Frumvarp til fjárlaga ársins 2011 var lagt fram fyrir nokkrum dögum.Þar er boðaður stórfelldur sparnaður í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Megininntakið er að starfsemi sjúkrasviða sjúkrahúsa á landsbyggðinni skal aö stórum hluta færð til sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Akureyri. Til verða „heilsugæslusjúkrahús“með áherslu á heilsugæslu, lyflækningar og öldrunarþjónustu. Þessi ?heilsugæslusjúkrahús? eiga að taka við sjúklingum í völdum tilfellum frá Lsp og Fsa eftir aðgerðir og til framhaldsmeðferðar. Heilsugæslan skal sett í öndvegi.

Hvernig snýr þetta að okkur sem búum á norðanverðum Vestfjörðum?

Að ná fram markmiðum Heilbrigðisráðuneytisins

Boðaður er 193 milljóna niðurskurður á sjúkrasviði sjúkrahússins, en efla á sálgæslu ungmenna og efla heilsugæluna.

Til að ná fram þessum markmiðum þarf að leggja niður skurðlæknisþjónustu (skurðlækni, skurðstofuhjúkrunarfræðinga og svæfingarþjónustu), fæðingarþjónustu, lyflæknisþjónustu, röntgendeild, rannsóknadeild, sjúkra- og iðjuþjálfun. Til verður „heilsugæslusjúkrahús“ þar sem heilsugæslulæknar sjá um þá sem þar verða. Hugsanlega mun heilsugæslan geta rekið rannsóknadeild og röntgendeild á dagvinnutíma ef einhver fæst til að vinna á þeim deildum án vakta.

Dagvinna er 40 klst/viku en 168 klst eru í einni viku og hugsanlega verða því rannsóknir í boði 1/4 hluta ársins. Ekki er reiknað með sérfræðingum í skurð- eða lyflækningum í vinnu við stofnunina.  „Heilsugæslusjúkrahús? mun því aðallega sinna svipuðum verkefnum og sjúkraskýli í héraði hafa gert hingað til þ.e annast og hjúkra þeim sem eru komnir á síðasta áfangastað á lífsins vegferð og láta þeim líða vel. Þá verður þar biðstofa þeirra sem þurfa bráðameðferðar við og bíða flutnings.

Bráðameðferð sjúkra og slasaðra

Fram kemur í frumvarpinu að sjúkraflutningar skulu efldir.  Bráð einkenni um alvarlega sjúkdóma eða alvarlegt tjón af völdum slysa þarf að vísa til Reykjavíkur.  Ég segi einkenni um sjúkdóm eða slys því greiningin verður oftar en ekki fengin öðruvísi en með rannsóknum sem ekki verða alltaf í boði heima í héraði þá stundina. . Miklu fleiri verða sendir suður en raunveruleg þörf er á því ekki verður hægt að útiloka að um alvarlegt ástand sé að ræða og ekki verður metið hvort að brjóstverkur eða kviðverkir sem dæmi séu nefnd séu  af alvarlegum toga eða ekki. Sama gildir um brot og liðhlaup á útlimum sem hugsanlega þarf að rétta og festa.  Það hefur hingað til bjargað mörgum að hægt er að fá greiningu og hefja meðferð meðan strax hvort sem beðið er eftir sjúkraflugi eða ekki en þá er það oftar en ekki teymisvinna lækna, svæfingarþjónustu, rannsóknadeilda  (röntgen og blóðrannsókn) og hjúkrunar sem gera það kleift.

 

Afleiðingar

Það verður ekki beint aðlaðandi að taka einn ábyrgð á 6000 manna byggð með ekki nokkur rannsóknar-,greiningar-,eða meðferðarúrræði í boði meðan beðið er eftir utanaðkomandi hjálp þ.e sjúkraflugi eða flytja sjúklinga 450 km landleiðina.  Oft er það nú svo að ófært er bæði flug og landleið vegna veðurs. Hvað þá?

 Fyrirsjáanlega munu einhverjir skaðast vegna fjarlægðar við baklandið í Reykjavík og ótryggra samgangna.  Barnshafandi konur munu þurfa að búa fyrir sunnan amk. síðustu 2 vikur meðgöngunnar því náttúruleg fæðingarstund er aldrei fyrirsjáanleg með fullri vissu. Enginn veit hvaða fæðing verður án áfalla og hver ekki. Þá skipta mínútur máli.  Ekkert verður hægt að gera þó fullbúið sjúkrahús sé á staðnum með öllu sem til þarf til að veita fæðingar- og bráðaþjónusu.Óvíst verður þarafleiðandi með mönnun lækna á heilsugæslusviði.Farið getur því svo að læknisþjónusta leggist alfarið af í héraðinu.

Þjónustan nú

Einn skurðlæknir sinnir sjúklingum á sjúkrahúsi ,gerir aðgerðir á dagvinnutíma og gerir nauðsynlegar bráðaaðgerðir. Hann gerir ómskoðanir og þjónar m.a. einnig sem heilsugæslulæknir þ.e. sér um móttöku á Þingeyri og Súðavík.  Þá er hann með fjölmenna móttöku sjúklinga á dagdeild spítalans tvisvar í viku. Einn lyflæknir sinnir  sjúklingum á sjúkrahúsi, sér um maga- og ristilspeglanir, gerir álagspróf fyrir hjarta og sér um dagdeild sykursjúkra.Hann sinnir öldrunarþjónustu og heimahjúkrun. Lyflæknirinn sinnir einnig heilsugæslu á Flateyri. Þessir 2 sjúkrahúslæknar sinna bráðatilfellum í dagvinnu og eru alltaf til halds og trausts fyrir heilsugæslulæknana sem eru á vakt hvort heldur er á launum eða launalaust.  Heilsugæslan og sjúkrahúsþjónustan er því samofin hér og hefur styrk hvor af annari.  Nýbúið er að sameina læknishérað Bolungarvíkur við Heilbrigðisstofun Vestfjarða. Af því varð umtalsverður sparnaður en um leið aukið álag á vakthafandi lækna hér.

Sparnaður?

Hver verður raunsparnaður af því að leggja niður lækningar að mestu við sjúkrahúsið og breyta í „Heilsugæslusjúkrahús“? 

Um það bil 800 innlagnir eru á sjúkrahúsið hér árlega. Þó ekki nema helmingurinn sé sendur suður með sjúkraflugi eða landleiðina, þá mun það kosta peninga.  Ef hver flutningur kostar 300 þúsund kr. gerir bara það 120 milljónir kr. á ári.  Hvað kostar svo  meðhöndlun allra þessara sjúklinga fyrir sunnan? Samkvæmt sama fjárlagafrumvarpi nákvæmlega ekkert, enda áætlað að verja um 500 milljónum minna til þess arna í Reykjavík en áður. Hver greiðir uppihald og ferðakostnað barnshafandi kvenna (50-70 á ári) sem bíða fæðingar fyrir sunnan?  Kostar ekkert að meðhöndla sjúklinga  fyrir sunnan?  Hvergi kemur fram að á móti sparnaðinum hér fyrir vestan og rústun samfélagsins komi fram neinn kostnaður við flutning eða tilfærsu sjúklinga suður.

Niðurlag

Það er mikið talað um ábyrgð í dag, skiljanlega.  En hver ber ábyrgð á þessum ólögum sem eru lögð fram til höfuðs Vestfirðingum án nokkurs rökstuðnings um raunsparnað. Eða eru stjórnvöld að vonast til að allir flýji suður eða ennþá lengra kannski í norræna velferðarkerfið svo byggð leggist hér af og kosti ekkert.  Þá mun verða auðvelt að selja þá sem eftir verða inn í EB, þegar jafnrétti eymdarinnar er náð.
(Áður birt í Mbl. 18.10.2010)