Lionsklúbbur Ísafjarðar hefur afhent Minningarsjóði Úlfs Gunnarssonar f.v. yfirlæknis og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, mjög myndarlegt fjárframlag, eða eina milljón króna. Framlag Lionsklúbbsins er ætlað til stuðnings kaupa á nýju sneiðmyndatæki fyrir stofnunina. Klúbburinn sem telur innan við 20 félaga, aflar sér fjármuna meðal annars með verkun kæstrar skötu og selur um allt land við góðan orðstír. Við afhendingu gjafarinnar þökkuðu fulltrúar minningarsjóðsins klúbbnum þennan stórhug og velvilja, en Lionsklúbburinn gaf einnig mjög myndarlegt fjárframlag til stofnunarinnar árið 2005. Það hlýtur einnig að teljast ótrúlegt afrek hjá svo fámennum klúbbi að safna svo miklum fjármunum með vinnuframlagi klúbbfélaga.

 

Árið 2005 fór af stað söfnun til kaupa á sneiðmyndatæki til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði (áður HSÍ). Keypt var notað tæki fyrir hluta söfnunarfjárins, sem því miður bilaði á síðastliðnu ári. Liðlega 1.300 einstaklingar höfðu verið rannsakaðir í tækinu á rekstrartíma þess. Mikilvægi þess að hafa slíkt tæki til staðar á stofnuninni, er því óumdeilanlegt með tilliti til styttri rannsóknartíma, markvissari árangurs í sjúkdómsgreiningum, minni kostnaðar þeirra sem notið geta slíkar rannsóknar á heimaslóðum ekki síður en þess þjóðhagslega sparnaðar sem tilvist tækisins leiðir af sér.

 

Söfnunin 2005 gekk svo vel að hún skilaði nálega tvöföldu kaupverði tækisins. Þrátt fyrir mikla veikingu íslensku krónunnar, hafa ný tæki lækkað verulega á markaðnum og þar sem talið var að rekstraröryggi viðgerðs tækis yrði óásættanlegt, var ákveðið á síðastliðnu hausti að kanna möguleika á kaupum nýs tækis. Tilboð barst um nýtt 16 sneiða tæki sömu tegundar og hið gamla 4 sneiða, fyrir liðlega 40 milljónir króna að því tilskyldu að seljandi fengi hið gamla afhent uppí kaupverðið. Stjórn Úlfssjóðs ákvað því að leggjast á árarnar og hafa nú safnast hátt í 40 milljónir króna til kaupa á nýju sneiðmyndatæki og munar þar mestu um myndarlegt framlag Klofnings ehf. kr. 5 milljónir. Enn vantar þó örfáar milljónir til að endar nái saman og því hefur verið ákveðið að leita til fyrirtækja og almennings um frjáls framlög til söfnunarinnar. Söfnunarreikningur sjóðsins er í Sparisjóðnum á Ísafirði og er númer hans 1128-05-2051 kt. 430210-0170.

 

Stjórn Úlfssjóðs væntir góðra undirtekta við þessu ákalli og stefnir á að nýtt tæki verði komið í notkun eigi síðar en í maí á þessu ári.

 

Í stjórn Úlfssjóðs eru:

Þorsteinn Jóhannesson formaður

Eiríkur Finnur Greipsson

Gísli Jón Hjaltason

Hörður Högnason

Myndir er fengin af bb.is


Höf.:ÞÓ