Í gær var boðuð aflétting á höftum frá og með 27. apríl á Flateyri, Suðureyri, Súðavík og Þingeyri. Áfram verða hömlur á samskiptum fólks, skólahaldi og atvinnurekstri á Ísafirði, Hnífsdal og Bolungarvík um óákveðinn tíma. 
 
Hér á eftir koma fimm myndir sem varpa ljósi á stöðu mála. Sjá nótur um aðferðafræði neðst. 
 
Fyrsta myndin sýnir virk smit, fjölda sjúklinga sem hefur batnað og fjöldi sem hefur látist frá 27. mars til dagsins í gær. Á myndinni sést að virkum smitum fjölgaði hægt fram til 2. apríl þegar hópsmit kom upp og í kjölfarið hækkaði talan hratt. Nú á síðustu dögum hefur fólki sem fyrst smitaðist verið að batna, og er því hægt að vonast til þess að hápunkti sé náð í bili og bláa línan fari niður á við héðan í frá. 

 
Á mynd númer tvö eru virk smit sýnd á mynd með virkum smitum á landsvísu. Þar sést hversu langt faraldurinn var genginn á landsvísu áður en hann náði sér á strik á Vestfjörðum. Um tveggja vikna munur er á toppunum tveimur. 

 
Þriðja myndin sýnir uppsafnaðan fjölda smita eftir bæjarfélögum. Bolungarvík og Ísafjörður (vel að merkja ekki Ísafjarðarbær, heldur Ísafjörður og Hnífsdalur) bera þar höfuð og herðar yfir aðra staði á kjálkanum, bæði þegar allur faraldurinn er tekinn til og síðustu tvær vikur.

 
Fjórða myndin bregður þessum smitum í samhengi við íbúafjölda. Nálega 6% Bolvíkinga hafa sýkst af Covid-19, rúmlega 1% Ísfirðinga en nær engir í öðrum bæjum. Á landsvísu hefur um hálft prósent landsmanna sýkst. 

 
Fimmta myndin sýnir svo hlutfall Vestfirðinga af nýgreindum smitum. Nokkra daga hafa Vestfirðingar haft stóran hluta nýrra smita, sérstaklega 10. apríl og eftir það. Þann 19. apríl greindust bæði smit dagsins á Vestfjörðum. Til samanburðar er hlutfall Vestfirðinga af heildaríbúafjölda landsins sett inn á myndina. 

 
Um aðferðafræði
Ekki er fullkomið samræmi milli mynda hvað tölur varðar. Mismunur milli lögheimilis og dvalarstaðar er algengasta ástæða þess. Þá liggja gögn ekki alltaf fyrir niður á rétta dagsetningu. Einnig eru heilbrigðisumdæmi og lögregluumdæmi ekki þau sömu, sem getur skapað ósamræmi. Reynt hefur verið að minnka þetta. 
 
Þá er hægt að benda á, að atvinnusóknarsvæðið er eitt og hið sama. Mörg smit eiga rót sína á vinnustöðum. Það er því ekki það sama að líta á lögheimili eða dvalarstað eða stað þar sem smitið átti sér stað.

Höf.:GÓ