Á haustdögum hóf áhugamannahópur söfnun fyrir sneiðmyndatæki handa Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Söfnunin hefur gengið afar vel og fjölmargir aðilar sýnt málinu áhuga.

Á blaðamannafundi sem handinn var í matsal stofnunarinnar á Ísafirði í gær kynnti Eiríkur Finnur Greipsson árangur söfnunar sem staðið hefur undanfarna mánuði vegna kaupa á fullkomnu sneiðmyndatæki fyrir stofnunina.

Á fundinum var upplýst að mikill fjöldi félaga, fyrirtækja og eintaklinga hefur lagt hönd á plóginn og safnast hafa nú rúmar 17 milljónir.

Starfsfólk og stjórnendur stofnunarinnar vilja nú nota tækifærið og þakka öllum velunnurum Heilsugæslustöðvarinnar og Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði kærlega fyrir hinn mikla velvilja og hlýhug sem þeir hafa sýnt nú sem áður.

Hafinn er nauðsynlegur undirbúningur að uppsetningu tækisins en í honum felst meðal annars að koma þarf upp stafrænni framköllun röntgenmynda ásamt breytingum á húsnæði. 
Jón Kristjánsson Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur veitt heimild til að ráðist verði strax í allar nauðsynlegar framkvæmdir svo tækið megi komast í gagnið sem fyrst.

Á myndinni má sjá þátttakendur á blaðamannafundinum við sneiðmyndatækið. Myndina tók Halldór Sveinbjörnsson hjá bb.is


Höf.:ÞÓ