Sjúkraflutningar
Sjúkraflutningar í umdæminu eru tvískiptir:
- Slökkvilið Ísafjarðarbæjar sér um sjúkraflutninga í Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavíkurhreppi, samkvæmt samningi milli Ísafjarðarbæjar og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Starfssvæðið nær frá miðri Óshlíð, inn í botn Ísafjarðar í Ísafjarðardjúpi og síðan allt vestur á Dynjandisheiði.
- Heilbrigðisstofnunin sinnir sjúkraflutningum í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi. Tveir sjúkraflutningamenn eru á bakvakt á hverjum tíma til að sinna þessu verkefni.
Rauði kross Íslands sendir reikninga fyrir sjúkraflutningum, skv. verðskrá.
Sjúkraflugvélar lenda á Ísafirði og Bíludal, auk þess sem þyrlur og skip Landhelgisgæslunnar, auk björgunarsveita hjálpa til þegar aðstæður krefjast.
Prestar
Prestar Þjóðkirkjunnar eru reglulegir gestir á stofnuninni.
Prestsþjónusta við stofnunina er þríþætt:
Í fyrsta lagi er vikuleg heimsóknarþjónusta, sem felst í því að á hverjum mánudegi kemur prestur og heimsækir inniliggjandi sjúklinga. Klukkan 15:30 er hann svo við helgistund í kapellunni, en starfsfólk sjúkradeildar og Eyrar aðstoðar íbúa og sjúklinga við að komast niður í kjallarann þar sem kapellan er staðsett. Ennfremur geta sjúklingar eða aðstandendur þeirra óskað eftir að prestur líti til þeirra í heimsókn til samtals og stuðnings. Prestarnir í Ísafjarðarprestakalli skiptast á að sinna sjúkrahúsinu, en skipulag þjónustunnar er í höndum sóknarprestsins á Ísafirði.
Í öðru lagi sinnir sóknarprestur neyðarþjónustu. Alltaf er einhver prestur á bakvakt gagnvart sjúkrahúsinu og hægt er að kalla hann út hvenær sem þörf er á sálgæslu eða stuðningi prests, til dæmis vegna andláts, slysa eða náttúruhamfara.
Í þriðja lagi kemur prestur og messar á jóladag á hjúkrunarheimilinu Eyri
Á starfssvæði heilbrigðisstofnunarinnar eru tvær sóknir; Ísafjarðarsókn og Patreksfjarðarsókn.
Uppfært 10. janúar 2025 (JEÚ)