Nú hafa heilbrigðisyfirvöld tekið nýja tækni í notkun sem auðveldar einstaklingum að nálgast helstu upplýsingar í heilbrigðiskerfinu. Heitir þetta kerfi Heilsuvera og er hægt að skrá sig inn á það á vefnum www.heilsuvera.is. Athugið að til þess að geta skráð sig inn í Heilsuveru þarf rafræn skilríki sem hægt er að nálgast t.d. í viðskiptabanka hvers og eins.

Í Heilsuveru sér fólk helstu upplýsingar um það í sjúkrakerfum landsins. Einnig getur það sett inn beiðni um endurnýjanir lyfja og þarf þá ekki að hringja í viðkomandi stofnun til þess. Fær læknir þá erindi þess efnis að lyf þarfnist endurnýjunar og klárar hann þá beiðni að því gefnu að ekkert sé athugavert við slíka beiðni.

Í kerfinu er sumsstaðar hægt að panta tíma rafrænt hjá lækni, en því miður getum við ekki boðið upp á það hér fyrir vestan vegna þess hve vinnutími lækna er óreglulegur. Þeir þurfa stundum að vera á stofu, stundum á vakt og stundum á deild. Á þessu er engin regla vegna manneklu og því ekki hægt að skipuleggja sérstaka tíma í rafræna bókun. Vonandi getum við tekið þessa þjónustu upp sem fyrst en þangað til verður lyfjaendurnýjun að duga.

Hægt er að tengjast Heilsuveru á forsíðu stofnunarinnar, neðst til vinstri.

Við hvetjum alla til að skrá sig inn á Veru og skoða þá möguleika sem þar eru í boði, sjón er sögu ríkari.


Svona lítur innskráningagluggi Veru út.

Höf.:SÞG