Hópur skjólstæðinga Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur fengið boð um að taka þátt í alþjóðlegri rannsókn á þjónustu við fólk sem leitar til heilsugæslu vegna veikinda.
Hluta skjólstæðinga 45 ára og eldri sem höfðu samband við heilsugæslustöð á sex mánaða tímabili hefur verið boðin þátttaka í rannsókninni. Boð um þátttöku verða send í tölvupósti á þá sem eru með skráð netfang hjá sinni heilsugæslustöð en aðrir fá boð í gegnum SMS-skilaboð í farsíma.
Rannsóknin hefur þann tilgang að skoða bæði aðbúnað heilsugæslustöðva og þá umönnun og meðferð sem fólk fær á stöðvunum. Rannsóknin er unnin af Heilbrigðisvísindastofnun heilbrigðissviðs Háskóla Íslands. Hún er gerð að tilstuðlan Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) og nær til 22 landa.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hvetur þá sem fá boð um að taka þátt í rannsókninni til að taka þátt og svara spurningalista sem það fær. Þar er meðal annars spurt um líkamlega og andlega heilsu, lífsgæði, lyf, einkenni, lífsstíl, aðgengi að þjónustu og samskipti við heilsugæsluna.