Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Vesturbyggð hafa gengið til samninga um rekstur samþættrar heimaþjónustu í sveitarfélaginu. Samningurinn er hluti af verkefninu Gott að eldast, aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum eldra fólks
Heilbrigðisstofnun mun taka að sér rekstur heimastuðnings í samstarfi við sveitarfélagið. Lögð verður áhersla á persónumiðaða nálgun þar sem fagmenn vinna saman í teymisvinnu. Þjónustugátt verður ein, sem þýðir að allar beiðnir um þjónustu fara í gegnum eitt kerfi og mat á þeim verður sameiginlegt verkefni félags- og heilbrigðisstarfsfólks.
Markmiðið með verkefninu er að auka gæði þjónustu fyrir eldra fólk, minnka líkur á að fólk falli á milli þjónustukerfa og fækka innlögnum á sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Með samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu er stefnt að því að þjónustan verði í einu flæði og að brugðist sé fljótt við breyttum þörfum notenda.
Með þessum samningi er stigið mikilvægt skref í átt að betri og skilvirkari þjónustu við eldra fólk í Vesturbyggð, þar sem hámarks nýting fjármuna er tryggð án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar. Vonir standa til um að þessi samþætta heimaþjónusta muni leiða til betri lífsgæða fyrir eldri íbúa sveitarfélagsins.
Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri HVest, og Gunnþórunn Bender, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, undirrita samninginn.