Gagngerar endurbætur á hjúkrunarrýmum á Patreksfirði og ný 10 rýma eining við hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði eru komin á framkvæmdaáætlun yfirvalda. Með þessum tveimur verkefnum er þörfum fyrir hjúkrunarrými á Vestfjörðum til fyrirsjáanlegrar framtíðar mætt.

Í morgun birti heilbrigðisráðuneytið nýja samantekt um stöðu framkvæmdaáætlunar um uppbyggingu hjúkrunarrýma og framhald þeirrar áætlunar til ársins 2024. Meðal þeirra fjögurra verkefna sem koma ný inn á áætlun eru gagngerar endurbætur á hjúkrunarrýmum á Patreksfirði til að bæta aðbúnað, og 10 ný rými á Ísafirði.

Á Patreksfirði eru hjúkrunarrými nú í húsnæði sem er úr sér gengið og ekki í samræmi við nútímakröfur. Þannig eru mörg tveggja manna herbergi og eitt þriggja manna. Lengi hefur verið beðið eftir úrbótum, en ekki gert ráð fyrir fjölgun rýma. Hjúkrunarrýmin eru rekin samhliða sjúkrarýmum og þó áfram verði samrekstur eru kröfur sem gerðar eru til þessara tveggja eininga mismunandi og þarf aðbúnaður að taka tillit til þess. Einnig er komin þörf á talsverðar endurbætur á eldhúsi og ýmsum húsakosti. Ekki hefur verið ákveðið hvort og hvernig byggt verður við núverandi húsnæði. Áætlað er að framkvæmdum ljúki 2023. 

Á Ísafirði opnaði hjúkrunarheimilið Eyri um áramótin 2015-16 með þremur tíu rýma einingum og leysti þá af hólmi öldrunardeildina á sjúkrahúsinu. Alltaf var ljóst að þörf yrði fyrir fjórðu eininguna og var húsið hannað með það í huga að hafa pláss fyrir hana á lóðinni. Hjúkrunarheimilið var byggt með svokallaðri leiguleið, þar sem Ísafjarðarbær á og rekur húsnæðið og leigir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Ekki er lengur byggt með leiguleiðinni. Áætlað er að framkvæmdum ljúki 2024. 

Næstu skref eru þau að Framkvæmdasýsla ríkisins fær verkefnin tvö til undirbúnings. Þar þarf meðal annars að eiga samráð við sveitarfélög á svæðunum.  

„Reiknilíkön hafa lengi sýnt aukna þörf fyrir hjúkrunarrými á Ísafirði, og léleg aðstaða á Patreksfirði hefur verið öllum ljós og óviðunandi. Við klippum ekki á borðana á morgun enda mörg úrlausnarefni eftir, en bæði loforð og tímaáætlun gera alla áætlanagerð einfaldari,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri. 

 


Sjúkrahúsið á Patreksfirði


Útlínur fyrirhugaðrar viðbyggingar við Eyri á Ísafirði.


Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Hildur Elísabet Pétursdóttir deildarstjóri Eyrar og Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar á fyrirhuguðum stað nýrrar einingar.

Höf.:GÓ