Hin árlega inflúensa er farin að stinga sér niður og full ástæða til að halda að eiginlegur faraldur sé yfirvofandi þó útilokað sé að halda því fram með vissu, að því er fram kemur í tilkynningu frá sóttvarnalækni.
Bólusetning er mikilvæg leið til að draga úr alvarleika inflúensuveikinda, sérstaklega hjá áhættuhópum.
Búast má við að bólusetning geti veitt að minnsta kosti 60–70% vörn gegn sjúkdómnum auk þess sem hann verður vægari hjá bólusettum sem veikjast. Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að sem flestir verði bólusettir, ekki síst þeir sem tilheyra forgangshópum.
Inflúensa er veirusýking sem einkennist af háum hita, þurrum hósta, höfuðverk, beinverkjum, oft með hálssærindum og nefrennsli. Einkennin koma snögglega. Hætta á alvarlegum fylgikvillum inflúensu er mest meðal aldraðra og fólks með bælt ónæmiskerfi.
Þeir sem vilja bólusetningu eru hvattir til að hringja á heilsugæsluna og panta tíma í inflúensubólusetingu.