Styrktarfélag fatlaðra á Vestfjörðum afhenti á dögunum tannlæknavagn sem staðsettur verður á skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði.
Margt fólk með fötlun þarf að svæfa til að hægt sé að veita því tannlækningar. Það þarf því að gerast inni á skurðstofu, en þá verða sérhæfð tæki tannlækna að vera tiltæk. Á vagninum eru tengi fyrir bora, vatn og þrýstiloft. Nú eru tveir tannlæknar starfandi á svæðinu, Viðar Konráðsson á Ísafirði og Katrín Ugla Kristjánsdóttir í Bolungarvík. Þeim, sem og öðrum tannlæknum sem það vilja, er frjálst að nota vagninn í samráði við skurð- og slysadeild heilbrigðisstofnunarinnar.
Á myndinni tekur Sara Guðmundsdóttir svæfingahjúkrunarfræðingur við tækinu frá Þuríði Sigurðardóttur, Árnýju Björgu Halldórsdóttur og Gerðu Helgu Pétursdóttur.