Þann 29. sepbember fór fram kynning á lýðheilsuvísum í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem ætlað er að gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar á hverjum tíma. Lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda stjórnvöldum og öðrum að greina stöðuna, finna styrkleika og áskoranir og skilja þarfir íbúa þannig að hægt sé að vinna með markvissum hætti að því að bæta heilsu og líðan á öllum æviskeiðum.

María Heimisdóttir landlæknir bæði opnaði og lokaði fundinum. Hún byrjaði á því að fjalla um tilgang lýðheilsu og í lokin ítrekaði hún að þetta væru vísar sem gefa vísbendingar um stöðuna og hversu mikilvægt það væri að fólk á vettvangi legði svo mat á stöðuna og ynni frekar með gögnin. Hún ræddi um mikilvægi samstarfs og samtals þvert á geira samfélagsins og mikilvægi þess að koma saman eins og í dag við kynningu á Lýðheilsuvísunum.

Lúðvík Þorgeirsson forstjóri heilbrigðisstofnunar Vestfjarða var fundarstjóri og þar tóku til máls Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, María Heimisdóttir, landlæknir, Guðrún Aspelund, sóttvarnarlæknir, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsu hjá embætti landlæknis, Dagný Finnbjörnsdóttir tengiliður heilsueflandi samfélags hjá Ísafjarðarbæ og Margrét Geirsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar. Kynningin var opin öllum og einnig var henni streymt. Það spruttu upp góðar og gagnlegar umræður í lok fundar þar sem snert var á ýmsum málefnum og rannsóknum á viðfangsefninu og stöðunni í Ísafjarðarbæ.

Frekari upplýsingar um fundinn er að finna hér : https://island.is/s/landlaeknir/frett/lydheilsuvisar-2025-kynntir-a-isafirdi