, Suðureyri, Súðavík og Þingeyri.
  • Margir sjúklingar geta tekið með sér aðstandanda sem getur hjálpað til við þýðingar.
  • Í mörgum tilvikum eru það einstök orð sem steytir á, og þá virkar þýðingatækni í snjallsímum og tölvum vel.
  • Unnið er að því að koma upp símatúlkunarþjónustu milli íslensku og dönsku. Nú þegar beitum við símatúlkun þegar sjúklingar kunna hvorki ensku né íslensku og gengur það vel.

Við erum afar ánægð með þetta góða starfsfólk og þann velvilja og aðlögunarhæfni sem sjúklingar og samstarfsfólk hefur sýnt í tengslum við þetta.