Skurðdeild er staðsett á 1. hæð vesturálmu, gengið er til hægri inn af anddyri. Á deildinni eru fimm fastir starfsmenn. Auk læknis eru tveir skurðhjúkrunarfræðingar, svæfingarhjúkrunarfræðingur og hjúkrunarfræðingur henni til aðstoðar. Tengt skurðdeild er vöknun fyrir sjúklinga sem ekki þurfa á innlögn að halda eftir aðgerð.
Helstu aðgerðir
Helstu aðgerðir sem framkvæmdar eru á skurðdeildinni eru eftirfarandi:
- Kviðsjáraðgerðir, s.s. gallblöðrutaka, botnlangar og greiningaraðgerðir.
- Almennar skurðlækningar, s.s. kviðslitsaðgerðir, æðahnútaaðgerðir, endaþarmsaðgerðir, aðgerðir vegna húðmeina, handaaðgerðir og ýmis konar sýnatökur til greininga. Einnig eru framkvæmdar ófrjósemisaðgerðir fyrir bæði kyn.
- Keisaraskurðir, bráðakeisarar og bráðaaðgerðir eftir fæðingar.
Undirbúningur fyrir aðgerð
Eftirfarandi upplýsingar eru til þess að tryggja öryggi sjúklinga sem best og upplýsa um það hvers má vænta í tengslum við aðgerð og svæfingu. Sjá þarf til þess að einhver geti sótt sjúklinginn og verið hjá honum fyrst eftir aðgerð. Ekki má keyra bíl samdægurs eftir aðgerð, hvort heldur sem þú færð svæfingu eða sljóvgandi lyf.
Fasta og lyf sem tekin eru reglulega
Ekki má borða í sex klukkustundir fyrir aðgerð, oftast er best að borða ekkert eftir miðnætti kvöldið fyrir aðgerð.
Drekka á tæra, agna- og fitulausa vökva þar til tveimur klukkustundum fyrir aðgerð, svo sem vatn, eplasafa, hreint te, svart kaffi, Aqvarius, Powerade, Gatorade eða sambærilega drykki. Ekki má drekka neinar mjólkurvörur.
Venjan er að taka öll lyf samkvæmt venju, sérstaklega astma-, og blóðþrýstingslyf. Oft þarf að hætta að taka blóðþynnandi lyf fyrir aðgerð, en þó aðeins í samráði við lækni. Ef tekin eru einhver lyf að morgnu má taka þau með vatnsopa allt að einni klukkustund fyrir mætingu.
Aðgerðardagur
Að morgni aðgerðardags fer sjúklingur í sturtu og í hrein nærföt. Ekki er æskilegt að bera krem á líkamann eða setja á sig ilmvatn. Þegar komið er á sjúkrahúsið fær sjúklingur sérstakan fatnað til þess að vera í á meðan aðgerð stendur. Notkun tyggjós eða tóbaks er ekki æskileg tveimur klukkustundum fyrir aðgerð. Fjarlægja þarf alla skartgripi fyrir komu í aðgerð, þá sérstaklega tungulokka.
Svæfingarlæknir fer yfir heilsufar, föstu og gefur upplýsingar um svæfinguna. Settur verður upp æðaleggur og oftast er svæft með lyfjum í æð. Börn eru oftast svæfð með grímu sem sett er yfir vit barnsins, þau sofna á innan við mínútu. Foreldrar eru hjá börnum sínum þar til þau sofna.
Tímalengd aðgerða fer eftir því um hvers konar aðgerð er að ræða.
Eftir aðgerð – Á vöknun
Eftir aðgerð geta sumir sjúklingar farið beint heim, aðrir þurfa að dvelja í vissan tíma á vöknun. Á vöknun er fylgst með sjúklingum eftir aðgerðir og tryggt að viðkomandi sjúklingar teljist hæfir til að fara heim. Sjúklingar fara ekki heim fyrr en þeir eru lausir við ógleði, svima eða aðra vanlíðan.
Áður en heim er farið fær sjúklingur viðtal við skurðlækni og upplýsingar um hvers hann má vænta þegar heim er komið í sambandi við þá aðgerð sem hann fór í.
Andri Konráðsson skurðlæknir
Speglanir
Speglanadeild er rekin samhliða skurð- og slysadeild. Framkvæmdar eru ristil- og magaspeglanir, stuttar endaþarmsspeglanir og stuttar speglanir. Speglanir eru gerðar bæði fyrirframákveðnar og í bráðatilvikum.
Frekari upplýsingum um ristilspeglun:
Komur sérfræðinga
Háls-, nef- og eyrnaaðgerðir, s.s. háls- og nefkirtlatökur, rör í eyru og ýmis konar nefaðgerðir eru framkvæmdar af háls-, nef- og eyrnalækni.
Ýmsar smærri aðgerðir vegna kvensjúkdóma, kviðarholsspeglanir, útskaf, fóstureyðingar ofl. eru framkvæmdar af kvensjúkdómalækni.
Bóka þarf tíma hjá sérfræðilækni í afgreiðslu heilbrigðisstofnunarinnar. Afgreiðslan veitir einnig upplýsingar um komur sérfræðilækna á stofnunina.
Opnunartími skurðdeildar
Skurðdeildin er opin alla virka daga frá kl. 08:00-15:00.
Deildin sinnir vaktþjónustu allan sólarhringinn.
Tímapantanir
Tímapantanir fara fram í síma 450 4500, eða í samráði við lækni.
Uppfært 12. apríl 2023 (GÓ)