Í morgun hófst námskeið fyrir vettvangsliða á Ísafirði. Eftir snjóflóðin á Flateyri í byrjun árs var ákveðið að boða til slíkra námskeiða bæði á suðursvæði og norðursvæði Vestfjarða. Fékkst sérstök fjárveiting frá heilbrigðisráðuneytinu til að halda námskeiðin. Ekki var næg þátttaka á suðursvæðinu að þessu sinni en þeim sem sóttu um þaðan var boðið að taka þátt á norðursvæði með niðurgreiðslu á ferðakostnaði.

Vettvangsliðar eru sjálfboðaliðar sem brúa bilið frá fyrsta viðbragði og skyndihjálp þar til frekari hjálp berst á svæðið.

Marmkiðið er að samfélag sem einangrast vegna utanaðkomandi þátta svo sem veðurs eða ófærðar, verði betur í stakk búið til að bregðast við í neyð og sinna bráðatilfellum þegar liðið getur langur tími þar til önnur sérhæfð þjónusta berst. Þannig geta þorp sem eru langt frá sjúkrahúsi eða eiga á hættu að lokast af, sinnt brýnustu heilsufarsvandamálum sem upp geta komið.

Þátttakendur á námskeiðinu eru frá Tálknafirði, Þingeyri, Suðureyri, Súðavík og Flateyri og er það Sjúkraflutningaskólinn á Akureyri sem sér um námskeiðið.


Þátttakendur á námskeiðinu ásamt Gylfa Ólafssyni forstóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Sigurði A. Jónssyni slökkviliðsstjóra á Ísafirði

Höf.:SLG