Mjög villandi umræður hafa verið um starfsemi Fjórðungssjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Ísafirði að undanförnu. Ýmsir aðilar hafa farið hamförum í málflutningi sínum en þeir eiga það flestir sameiginlegt að hafa ekki leitað eftir upplýsingum og skýringum hjá stofnuninni um þau mál sem fjallað hefur verið um.

Árið 2004 var haldið áfram með ýmsar breytingar sem styrkja eiga stofnunina í að sinna sínu megin hlutverki sem er að veita íbúum fjórðungssins gestum, ferðafólki og sjófarendum á Vestfjarðamiðum alla bráðaþjónustu sem og aðra sjúkrahúsþjónustu auk heilsugæslu sem unnt er að veita með tilliti til mannafla, aðstöðu og annarra faglegra þátta.

Þetta verkefni hefur verið í gangi undanfarin ár og telja verður að nokkuð hafi miðast fram á veginn eins og sjá má hér á eftir.

Árið 2001 var samið við sérfræðing í hjartalækningum um reglubundnar komur.

Árið 2002 var samið um aukið aðgengi að sérfræðiþjónustu á sviði barnalækninga við Landsspítalann-háskólasjúkrahús.

Árið 2003 voru ráðinn lyfjafræðingur og iðjuþjálfi til stofnunarinnar en hvorki lyfjafræðingur né iðjuþálfi hafa starfað áður hjá stofnuninni.

Árið 2003 var samið við sálfræðing um reglulegar komur tvisvar í mánuði og sá samningur var endurnýjaður í nóvember 2004.

Árið 2004 komu til starfa þrjár ljósmæður til að styrkja mæðravernd, ungbarnaeftirlit og fæðingarþjónustu en árið 2002 var samið við þrjá hjúkrunarfræðinga um að þeir færu í ljósmóðurnám og kæmu til baka til stofnunarinnar að námi loknu.

Árið 2004 kom sérfræðingur í lyflækningum með meltingarfærasjúkdóma sem sérgrein í fullt starf en lyflæknir hafði ekki verið í fullu starfi hjá stofnuninni frá árinu 2000.  
Umræddur lyflæknir tekur meðal annars við því starfi sem öldrunarlæknirinn sinnti áður í verktakaþjónustu með komu einu sinni í mánuði svo sem öldrunarþjónustu og samstarfi við endurhæfingardeild sjúkrahússins um endurhæfingu aldraðra.  Breytingin er því sú að undirsérgrein starfandi lyflæknis við stofnunina er nú meltingafærasjúkdómar en var áður öldrunarlækningar.

Gerður var samningur við hjúkrunarfræðing um sérnám í skurðhjúkrun en hann er væntanlegur til starfa nú í febrúar.

Einn sjúkraliði sem lokið hefur sérnámi í hjúkrun aldraðra samkvæmt samningi við stofnunina hefur hafið störf og þrír aðrir eru í sama sérnámi samkvæmt samningi.

6 hjúkrunarfræðingar eru nú í framhaldsnámi með stuðningi stofnunarinnar en þeir munu allir starfa áfram hér.

Til að styrkja læknisþjónustu á svæðinu var árið 2004 ráðinn annar sérfæðingur í skurðlækningum sem nú sinnir einkum heilsugæslu.

Síðast liðið sumar tilkynnti sá augnlæknir sem hingað hefur komið undanfarin ár til Landlæknis að hann sæi sér ekki fært að fara í fleiri ferðir til Ísafjarðar.  Síðan þá hefur verið leitað eftir augnlækni til að sinna þjónustu við íbúa svæðisins og útlit er fyrir að þessi þjónusta komist í fyrra horf fljótlega.

Kvensjúkdómalæknir mun koma í lok janúar 2005 og vonandi reglubundið eftir það.

Þjónusta tannsmiðs hefur aldrei verið neitt á vegum stofnunarinnar en Ísfirðingar hafa verið svo heppnir að tannsmiður var búsettur hér en hann mun nú vera fluttur.

Ósanngjörn umræða, dylgjur og hálfkveðnar vísur eru ekki til þess fallnar að auðvelda starfsfólki stofnunarinnar að rækja sitt hlutverk.

Um rekstur heilbrigðisþjónustu á svæðinu þarf að ríkja sátt því ófriður um hana er öllum til skaða.

Höf.:ÞÓ