Fólk sem sækir þjónustu á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á næstunni mun fá SMS með hlekk í stutta þjónustukönnun eftir komuna. Markmiðið er að kanna upplifun fólks af þjónustunni og skoða hvað megi bæta í framtíðinni.
Fólk sem á bókaðan tíma hjá heilsugæslunni fær áminningu um tímann í SMS. Daginn eftir heimsóknina mun svo berast annað SMS í sama númer þar sem spurt er um þjónustuna. Sé fólk ekki með skráð símanúmer á sinni heilsugæslu er hægt að ræða við móttökuritara og skrá númerið við komuna.
Þjónustukönnunin er ný leið til að kanna upplifun af þjónustu ríkisstofnana. Spurt er um hvernig viðkomandi líkaði þjónustan, hvernig viðmót starfsfólks var, um áreiðanleika þeirra upplýsinga sem fólk fékk í heimsókninni og fleira.
Niðurstöður könnunarinnar munu nýtast til að rýna þjónustu hverrar starfsstöðvar og stofnunarinnar í heild. Könnunin verður í gangi í talsverðan tíma til að hægt sé að meta þróunina og hvernig gengur að bregðast við ef gera þarf breytingar á þjónustu.
Við hvetjum þau sem sækja þjónustu til heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og fá könnunina senda í SMS til að taka þátt og svara þjónustukönnuninni.
Nánari upplýsingar um þjónustukönnunina má finna á vef Stjórnarráðsins.