Sjúkrahús á Ísafirði hlýtur alltaf að hafa fjölþætt hlutverk vegna landfræðilegrar legu sinnar og ekki síst hve mikil þýðing þess er fyrir íbúa byggðarlagsins. Enda hafa starfsmenn þess ætíð unnið af metnaði og gert sitt ítrasta til þess að greiða úr vanda þeirra sem þangað hafa leitað.

 

Þetta fjölþætta hlutverk verður enn ljósara þegar gefið er yfirlit um þá starfsemi sem þarna fer fram allan ársins hring.  Þá sést að hún skiptist niður í einar átta deildir sem allar hafa mikla snertifleti og talsverða skörun á starfskröftum.  Til að nefna dæmi þá kann sami læknir að sinna sjúklingi á göngudeild, öðrum á skurðstofu, taka á móti barni í heiminn með ljósmóður auk þess að sinna inniliggjandi sjúklingum á bráðadeild.  Ljósmóðirin sinnir auk fæðingarinnar, meðgöngueftirliti sem stundum er í samvinnu við lyflækninn vegna áhættumeðgöngu sykursjúkra mæðra, en eftir hádegið gæti hún svo brugðið sér í heimavitjun til konu og barns sem óskuðu snemm-útskriftar eftir fæðingu.  Sjúklingur sem lagðist inn með helftarlömun á bráðadeild fyrir rúmlega tveimur vikum eftir heilablóðfall, er vonandi á eðlilegum batavegi og orðinn tilbúinn til þess að taka næsta skref og hefur endurhæfingu sem kann að taka nokkra mánuði, hann liggur engu að síður í sama sjúkrarúmi og hann fyrst fékk úthlutað og starfsfólkið er nánast allt það sama.  Þessi síðasttaldi sjúklingur þarf, þar með ekki að flytjast á sérhæfðari deild eins og t.d. á Grensás eða Reykjalundi, enda rými þar bæði dýrmæt og væntanlega ásetin þegar. 

 

Þetta eru aðeins nokkur dæmi og auðvitað yrði allt of langt mál að telja hér upp í smáatriðum hvernig starfsemin er.  Það er engu að síður augljóst að starfsemi sjúkrahússins er eins og hver önnur keðja, samsett úr mörgum hlekkjum sem tengjast og vinna saman, og í því liggur styrkur þess og geta.

Tölurnar má sjá á STARFSEMIN Í TÖLUM hér til hliðar.


Höf.:ÞÓ