Þorsteinn Jóhannesson framkvæmdastjóri lækninga Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, afhenti Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra „Heilbrigðisstjórntæki“ þegar sá síðarnefndi heimsótti stofnunina í morgun.

Reyndar var um hnífsskaft og tvö blöð að ræða. Sagði Þorsteinn að annað væri hægt að nota við fyrirhugaðan niðurskurð sem væri vonandi eingöngu til skamms tíma. Hitt blaðið, sem einnig var flugbeitt, væri hægt að nota til uppskurðar og væri það miklu skemmtilegri notkun en niðurskurður. Þá afhenti Þorsteinn Ögmundi flísatöng sem er afar hentug ef viðfangsefnin eru og smá til að hægt sé að festa hönd á þeim.

Er ekki vanþörf á þessu, þar sem stofnunin þarf, eins og aðrar heilbrigðisstofnanir, að draga saman seglin í náinni framtíð.

Það er hins vegar enginn vafi á, að hnífurinn sá er flugbeittur, því að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, áður Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ, hefur ávallt haldist vel á þeim peningum sem henni eru veittar.

Þess má líka geta að stofnunin og starfsfólk hennar hefur aldrei fyrr þurft að taka þátt í niðurskurði því að hingað til hefur aðhald og sparnaður einkennt reksturinn, allt með þeim árangri að ekki er hægt að tala um neina yfirkeyrslu í rekstri stofnunarinnar undanfarin 15 ár, ef ekki lengur.


Höf.:SÞG