Hildur Elísabet Pétursdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjúkrunar frá 1. janúar 2020. Hún tekur við af Herði Högnasyni. Stöðunefnd um framkvæmdastjóra hjúkrunar taldi hana hæfasta fjögurra umsækjenda um stöðuna sem auglýst var í haust. Hildur hefur starfað hjá stofnuninni í 22 ár, þar af síðustu ár sem farsæll deildarstjóri hjúkrunarheimilanna Eyrar á Ísafirði og Bergs í Bolungarvík.
Í kjölfarið ákvað framkvæmdastjórn að breyta skipuriti stofnunarinnar þannig að hjúkrunarheimilið Tjörn á Þingeyri tilheyrir nú sömu deild og Berg og Eyri. Deildarstjóri á Tjörn verður þá aðstoðardeildarstjóri, og stöður verkefnastjóra á Bergi og Eyri breytast í stöður aðstoðardeildarstjóra. Ný staða deildarstjóra sameinaðrar deildar var auglýst í kjölfarið. Hjúkrunarrýmin eru þar með 46; 30 á Eyri, 10 að Bergi og 6 á Tjörn.
Fjóla Sigríður Bjarnadóttir var ráðin í stöðuna. Fjóla útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 2012 og hefur starfað sem aðstoðardeildarstjóri á Bergi síðastliðin ár. Hún er á síðustu metrunum að klára meistaranám í öldrunarfræðum. Staða Fjólu hefur verið auglýst laus til umsóknar til 10. janúar.
Hildur Elísabet Pétursdóttir
Fjóla Sigríður Bjarnadóttir
Höf.:GÓ