Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að styrkja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni með því að ráðast í sameiningu heilbrigðisstofnana á fjórum svæðum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi.

Á Vestfjörðum er um að ræða sameiningu Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ og Heilbrigðisstofnunarinnar Bolungarvík.

Markmiðið með þessum aðgerðum er að auka og styrkja þjónustu við íbúana, nýta betur þekkingu fagfólks og skapa sterkari rekstrareiningar. Sameiningin skapar sömuleiðis möguleika á því að auka nærþjónustu við íbúana, t.d. með reglubundnum komum sérfræðilækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna til hinna ýmsu starfsstöðva á viðkomandi svæðum.

Heilbrigðisráðherra hefur falið embættismönnum ráðuneytisins að vinna að sameiningunni í náinni samvinnu við heimamenn á næstu mánuðum. Fulltrúar ráðuneytisins munu á næstu vikum heimsækja og funda með fulltrúum viðkomandi sveitarfélaga, forsvarsmönnum stofnana, fagfólki og fleirum. Stefnt er að því að tillögur um framkvæmd sameininganna liggi fyrir í byrjun júní og að þær verði að fullu komnar til framkvæmda um næstu áramót.


Höf.:ÞÓ