Heilsugæslustöðin á Ísafirði veitir almenna heilsugæsluþjónustu fyrir íbúa í Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavíkurhreppi. Starfssemin er í austurálmu fyrstu hæðar sjúkrahússins að Torfnesi. Læknar heilsugæslunnar fara í hverri viku til Bolungarvíkur, Súðavíkur, Suðureyrar, Flateyrar og Þingeyrar. Á heilsugæslustöð er öll almenn læknisþjónusta, ráðgjöf og eftirlit. Heilsuvernd er í samvinnu við starfsfólk á heilsugæslu.
Heilsugæslustöðin á Patreksfirði veitir almenna þjónustu fyrir íbúa í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi. Starfsemin er á annari hæð sjúkrahússins á Patreksfirði. Læknir fer vikulega til Tálknafjarðar og Bíldudals.
Hægt er að panta tíma eða símtal við lækni í síma 450 4500 á Ísafirði eða í síma 450 2000 á Patreksfirði, alla virka daga frá kl. 08:00-15:00.
Bólusetningar
Bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlegan smitsjúkdóm. Bóluefnin eru ýmist unnin úr veikluðum veirum eða bakteríum eða þau innihalda efni sem finnast í þessum sýklum. Bóluefnin sjálf valda litlum einkennum, en vekja upp mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að fólk veikist af sjúkdómnum sem bólusett er gegn. Sjá frekari fróðleik um bólusetningar á heimasíðu Landlæknisembættisins.
Heilsugæslan annast allar almennar bólusetningar:
- Bólusetningar barna og fullorðinna
- Ferðamannabólusetningar – frekari upplýsingar fást á heimasíðu Landlæknisembættisins.
- Bólusetningar við inflúensu og lungnabólgu
Bólusetningar vegna Covid-19 eru veturinn 2021–22 alla jafna á fimmtudögum. Þar sem upplýsingar breytast hratt um reglur og fyrirmæli vegna þeirrar bólusetningar, eru nánari upplýsingar gefnar jafnóðum í tilkynningum og á Facebook-síðu okkar.
Endurnýjun lyfseðla
Frá og með mánudeginum 29. apríl 2019 eru tvær leiðir til að endurnýja lyfseðla hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða:
1. Heilsuvera
Á vefnum heilsuvera.is er hægt að endurnýja lyfseðla fljótt og hvenær sem er, með rafrænum skilríkjum. Einfaldar leiðbeiningar er að finna á YouTube. Fólk er hvatt til að nýta þessa leið.
Við úrvinnslu umsókna ganga umsóknir af Heilsuveru fyrir.
2. Endurnýjun í síma
Virka daga frá kl. 10:00-11:00 er hægt að hringja í síma 450 4500 og velja 3. Einungis er hægt að endurnýja lyf sem fólk hefur áður fengið skrifað upp á hjá læknum stofnunarinnar. Í gegnum síma er ekki hægt að sækja um lyfjaendurnýjun á svefnlyfjum, sterkum verkjalyfjum, róandi lyfjum og öðrum eftirritunarskyldum lyfjum. Þess í stað þarf að panta símatíma/viðtal hjá lækni.
Fólk er hvatt til að sýna fyrirhyggju og óska eftir endurnýjun lyfja í tíma. Við reynum að afgreiða beiðnir samdægurs, en annars innan tveggja virkra daga.
Heilbrigðisskoðanir vegna atvinnu- og dvalarleyfis
Heilsugæslan annast sértækar heilbrigðisskoðanir vegna atvinnu. Þar er bæði um að ræða skoðanir á starfsmönnum í sérstökum áhættuhóp t.d. vegna starfsskilyrða, eða vegna heilbrigðisvottorðs í tengslum við atvinnuleyfi útlendinga.
Læknisskoðun vegna dvalarleyfis
Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ annast heilbrigðisskoðun innflytjenda og gefur út heilbrigðisvottorð þeim til handa sem hyggjast sækja um atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi.
Fyrir útgáfu vottorðs þarf að fara fram heilbrigðisskoðun í samræmi við ákvæði sóttvarnarlaga nr. 19/1997 og reglugerðar nr. 131/1999. Heilbrigðisskoðunin, sem vottorðið byggir á, fer þannig fram:
- Viðtal og skoðun læknis
- Í flestum tilfellum eru gerðar eftirfarandi rannsóknir:
- Berklapróf hjá þeim sem eru 35 ára og yngri
- Tekin er röntgenmynd af lungum hjá þeim sem eru eldri en 35 ára til að útiloka virka berkla
- Tekin er blóðprufa þar sem leitað er að:
- Eyðni/alnæmi (HIV)
- Lifrarbólgu B
- Lifrarbólgu C
- Sárasótt (syphilis)
Hjá þeim sem fara í berklapróf er nauðsynlegt að koma tvisvar (aflestur á berklaprófi fer fram 2-3 sólarhringum eftir að próf er gert). Ef berklapróf er jákvætt er tekin lungnamynd til að útiloka virka berkla.
Ef niðurstöður HIV-, lifrarbólgu- og/eða sárasóttarprófa gefa tilefni til er sjúklingur boðaður aftur í viðtal.
Ef allar niðurstöður eru eðlilegar skrifar læknir heilbrigðisvottorð og sendir til útlendingaeftirlits.
Gera má ráð fyrir að útgáfa vottorðs taki 2-3 vikur.
Skili þessi próf, og önnur sem læknir sér ástæðu til að framkvæma, neikvæðum niðurstöðum, gefur heilsugæslulæknir út heilbrigðisvottorð sem heimilar umsækjenda að starfa á Íslandi.
Hægt er að panta tíma í skoðun í síma 450 4500 alla virka daga frá kl. 08:00-15:00.
Krabbameinsleit
Nú er krabbameinsleit komin yfir til heilsugæslunnar. Árleg brjóstaskoðun fer fram á landsbyggðinni eins og fram kemur á vefsíðu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Skipulög leit að forstigum leghálskrabbameins er framkvæmd á heilsugæslunni á Ísafirði. Erla Rún Sigurjónsdóttir ljósmóðir sér um skoðanirnar og allar konur sem hafa fengið boð um að mæta í skoðun geta pantað tíma í gegnum skiptiborð stofnunarinnar í síma 450 4500.
- Frekari upplýsingar um brjóstakrabbamein má finna hér: í þessum bæklingi frá landlækni um brjóstakrabbamein.
- Frekari upplýsingar um leghálskrabbamein má finna hér: Skimun vegna frumubreytinga í leghálsi.
Polskie
Badanie przesiewowe w kierunku raka piersi
Badanie przesiewowe w kierunku zmian komórkowych szyjki macicy
English
Screening for breast cancer
Screening for abnormal cells in the cervix
Örorkumat
Almenn Örorka
Umsækjandi fyllir út umsóknareyðublað. Læknir umsækjanda fyllir út örorkuvottorð. Þar eiga að koma fram upplýsingar um sjúkdóma eða fötlun, hjúskaparstöðu, menntun og störf umsækjanda, starf maka og fleiri félagsleg atriði. Tryggingalæknir metur örorku umsækjanda á grundvelli upplýsinga í læknisvottorði.
Við mat eru tekjur síðasta og líðandi árs m.a. hafðar til hliðsjónar, en jafnframt tekið mið af verkkunnáttu, starfsreynslu o.fl.
Gildistími er mismunandi, t.d. eitt ár, þjú ár, fimm ár. Að gildistíma liðnum þarf að fara fram endurmat nema örorkumat sé varanlegt. Biðtími eftir niðurstöðu mats er allt að sex vikur eftir að umsókn og læknisvottorð hafa borist.
Örorkustig
75% örorka eða meiri: Örorkulífeyrir. Umsækjandi telst alveg eða að mestu óvinnufær.
50 – 65% örorka: Örorkustyrkur. Vinnufærni er talsvert skert eða sjúkdómsástand hefur í för með sér verulegan aukakostnað.
Örorka minni en 50%: Engar örorkubætur.
Greiðsla örorkulífeyris eða örorkustyrks fellur niður við 67 ára aldur og við tekur ellilífeyrir.
Örorka vegna slysa
Slysatryggingar almannatrygginga ná til viðurkenndra vinnuslysa, íþróttaslysa og afleiðinga læknisaðgerða á opinberum stofnunum (en ekki einkastofum lækna). Varanleg örorka vegna slyss er metin þegar sýnt þykir að hinn slasaði nái ekki frekari bata eða heilsu. Metin er svokölluð læknisfræðileg örorka. Stuðst er við staðlaðar örorkumatskröfur, þar sem ákveðnir áverkar eru metnir til örorkustigs í hundraðshlutum. Sams konar áverkar eru metnir til sama hundraðshluta.
Sá slasaði er alla jafna boðaður í viðtal og skoðun til tryggingalæknis en áður þurfa að liggja fyrir nauðsynlegar upplýsingar um afleiðingar slyssins. Í undantekningartilvikum er örorka vegna slysa metin á grundvelli læknisvottorða eingöngu, án skoðunar tryggingalæknis.
Afleiðingar bótaskylds slyss eru einungis metnar, en ekki örorka vegna sjúkdóma sem viðkomandi kann að hafa verið haldinn fyrir slys. Matið er óháð tekjum og félagslegum aðstæðum. Ekki er litið til þess hver áhrif örorkan hefur á getu til að afla tekna.
Biðtími eftir niðurstöðu mats vegna bótaskyldra slysa er 2-4 vikur frá því að læknisskoðun fer fram.
Örorkustig
50% örorka eða meiri: Örorkubætur greiddar mánaðarlega til 67 ára aldurs.
10 – 49% örorka: Eingreiðsla örorkubóta.
9% örorka eða minni: Engar örorkubætur.
Læknadeild Tryggingastofnunar ríkisins annast örorkumat og veitir nánari upplýsingar í síma 560 4420.
Uppfært 31. ágúst 2023 (MÞ)