Á næstu vikum verður nýtt tölvusneiðmyndatæki sett upp á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Í kjölfarið fer af stað síðasti áfangi í endurgerð skurð- og slysadeildarinnar. Af þessu hlýst tímabundin takmörkun þjónustu en eftir framkvæmdirnar verður þjónustan betri og nútímalegri.
Tölvusneiðmynd er útfærsla af röntgentækninni. Orkumiklum ljósgeislum er skotið á mannslíkamann úr myndlampa sem snýst umhverfis sjúkling á miklum hraða. Vefir líkamans hindra geislana í mismiklum mæli. Loft, t.d. í lungum, hindrar geislana nánast ekkert, fita og vöðvar meira, og bein mjög mikið. Með þessari tækni er hægt að byggja þrívíða mynd af líkamanum til greiningar og meðferðar.
Nýtt og fullkomið tæki
Núverandi tæki hefur verið í notkun hjá stofnuninni vel yfir áratug og á því teknar yfir 1.000 tölvusneiðmyndir á ári síðustu ár. Árið 2020 fékkst vilyrði frá stjórnvöldum til að hefja þarfagreiningu og útboðsferli til kaupa á nýju.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Sjúkrahúsið á Akureyri leiddu í sameiningu stórt útboð á tölvusneiðmyndatækjum sem sett verða upp á nokkrum stöðum á landinu. Útboðið byggði á samblandi af líftímakostnaði tækis og gæðamati. Tæki af Revolution Ascend-tegund frá GE var bæði ódýrast og best. Healthco er með umboð fyrir þessi tæki á Íslandi.
Nýja tækið er afar fullkomið. Geislaskömmtum er haldið í lágmarki, vélnámi er beitt til að auka myndgæði, þrívíddarskanni er notaður til að staðsetja sjúkling nákvæmlega og skuggaefnissprauta er samtengd. Tækið mun því nútímavæða myndgreiningu mikið, auk þess sem áskrift að áframhaldandi hugbúnaðarþróun framleiðandans er innifalin.
Kostnaður við tækið á líftíma þess, sem er um 8–10 ár, er áætlaður um 150 m.kr.
Þann 11. maí verður gamla tækið tekið niður og því fargað en ekki eru í því neinir nýtilegir hlutir lengur. Ráðgert er að uppsetning taki talsverðan tíma, og að hægt verði að byrja að nota tækið þann 23. maí. Smávægilegar breytingar þarf að gera á húsnæðinu samhliða.
Skurðstofuframkvæmdum lokið í kjölfarið
Þá tekur við lokun á skurðstofunni. Henni verður lokað frá 23. maí til 19. júní, til þess að ljúka framkvæmdum sem hófust fyrir mörgum misserum síðan en hafa tafist m.a. vegna hökts í aðfangakeðjum og heimsfaraldurs. Á meðan á þessari lokun stendur verður reynt að halda eins mikilli þjónustu uppi og hægt er, en óhjákvæmlegt er að stærri verkefni þurfi að senda á önnur sjúkrahús.