Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ auk Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands og Heilbrigðisstofnunar Austurlands hafa gert samning við Landsspítala-háskólasjúkrahús um umsjón barnalækninga á fyrrnefndum stofnunum.

Verður þjónustan skipulögð í samstarfi við yfirlækna stofnananna en barnalæknar munu koma á þriggja mánaða fresti til viðkomandi stofnana. Er hver heimsókn tveggja daga löng.

Innifalið í þessum samningi er almenn þjónusta barnalæknis, nýburaeftirlit, ungbarnavernd, ráðgjöf varðandi heilsuvernd barna og unglinga og aðgengi að sérfræðilæknum LSH á milli ferða. Þá geta læknarnir þjálfað starfsfólk stofnananna samkvæmt nánara samkomulagi.

Barnalæknirinn heldur samráðsfundi við komu sína og getur einnig haft fyrirlestra eða fræðslufundi sé þess óskað. 

Mikil ánægja er innan stofnunarinnar með undirritun samningsins sem tryggir þessa nauðsynlegu þjónustu fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar og nágrannabyggða.


Höf.:SÞG