Heilbrigðisstofnun Vestfjarða varð til í núverandi mynd árið 2014 með sameiningu þáverandi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunarinnar Patreksfirði. Þá þegar höfðu átt sér stað sameiningar með óreglubundnum hætti áratugina á undan. Fyrst um sinn var lítil þörf eða tæknilegar forsendur til að vera með sérstakt merki fyrir starfsemi af þessum toga, en á seinni helmingi tuttugustu aldar fór það að ryðja sér til rúms.

Merki Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði og Heilsugæslustöðvarinnar á Ísafirði
Merki Heilbrigðisstofnunarinnar Patreksfirði
Merki Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ, sem varð til 1998, fljótlega eftir að Vestfjarðagöng voru opnuð
Heilbrigðisstofnun Bolungarvíkur varð til 1997 með sameiningu Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar. Stofnunin notaði þetta rauða merki
Tvær útfærslur á merki Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sem fyrst varð til 2009 með sameiningu Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur, og hélt nafninu þegar Patreksfjörður bættist við 2014.

Það merki sem síðustu ár hefur verið notað er í sjálfu sér ekki eiginlegt merki, heldur nafn stofnunarinnar skrifað með ákveðnu letri í ákveðnum rauðum lit. Þessu var aldrei ætlað að vera varanleg lausn á auðkenni stofnunarinnar, þó það hafi orðið það.

Í nútímasamfélagi er þetta eiginlega alveg ómögulegt. Þetta virkar illa á tölvuskjám, er rislítið og óeftirminnilegt. Fleira, mistengt merkinu, hefur verið í ólagi: starfsmannafatnaður, útiskilti, merkingar innanhúss, heimasíðan, starfsmannaspjöld og margt fleira.

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021 tókum við frá smá aur til að byrja fyrstu skrefin í að taka til í þessu.

Snemma þessa árs auglýstum við því eftir grafískum hönnuðum til að taka þátt í forvali. Allir sem óskuðu eftir fengu að taka þátt og varð hönnuðurinn Sigurður Oddsson fyrir valinu. Hann á langa og farsæla reynslu af sambærilegum verkefnum, til dæmis fyrir Þjóðminjasafn Íslands, og er handahafi hönnunarverðlaunanna 2021.

Í hönd fór ferli stefnumótunar og úr varð tillaga sem byggði á að setja persónulega þjónusta sett í forgrunn með áherslu á hlýja, nútímalega upplifun. Aðgengilegt og bjartsýnt myndefni er rammað inn með einföldu
en traustvekjandi grafísku kerfi.

Einkennislitir eru tveir, dökkgrænn og kremaður. Sá græni er ekki eingöngu hlýr og jarðbundinn, heldur kallast á við fatnað starfsfólks á skurðstofum. Hann er þó nógu dökkur til að standa í stað svarts litar í texta. Á móti kemur hlýr kremaður litur sem táknar hlýleika og mannlega nánd.

Grænn: Líf, endurnýjun, náttúra, öryggi. Krem: Hlýleiki, mannleg nánd


Merkið sýnir H, V, mögulega S, táknar umhyggju, mannlega nærveru, samfélag, firði og mýkt.

Það kemur í tveimur meginútgáfum, grænu á kremuðum fleti og kremuðu á grænum fleti, þó aðrar útgáfur komi líka.


Merkið sýnir H, V, mögulega S, táknar umhyggju, mannlega nærveru, samfélag, firði og mýkt.

Merkið getur staðið bæði lítið og stórt og hentar þannig vel í tölvukerfi.

Við ætlum einnig að máta okkur við undir nýjum einkennisorðum: Heilir og sælir Vestfirðingar!

Heilir og sælir Vestfirðingar

Bráðadeild verður sjúkradeild og röntgen verður myndgreiningardeild

Ýmislegt kemur í ljós þegar farið er í vorhreingerningu. Það hefur verið ruglingslegt hvort bráðadeildin á Ísafirði heiti bráðadeild eða legudeild, meðal annars vegna þess að hún er í ýmsum skilningi hvorki bráða- legudeild. Á deildinni fer fram mjög fjölbreytt þjónusta, bæði fyrir valkvæða og bráðaþjónustu, og dvöl margra einkennist síst af legu heldur endurhæfingu og hreyfingu.

Til samræmis við það sem gengur og gerist í kringum landið verður því deildinni breytt í sjúkradeild og tekur breytingin formlega gildi um áramótin.

Þá verður nafni röntgendeildar breytt í myndgreiningardeild.

Ný heimasíða

Samhliða nýju útliti setjum við í loftið nýja heimasíðu sem leysir af hólmi þá eldri sem var orðin barn síns tíma. Sú nýja á til dæmis að virka vel í farsímum.

Hvað heitum við?

Erlend tungumál

  • Enska: Westfjords Healthcare Institution (ekki West Fjords, ekki health care, ekki institute)
  • Pólska: Instytucja zdrowia na fjordach zachodnich.
  • Sænska: Västfjordarnas sjukvårdsinstitut
  • Norska: Helse Vestfjord
  • Danska: Vestfjordernes sundhedscenter

Skammstafanir

Stofnunin heitir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Skammstöfunin skal notuð eins lítið og hægt er, og frekar tala um heilbrigðisstofnunina eða stofnunina í texta ef fullt nafn er of langt eða endurtekningasamt. Athugið reglur um stóran og lítinn staf, þ.e. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða með stórum stöfum en heilbrigðisstofnunin eða stofnunin með litlum.

Fallbeygingin er svo:

  • Nefnifall, þolfall og þágufall: Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
  • Eignarfall: Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Skammstöfunin, þar sem nafninu er ekki komið fyrir að öðru leyti, er HVest. Forðumst HVEST, og notum alls ekki H-vest, HvestHSV eða aðrar skammstafanir.

Hönnunarhandbók

Nýju útliti fylgir hönnunarhandbók sem útlistar letur, litanotkun, notkun ljósmynda og annað sem fylgir.

Breytingarnar kynntar 14. desember en taka tíma

Nýtt útlit var kynnt starfsfólki 14. desember 2021. Fánar voru dregnir að húni og stafræn ásýnd stofnunarinnar fær nýjan blæ. Heimasíðan var opnuð í 16. desember.

Við sýnum þó ráðdeild í að nota áfram það sem er nýtilegt, og undirbúa vel þær breytingar sem hljótast af þessu. Hanna þarf útimerkingar, endurskoða alveg merkingar innanhúss, og passa að allar upplýsingar á vefsíðunni séu réttar og góðar.

Gylfi Ólafsson forstjóri