Eitt Covid-19 smit hefur verið staðfest á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Tveir íbúar til viðbótar eru í einangrun og eru sýni úr þeim á leið til Reykjavíkur. Átta heimilismenn eru í sóttkví, samtals ellefu manns. Berg er hluti af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Stærstur hluti starfsmanna á Bergi, eða sautján, eru í sóttkví og til viðbótar eru starfsmenn á Bóli einnig í sóttkví. Ból er heimili fyrir fatlað barn sem rekið er í húsnæði sem samtengt er Bergi. Starfsfólk hefur verið flutt eftir föngum af öðrum deildum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til aðstoðar. Þá hefur verið kallað á fólk úr bakvarðasveitum og von er á fólki í dag frá öðrum landshlutum. Verulegt álag er á starfsmönnum á heimilinu og frekari þörf fyrir vel þjálfað starfsfólk á næstu dögum og vikum.

„Staðan er alvarleg en allir eru samstíga í að tryggja öryggi heimilisfólks og starfsfólks,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri.

Verulegar takmarkanir hafa verið á starfsemi heimilisins síðustu vikur og hefur heimsóknabann gilt um nokkra hríð. Það að smit hafi samt sem áður komið upp sýnir hversu lúmsk veiran er. Mikilvægt er að fara eftir öllum leiðbeiningum yfirvalda. Gildir það bæði um almenning og heilbrigðisstarfsfólk. Enn frekar hefur verið hert á smitgát á Bergi vegna þessa ástands, sem og í sambyggðum þjónustuíbúðum fyrir aldrað fólk.

Sýni úr íbúum í einangrun, starfsmönnum og almenningi eru á leið til Reykjavíkur til greiningar. Tölurnar breytast mjög fljótt, en þegar þessi orð eru skrifuð bíða 75 sýni greiningar, þar af 50 sem tekin voru í dag. Staðfest smit eru nú 27. Um fjórðungur Bolvíkinga er nú í sóttkví.

Samráð hefur verið haft við sóttvarnalækni, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögregluna á Vestfjörðum og sveitarstjóra um stöðu mála síðustu daga og aðgerðir.


Hjúkrunarheimilið Berg Bolungarvík

Höf.:SLG