Fallegir pakkar og vel settir umbúðum eru hvurju mannssálartetri augnayndi. Slíkum pökkum fylgir því oft mikil gleði, bæði hjá þeim sem pakkar inn enda mikil og ósíngjörn vinna að baki og einnig hjá hinum sem tekur á móti enda dýrðin honum til heiðurs og nytja.

Ekki var það uppi á teningnum á rannsóknadeild HVest þegar tekið var á móti pökkum frá ónefndu fyrirtæki en þó sveif viss gleði yfir vötnunum því öllum að óvörum var einum pakka ofaukið: skyldi geta verið að birgjarnir væru að losa sig við útrunnið konfekt sem ekki var hægt að troða ofan í viðskiptavininn fyrir jól? Við nánari eftirgrennslan (pakkinn var sem sagt opnaður) kom allt annað í ljós. Lítill og borulegur pappakassi var umkringdur kæliefnum í kassa, sem óhætt er að segja að hafi verið talsvert stærri en varan sem hann átti að verja. Á þessum síðustu, en kannski ekki verstu, umhverfisverndartímum var viðbúið að slík pökkunargleði væri fyrir bí. Svo er alls ekki sem augsýnilegt er. Því er ekki hægt að lá neinum, leikmanni eður prófessjónal, að láta nokkur vel valin orð falla um slíkt athæfi – umbúðalaust, eða ekki.


Pakkinn góði og örvinglaður starfsmaður rannsóknar


Það ætti að fara vel um greyið…

Höf.:SÞG