Fjölbreytt og áhugaverð sumarstörf fyrir námsmenn eru í boði hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Störfin eru hluti af atvinnuátaki stofnunarinnar í samstarfi við Vinnumálastofnun og eru 9 störf í boði. Tvö störf eru á suðursvæði við sjúkrahúsið á Patreksfirði og sjö störf á norðursvæði við sjúkrahús og heilsugæslu á Ísafirði og hjúkrunarheimilin á Þingeyri, Ísafirði og Bolungarvík.
Umsóknarfrestur er til 10. júní. Námsmenn eru hvattir til að sækja um og bætast í öflugan hóp starfsmanna Hvest.
Frekari upplýsingar og umsóknarferli eru á vef Vinnumálastofnunar; fyrir suðursvæði og fyrir norðursvæði.
Á suðursvæði eru tvö störf:
Mótun verkferla á starfsstöð án lífeindafræðinga. Eitt starf.
Á sjúkrahúsinu og heilsugæslunni á Patreksfirði er ekki starfandi lífeindafræðingur og vegna smæðar stofnunarinnar stendur það ekki undir sér. Áður starfaði þar þó lífeindafræðingur. Þar starfa hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og verktökulæknar, og nokkuð er af tækjum til mælinga og greininga. Fara þarf í gegnum þau tæki og þann búnað sem er á staðnum, farga því sem ekki á lengur við, gera leiðbeiningar fyrir þau tæki sem til staðar eru og skrifa verkferla
|
Átak í geymslu skriflegra gagna og sjúkraskráa. Eitt starf.
Á sjúkrahúsinu á Patreksfirði er varðveisla ýmissa gagna, þ.m.t. eldri sjúkraskráa, í ólestri. Fara þarf í gegnum skjalasöfn á staðnum; flokka og kortleggja. Einnig þarf að undirbúa grisjun sem fara þarf fram eftir sérstökum ferlum. Starfsmaður þyrfti að vera sjálfstæður. Vinnutími er sveigjanlegur.
|
Á norðursvæði eru 7 störf:
Átak í mannauðsmálum: Eitt starf.
Á mannauðssviði eru mörg verkefni sem bíða vinnufúsra handa. Sérstaklega eru málefni sem snúa að móttöku nýliða og starfslokum og verkefni sem tengjast fræðslumálum. Stytting vinnuvikunnar er framundan og til þess að það gangi vel fyrir sig þarf undirbúningurinn að vera góður.
|
Innleiðing Power BI og gerð ferla við söfnun og geiningu tölulegra gagna. Eitt starf.
Meðal áherslumála hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er að nýta gögn til gagns; að nýjar upplýsingar um stofnunina séu aðgengilegar og þeim beitt til að taka betri ákvarðanir og bæta þjónustuna. Þessi gögn koma úr ýmsum áttum, t.d. fjárhagskerfi, starfsemiskerfum og starfsmannakerfi. Mikil vinna er fólgin í að finna til gögnin, skilja hvað þau merkja, gera ferla sem sameina gögn á einn stað og birta þau þannig að engin hætta sé á að viðkvæm gögn fari lengra en þeim er ætlað. Verkið er komið af stað, en enn er mikið verk fyrir höndum. Unnið er í samvinnu við forstjóra, fjármálastjóra og heilbrigðisgagnafræðinga. Vinnutími er sveigjanlegur.
|
Hreyfi og skemmtistjóri á hjúkrunarheimilum. Tvö störf.
Starfið er nýtt, hreyfi- og skemmtistjóri hefur frumkvæði að hreyfingu og skemmtunum fyrir íbúa á hjúkrunarheimilium Hvest eftir getu íbúa. Miðað er við einstaklingsmiðaða hreyfingu og nálgun, megin markmið þessa starfs er að auka gleði- og samverustundir íbúa. Dæmi um hreyfingu og samverustundir geta verið t.d. göngutúrar, hjólatúrar, dorgveiði og setja niður sumarblóm. Dæmi um samverustundir: Undirbúa sumarhátíð, mögulega fá íbúa til að lesa sögur, leika í leikriti, syngja og spila. Dæmi um skemmtilegar heimsóknir: Fá hunda, kisur, kanínur, hesta og heimalinga í heimsókn á hjúkrunarheimilin. Hreyfi- og skemmtistjórar hafa möguleika á að vinna saman.
|
Skjalavarsa og málaská, Covid-gögn og sögulegar heimildir. 3 störf.
Þörf er á átaksverkefni í málum sem tengjast skjölum og gögnum stofnunarinnar. a) Skjalavarsla og málaskrá er ekki með þeim hætti sem best er á kosið. Halda þarf áfram kortalagningu og flokkun skjala og gagna í vörslu stofnunarinnar. Undirbúa þarf innleiðingu á nýju skjalakerfi. b) Apríl var undirlagður af COVID og að mörgu leyti merkilegir atburðir sem áttu sér stað. Safna þarf saman þeim gögnum og setja upp tímalínu atburða sem unnið verður með þegar viðbrögðin verða gerð upp. c) Flokkun, skráning og skönnun á sögulegum gögnum úr starfsemi stofnunarinnar og forvera hennar. Gert er ráð fyrir allt að þremur stöðugildum sem skipta með sér verkum og hafa með sér samstarf eftir reynslu, þekkingu og aðstæðum.
|
Höf.:SLG