Veturinn 2025-2026 verða HPV bólusetningar gjaldfrjálsar fyrir pilta í árgöngum 2008-2010. Bólusetning gegn HPV hefur verið gerð óháð kyni frá haustinu 2023 við 12 ára aldur, og verður átakið því gert til viðbótar við almennar bólusetningar þriðja árgangsins sem fær HPV bólusetningu óháð kyni.

  • Árgangur 2010 fær boð í bólusetningu gegnum heilsugæslu nú í haust, í flestum skólum verður bólusett í 10. bekk þegar bólusetningum í 7. bekk er lokið. Nánara skipulag framkvæmdar í hverjum skóla fyrir sig verður kynnt forsjáraðilum og nemendum af heilsugæslu en verður með mjög svipuðum hætti og aðrar skólabólusetningar.
  • Árgöngum 2008-2009 verður boðin bólusetning síðar í vetur. Þessir árgangar hafa lokið grunnskólagöngu og eru sjálfstæðir hvað varðar heilbrigðisþjónustu. Upplýsingagjöf til þeirra árganga gegnum Mínar síður Heilsuveru er háð því að piltarnir hafi rafræn skilríki og noti sjálfir Heilsuveru.
    • Heilsugæsla í framhaldsskólum er með öðrum hætti en í grunnskólum, en heilsugæslan kemur að upplýsingagjöf um átakið og e.t.v. verða bólusetningar í boði í skólunum sem verður þá kynnt sérstaklega þar sem það á við.
    • Piltar sem ekki eru í skóla eru hvattir til að fylgjast með vefsíðu heilsugæslu sem þeir eru skráðir hjá og/eða þar sem þeir eru búsettir varðandi tilkynningar um hvernig bólusetningum verður háttað þar.

Heilsugæslan á hverju svæði mun birta upplýsingar um hvenær boðið verður upp á HPV bólusetningar á heilsugæslustöðvunum fyrir þessa árganga og hvernig fyrirkomulag verður með bókanir o.þ.h. þegar það hefur verið ákveðið, væntanlega fyrir áramót.

Átakið beinist að því að sem flestir einstaklingar fái HPV bóluefni og verður því einungis þeim piltum í árgöngum 2008-2010 sem enga bólusetningu hafa fengið gegn HPV boðið bóluefni án endurgjalds.

Nánari upplýsingar er að finna á vef landlæknis : https://island.is/hpv-human-papilloma-virus