Gylfi Ólafsson hefur verið skipaður forstjóri HVEST. Hann tekur við starfinu af Kristínu B. Albertsdóttur.

Gylfi er heilsuhagfræðingur. Hann lauk B.Ed. gráðu sem grunnskólakennari frá Háskólanum á Akureyri, M.Sc. í hagfræði frá Stokkhólmsháskóla og hefur lagt stund á doktorsnám í heilsuhagfræði við Karolinska í Stokkhólmi frá árinu 2013.

Samhliða doktorsnámi hefur Gylfi starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi í heilsuhagfræði, sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands, auk þess sem hann stofnaði og rak nýsköpunarfyrirtækið Víur í Bolungarvík árin 2013 – 2016. Gylfi var aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra árið 2017.

Gylfi ólst upp á Ísafirði frá barnæsku. Hann er kvæntur Tinnu Ólafsdóttur og eiga þau 2 börn. Starfsfólk HVEST býður Gylfa og fjölskyldu velkomin í heimahagana aftur. Við óskum Gylfa til hamingju með starfið og væntum mikils af samstarfinu við hann í framtíðinni.


Höf.:HH