Almennt

Vefur Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða er á hvest.is. Vefurinn er ætlaður sem upplýsingasíða fyrir skjólstæðinga, verðandi starfsmenn, almenning, fjölmiðla og núverandi starfsmenn, í þessari forgangsröð.

Ekki er búið að þýða vefinn á ensku eða pólsku enn sem komið er.

Vefurinn er hannaður af GÓ og Sigurði Oddssyni á grundvelli nýs útlits þess síðarnefnda frá 2021. Um útlitið, til dæmis litaval og myndanotkun, vísast til greinargerðar vegna nýja útlitsins.

Hann byggir á WordPress-kerfinu, sem er ókeypis, opið og sveigjanlegt, sérstaklega þegar kemur að viðbótum (plug-ins) og tilkomu Gutenberg-kerfisins. Vefsíðan tekur við af heimasíðu sem í grunninn er frá 2003 en tók breytingum í tímans rás. Síðustu breytingar voru gerðar 2013 og lítilsháttar breytingar 2018.

Vefsíðan er aðgengileg í farsímum.

Hún á að vera með skýrar upplýsingar sem fjalla um allar starfsstöðvar stofnunarinnar á samþættan hátt.

Hún á að vera auðveld í uppfærslu. Það á að vera auðvelt að skima síðuna og ljósmyndir og skýringarmyndir brjóta efni hennar upp.

Leiðarkerfið (kaflaskipting) miðast við vef HSA.is sem er með starfsemi sem er líkust okkar.

GÓ er ritstjóri nokkrir starfsmenn, þ.m.t. lykilstjórnendur, munu styðja við uppfærslu á efninu. Allir stjórnendur bera hinsvegar ábyrgð á að fylgjast með að efni sem heyrir til þeirra sé rétt og uppfært.

Ritháttur og málsnið

Notum einfalt, skýrt og hlutlaust mál. Lesendur okkar eru á öllum aldri með mismunandi bakgrunn og þekkingu.

Höfum setningar stuttar. Það eykur læsileika.

Brjótum texta upp með myndum, skýringarmyndum, millifyrirsögnum, rammagreinum, punktalistum og hófsömum feitletrunum.

Við stefnum að því að vefurinn sé vélþýðanlegur. Því er ágætis æfing að lesa vefinn á ensku með Google Translate og sjá hvað gerist.

Forðumst orð eins og „vinsamlegast“ og „athugið“. Notum ekki broskalla, en táknmyndir má nota í hófi. Forðumst bönn; segjum frekar hvað er leyfilegt („Heimsóknatími er frá 17:00–19:00“ í stað „Heimsóknir eru bannaðar eftir 19:00 og fyrir kl. 17:00“)

Undantekning frá reglum um hlutlaust orðalag er þegar höfundar er sérstaklega getið og eðli efnisins gefur færi á gildishlöðnum orðum eða fjörsprettum í málsniði. Þetta getur t.d. verið þegar starfsmaður er kvaddur eða þegar þakkarpóstar eru settir inn.

Texti á síðum er skrifaður tímalaus eða nota í öllu falli fastar vísanir í tíma (vísa í mánuði og ár í stað þess að vísa í „fyrra“ eða „í gær“). Texti í fréttum og tilkynningum má staðsetja sig í tíma, og þó almennt sé snyrtilegra að vísa til tíma með föstum tilvísunum er í lagi að vísanir í tíma séu afstæðar miðað við birtingardagsetningu.

Almennt fylgjum við auglýsingu um setninu íslenskra ritreglna[1].

Símanúmer eru skrifuð með bili eftir fyrstu þrjá tölustafina (450 4500). Á vefnum og undirskriftum í tölvupósti eru öll símanúmer tenglar (tel:+3544504500).

Klukkutímar eru skrifaðir á sniðinu 00:00. Tímabil eru tengd saman með tengistriki (en-dash, –) sem er lengra en bandstrik en styttra en þankastrik: 17:00, 07:15 og 08:00–17:00.

Nafn stofnunarinnar

Stofnunin heitir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Skammstöfunin skal notuð eins lítið og hægt er, og frekar tala um heilbrigðisstofnunina eða stofnunina í texta ef fullt nafn er of langt eða endurtekningasamt. Athugið reglur um stóran og lítinn staf, þ.e. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða með stórum stöfum en heilbrigðisstofnunin eða stofnunin með litlum.

Fallbeygingin er svo:

  • Nefnifall, þolfall og þágufall: Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
  • Eignarfall: Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Skammstöfunin, þar sem nafninu er ekki komið fyrir að öðru leyti, er HVest. Forðumst HVEST, og notum alls ekki H-vest, Hvest, HSV eða aðrar skammstafanir.

Nafnið á öðrum tungumálum

  • Enska: Westfjords Healthcare Institution (ekki West Fjords, ekki health care, ekki institute) (Ekki heldur nota eignarfallskommu—hvorki Westfjords’Westfjord’s—því þó það kunni að vera málfræðilega rétt (sérstaklega Westfjords’) er því oft sleppt í nöfnum af þessu tagi, það má líta svo á að orðið sé ekki í eignarfalli (sbr. t.d. Statistics Iceland) og sennilega verður auðveldara að halda samræmi með því að sleppa henni). Öll orðin eru með stórum staf skv. amerískri hefð.
  • Pólska: Instytucja zdrowia na fjordach zachodnich. Athugið að í sumum skjölum höfum við óvart skrifað fyrstu tvö orðin sem eitt, Instytucjazdrowia, sem er rangt.
  • Sænska: Västfjordarnas sjukvårdsinstitut
  • Norska: Helse Vestfjord
  • Danska: Vestfjordernes sundhedscenter

Fréttir og tilkynningar

Fréttir og tilkynningar eru birtar á ýmsum stöðum á vefnum.

  1. Á forsíðu er, eftir atvikum, ein aðalfrétt.
  2. Þar fyrir neðan er Facebook-síðan og þrjár fréttir.
  3. Í aðalvalmyndinni er hægt að velja „Fréttir og tilkynningar“, og þar er heildarlisti.

Flokkar/categories við fréttir eru notaðir til að beina fréttum í ákveðnar brautir. Hægt er að velja fleiri en einn flokk.

Þrjár tegundir frétta og tilkynninga sem eru sérstakar, ef þær eru flokkaðar:

  • Sérfræðiþjónusta: fréttir sem eru undir þessum flokki sjást á síðu um sérfræðiþjónustu.
  • Covid-19: fréttir sem eru undir þessum flokki koma á sérsíðu um Covid-19.
  • Aðalfrétt: Ein eða fleiri frétt sem er sett mjög ofarlega á forsíðuna. Gert er ráð fyrir að fréttir séu bara merktar svo tímabundið (2-5 daga), helst að þær séu með mynd með. Mælst er til þess að myndir séu settar með aðalfréttum.

Hægt er að stilla að fréttir „renni út“ í framtíðinni („post expiration“ í viðbótinni „PublishPress Future“). Þetta er notað fyrir tilkynningar um að einhver þjónusta sé lokuð, breytingar á þjónustu eða eitthvað sem á bara við í stuttan tíma en engum gagnast að sé inni á vefnum til framtíðar.

Fréttir af eldri vef voru teknar með, en þó var talsvert mörgum þeirra sleppt, m.a. fréttum af innri vef, fréttum af barnsfæðingum, tímabundnum tilkynningum og tilkynningum um laus störf.

Laus störf

All import-viðbótin er notað til að sækja laus störf. Kerfið virkar þannig að All Import notar notandanafn og lykilorð inn á sérstaka slóð frá Advania sem sækir öll laus störf hjá okkur.

Hvert starf verður til sem ný færsla undir „Laus störf“, og er hægt að breyta þeim þar ef breytingar eiga við sem ekki fara inn á starfatorg. Það er ekki alveg full-prófað hvort færslur sem breytt er haldist breyttar þegar gögn eru sótt aftur.

Þegar færsla er dottin út af Starfatorgi breytist hún í „Drafts“ í kerfinu okkar og hættir þar með að sjást á framendanum.

Athugasemdir

Lokað er fyrir athugasemdir á allri síðunni.

Viðbætur

Kort

Notuð er viðbót sem heitir Maps eða Google Maps (sem er villandi nafn því hún notar núna OpenStreetMaps kortagrunn núna). Fyrst þarf að búa til kort í Maps-viðbótinni, en svo er notaður stuttkóði (shortcode) til að setja kortið inn þar sem það á við. Þetta þýðir að þegar korti er breytt og það er sýnt á fleiri en einum stað, uppfærist það allsstaðar.

Brotnir tenglar

Sett er upp viðbót til að sýna brotna tengla. Það er góð regla að hreinsa þá upp jafnóðum.

Open Graph

Open Graph-viðbótin passar upp á að tenglar sem deilt er á Twitter og Facebook séu þokkalega útlítandi.

Last modified info

Sett er upp sérstök viðbót til að sýna hvenær síðu var breytt síðast. Upphafsstafir þess innskráða eru settir í sviga. Það er með ráðum gert, það er ágætt að innanhúss sé ljóst hver hefur síðast átt við síðuna, en höfundur er samt ekki aðalmálið, svo fullt nafn er of mikið. Skammstöfun er stillt í notandastillingum, best að setja gælunafnið/nickname sem upphafsstafi og velja svo fyrir neðan gælunafnið sem nafnið sem birtist.

Myndir

Ljósmyndir setja mjög góðan svip á síðuna og brjóta hana upp. Hægt er að láta myndir vera litlar eða stórar, og jafnvel setja texta ofan á myndir.

Við notum ekki myndir nema fá leyfi til þess. Hægt er að nota myndir af vefnum ef þær eru merktar þannig að notkun þeirra sé heimil skv. „Creative Commons“ leyfi. Google myndaleitin gefur valkost á þessu.

Aðalmyndir eru teknar af ljósmyndara, en myndir úr starfi stofnunarinnar sem teknar eru á farsíma eru fullkomlega boðlegar að ýmsum einföldum skilyrðum uppfylltum:

  • Persónur sem eru á myndinni hafa gefið leyfi
  • Myndin sýnir starfsemina í þokkalega jákvæðu ljósi
  • Óþarfir hlutar myndar eru skornir af.

Myndatextar

Fjórir mismunandi myndatextar eru í boði í WordPress. Myndatextar hjálpa t.d. blindum og sjónskertum að nota vefinn. Án þess að ætla að gera hlutina of flókna eru þetta viðmiðanirnar okkar:

  • Valkvæmur texti: lýsing á myndinni fyrir blinda og sjónskerta. Ef myndin er bara til skrauts er þetta skilið eftir tómt
  • Titill: Örstutt lýsing
  • Myndatexti: Það sem kemur undir myndina þegar hún er birt með frétt eða á síðu.
  • Lýsing: Lýsing á því sem er á myndinni. Má vera sama og myndatexti.

SiteImprove-skönnun og aðgengileiki

Íslenska ríkið hefur gert samning við fyrirtækið SiteImprove sem skannar vefinn fyrir ýmsum þáttum og gefur henni einkunn. Skönnun fer fram einu sinni á ári, en það gæti verið sniðugt að skanna vefinn einu sinni á eigin reikning utan þess.

Meðal þess sem gefur mínusstig (og er í valdi þeirra starfsmanna sem skrifa á vefinn) er:

  • Brotnir tenglar
  • Fjöldi stafsetningarvillna
  • Fjöldi setninga með fleiri en 20 orð.
  • Hvort birtar séu kennitölur

Annað sem gefur mínusstig

  • Fjöldi pdf-, word- og excel-skjala og aðgengileiki þeirra.
  • Aðgengileiki á farsímum
  • Ýmsir tæknilegir þættir um leturstærð og læsileika, öryggi (ssl) og margt fleira.

 GÓ 10. desember 2021


[1] https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/frettatengt2016/auglysing-um-islenskar-ritreglur.pdf

Uppfært 11. desember 2021 (Ritstj.)

Var síðan gagnleg?