Kvenfélagið Brautin færði Sjúkraskýlinu í Bolungarvík sturtu- og baðstól að gjöf á föstudaginn.

Stóllinn hentar vel til notkunar á Sjúkraskýlinu þar sem baðkar hefur verið fjarlægt og sturta komin í staðinn. Sturtu- og baðstóllinn stuðlar að mikilli vinnuhagræðingu fyrir starfsfólk og líðan sjúklinga við böðun verður betri enda er stóllinn einstaklega þægilegur. Stólinn má einnig nota til hárþvotta og fótaumhirðu auk þess sem hægt er að nota hann sem salernisstól fyrir þá sem þess þurfa.

Starfsfólk Sjúkraskýlisins vill færa Kvenfélaginu Brautinni bestu þakkir fyrir veittan stuðning.
Meðfylgjandi mynd var tekin þegar stjórn Kvenfélagsins Brautarinnar afhenti sturtu- og baðstólinn á Sjúkraskýlinu á föstudaginn en með þeim á myndinni er Díana Dröfn Heiðarsdóttir, forstöðukona á Sjúkraskýlinu, og Hildur Einarsdóttir sem bauðst til þess að prufa stólinn við þetta tækifæri.

Fréttin og myndin eru fengin af vikari.is


Höf.:ÞÓ